07.04.1964
Efri deild: 65. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Þar sem lögin um stofnlánadeild landbúnaðarins eru til umræðu hér í deildinni nú, þykir mér rétt að varpa fram örfáum spurningum, þar sem við erum það vel settir hér í deildinni, að hv. 6. þm. Norðurl. e. fer með þau málefni að miklu leyti, sem stofnlánadeild landbúnaðarins fjallar um, þ.e.a.s. þær lánveitingar, sem deildin innir af hendi.

Þá er það í fyrsta lagi: Verður ekki mjög fljótlega farið að afgreiða þær lánsumsóknir, sem liggja fyrir, úr veðdeild Búnaðarbankans vegna jarðarkaupa, sem þegar hafa átt sér stað og munu eiga sér stað á þessu vori? Ég segi fyrir mitt leyti, að ég hef umboð fyrir nokkra menn, sem standa í jarðarkaupum og hafa lagt fram lánsbeiðnir í veðdeildinni, ýmist fyrir eða eftir síðustu áramót, og ég veit um nokkra, sem munu senda lánsbeiðnir, áður en langt um líður. Því væri æskilegt að vita, hvort þessir aðilar geti ekki átt von á hliðstæðum lánum og deildin innti af hendi s.l. ár.

Þá er það í öðru lagi: Verður ekki farið að afgreiða þau stofnlán, sem bárust of seint fyrir s.l. áramót, til þess að þau yrðu þá afgreidd, og menn vænta sér að geta fengið nú, áður en langir tímar líða, þar sem þeir eru þegar búnir að inna framkvæmdir af hendi, sem þessi stofnlán munu verða veitt út á?

Og í þriðja lagi: Er ekki þess að vænta, að þeir aðilar, sem kaupa sér dráttarvélar á þessu ári, muni geta fengið stofnlán til þeirra kaupa, eins og verið hafa, nokkurn veginn jafnóðum og vélarnar koma til landsins?

Mér finnst þetta allt vera það aðkallandi mál fyrir bændur að vita nú, að ég vænti þess, að hv. 6. þm. Norðurl. e., sem er bankastjóri Búnaðarbankans, geti gefið nokkurn veginn óyggjandi svör í þessum efnum.