07.04.1964
Efri deild: 65. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (566)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 6. þm. Norðurl. e. fyrir svörin við þeim spurningum, sem ég lagði hér fyrir hann. Ég sé það á þeirri skýrslu, sem hv. þm. hefur hér gefið, að eins og sakir standa kann að vera erfitt um vik fyrir þessar einstöku deildir Búnaðarbankans að inna sínar skyldur af hendi. En ég vil vænta þess, að hv. þm. ásamt þeim hæstv. ráðh., sem hér eru, þar sem er fjmrh. og landbrh., reyni að gera sitt bezta til þess að leysa þessi mál á þann veg, að bændur landsins geti nokkurn veginn fengið lán eftir hendinni til sinna framkvæmda.

Það er alveg rétt hjá hv. þm., að bændur hafa oft orðið að bíða eftir lánum. En ég hygg, að flestir bændur líti þannig á nú, þar sem þeir eru sérstaklega skattlagðir í því skyni að fá lán úr stofnlánadeild landbúnaðarins, að þá eigi þeir þó frekari kröfur á hendur deildinni en áður var.

Það eru dálítið leiðinlegar fréttir, finnst mér, ef það er staðreyndin, að bændur eigi mjög erfitt með að standa í skilum með sínar skuldbindingar við stofnlánadeildina. Þetta sýnir í fyrsta lagi það, að bændurnir hafa ekki fengið þau lán með hagkvæmum kjörum, sem þeir þurftu. Og í öðru lagi bendir það okkur á það, að við verðum að vera vel á verði um það að hafa stofnlánin hverju sinni það há, að ekki komi til stórfelldrar lausaskuldasöfnunar, eins og því miður ég er hræddur um að eigi sér stað nú, enda þótt lánveitingar í krónutölu hafi hækkað allmikið úr stofnlánadeild landbúnaðarins. Þá liggur ekkert fyrir um það, hvað háar lausaskuldir hafa myndazt hjá bændum vegna hinna sömu framkvæmda, og það er það, sem alltaf verður erfiðast viðfangs hjá hverjum og einum bónda, að velta áfram svo og svo miklum lausaskuldum ásamt stofnlánum, sem ekki eru með neitt sérstaklega hagfelldum kjörum miðað við það, sem bændastéttin jafnan hefur áður haft.

Ég þakka svo hv. þm. fyrir greinargóð svör, og ég veit, að hann gerir sitt bezta til að leysa þessi mál, og ég vænti, að hæstv. ríkisstj. styðji bankann til þeirra hluta.