19.03.1964
Neðri deild: 71. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

156. mál, skemmtanaskattur

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed. og var þar samþykkt með shlj. atkv., eftir að hv. menntmn. þeirrar d. hafði mælt shlj. með samþykkt frv. Efni þess er mjög einfalt, það eitt að framlengja það álag, sem um langt skeið undanfarið hefur verið innheimt á skemmtanaskatt. Sú breyting ein felst í þessu frv. frá því, sem áður hefur átt sér stað, að undanfarið hefur sá siður skapazt að framlengja þetta álag til eins árs, frá ári til árs, en hér er gert ráð fyrir, að það sé ekki framlengt til eins árs, heldur um ótakmarkaðan tíma. Hið háa Alþingi hefur að sjálfsögðu eftir sem áður alveg í hendi sinni að breyta upphæð skemmtanaskattsins, hækka hann eða lækka, og hefur þetta auðvitað engin áhrif á það, en hitt hefur ríkisstj. og hennar embættismönnum þótt óeðlilegt, að flytja þing eftir þing frv. um framlengingu á gjöldum, sem áratugahefð er komin á að innheimta. Sem sagt, í frv. felst engin breyting á upphæð skemmtanaskattsins, heldur eingöngu ótímabundin framlenging á innheimtu skattsins, á sama hátt og hún hefur tíðkazt um mjög langt skeið undanfarið.

Ég vona, að þessi hv. d, geti orðið sammála um afgreiðslu þess frv. eins og hv. Ed., og leyfi mér að leggja til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.