11.02.1964
Neðri deild: 54. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (592)

96. mál, girðingalög

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Frv. þetta var flutt samhliða frv. til nýrra vegalaga, sem afgreidd voru fyrir jól. Hins vegar þótti ekki ástæða til að hraða þessu frv. eins mikið og vegalögunum sjálfum, en engu að síður þarf það að fá afgreiðslu.

Frv. fjallar eingöngu um girðingar meðfram vegum. Í 12. gr. núverandi girðingalaga eru ákvæði um, hvaða fjarlægð skuli vera frá vegi til girðingar. Nú hefur Alþingi ákveðið í hinum nýju vegalögum, að fjarlægð girðingar frá vegi skuli tilgreind í reglugerð. Frv. þetta gerir ráð fyrir því að breyta 12. gr. í samræmi við þá breytingu, sem þegar hefur verið gerð á vegalögunum.

Þá er gert ráð fyrir, að niður falli 13.–16. gr. gildandi girðingalaga. Efni þessara greina hefur verið tekið upp í 77.–79. gr. vegalaganna. 13. gr. er að efni til í 76. gr. vegalaga og fjallar um það, að enginn megi gera girðingu yfir veg með hliði á veginum án leyfis vegamálastjóra o.s.frv. 14. gr. er að efni til í 77. gr. vegalaga, en þar er talað um, að ef leyft sé að gera girðingu með hliði á vegi, skuli grind í hliðinu vera 4 m breið. Þarna er sú breyting gerð í vegalögunum, að talað er um, að hlið skuli vera þannig, að það haldist opið af sjálfu sér, meðan ekið er um hliðið, en í girðingal., sem þingið væntanlega breytir með þessu frv., er talað um, að hlið skuli vera þannig, að opna megi með því að taka til hendi af hestbaki. 15. gr. girðingal. er að efni til í 78. gr., og 16. gr. er að efni til í 79. gr.

Rétt er að benda hv. þm. á, að 9. gr. girðingalaganna helzt áfram óbreytt, en í henni eru ákvæði um greiðslu girðingarkostnaðar, ef vegur er lagður um tún eða ræktað land. Þar að auki eru í nýju vegalögunum almenn ákvæði um greiðslu bóta fyrir tjón, sem verður á löndum manna við vegagerð.

Frv. var flutt fyrir áramót og gert ráð fyrir, að það öðlist gildi sem lög 1. jan. 1964. Er það eina breytingin, sem samgmn. leggur til, að 3. gr. orðist svo: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Með þessari breytingu leggur n. einróma til, að frv. verði samþykkt.