16.04.1964
Efri deild: 69. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

96. mál, girðingalög

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir um breyt. á girðingalögunum, er raunverulega fylgifrv. með vegalagafrv., sem samþ. var hér fyrir jólin.

Girðingalögin í heild eru í endurskoðun hjá n., en sá hluti girðingalaganna, sem fjallar um girðingar meðfram vegum og yfir vegi, gat þó ekki beðið endurskoðunar, heldur er þetta sérstaka frv. flutt til samræmis við ákvæði vegalaganna, sem sett voru hér á Alþingi í vetur.

Samgmn. hefur athugað þetta frv. og mælir eindregið með því, að það verði samþ. eins og það liggur fyrir, en þetta frv. hefur þegar verið samþ. í Nd. Þar var sú eina breyting gerð á því, að ákvæðinu um gildistíma var breytt, því að þegar frv. var upphaflega lagt fram, var gert ráð fyrir, að það gæti öðlazt gildi 1. jan. 1964, en var síðan breytt á þá leið, að lög þessi öðlast þegar gildi.

Ég endurtek, að samgmn. mælir einróma með því, að frv. verði samþ.