09.04.1964
Efri deild: 66. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

165. mál, ferðamál

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér óþarft að fara mörgum orðum um þetta frv. til l. um ferðamál, sem hér liggur fyrir, þar sem hv. dm. er þetta flestum vel kunnugt frá síðasta þingi, en í fyrra var þetta frv. lagt fram og afgreitt héðan úr d., en varð ekki útrætt í Nd. Þá má einnig vísa til framsöguræðu hæstv. samgmrh. við 1. umr. málsins hér í hv. d. En í stuttu máli sagt hefur okkur vantað löggjöf um ferðamál, og það er sá skortur, sem verið er að bæta úr með þessu frv.

Frv. var vísað til samgmn., og hún hefur athugað það. N. er sammála um að mæla með því, að þetta frv. verði samþ. með þeirri breytingu, sem fram kemur í nál. Það er smávægileg breyting við 5. gr., sem er fyrst og fremst til samræmis og leiðréttingar, að hækka þar hlutafjárupphæð úr 200 þús. í 350 þús. til samræmis við þá tryggingarfjárhæð, sem nefnd er fyrr í þessari gr.

Þetta frv., eins og ég sagði áður, var borið hér fram í fyrra. Það hefur þó verið gerð breyting á 17. gr. frv., miðað við ákvæði þess, eins og það var, þegar það kom fram í fyrra, en það var aðalbreytingin, sem samgmn, gerði þá á frv., og sú breyting hefur í öllum aðalatriðum verið tekin til greina í þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Þá er rétt að geta þess, eins og reyndar kemur fram í áliti n., að tveir menn úr samgmn., þeir hv. 4. þm. Austf. og hv. 1. þm. Vesturl., hafa áskilið sér rétt til að flytja frekari brtt. við frv.