14.04.1964
Efri deild: 68. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (610)

165. mál, ferðamál

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Við meðferð þessa máls hér í samgmn. kom þessi hugmynd fram, sem flutt er till. um á þskj. 444. En þessi till. fékk ekki undirtektir hjá meiri hl. samgmn. Það má á það minna, að í fyrra, þegar þetta frv. var afgr. úr þessari hv. d., voru ákvæðin um ferðamálasjóð nákvæmlega þau sömu og eru í frv. nú, og þá varð enginn ágreiningur hér í d. um 29. gr. Í sjálfu sér mundi þetta fyrirkomulag, sem gert er ráð fyrir í till., ekki breyta miklu, því að gera má að sjálfsögðu ráð fyrir því, að ráðh. muni að jafnaði fara eftir till. ferðamálaráðs, ef þær eru einróma gerðar. En á hitt ber að líta, að ferðamálaráð er fyrst og fremst ráðgefandi aðili í sambandi við ferðamálin og það er fyrst og fremst skipað fulltrúum ýmissa fyrirtækja og samtaka, sem hafa hagsmuni af því, að ferðamannastraumur liggi til landsins. Og þegar á þetta er litið, hlutverk ferðamálaráðs annars vegar og hins vegar, hvernig það er saman sett, þá verður það að teljast eðlilegt, að ráðh. hafi úrslitaráðin um það, hvernig fer um lánveitingar úr ferðamálasjóði, enda er ferðamálasjóður fyrst og fremst byggður upp með fjárframlögum frá ríkinu og fyrir lánum, sem hann tekur, er veitt ríkisábyrgð.