21.04.1964
Neðri deild: 82. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (615)

165. mál, ferðamál

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Lengi hefur verið talað um það, að Ísland eigi að verða ferðamannaland og þjóðin geti haft miklar tekjur af móttöku ferðamanna. Nú er svo komið, að í raun og veru er þjónusta við ferðamenn orðin verulegur atvinnuvegur hér á landi, og þjóðin hefur nú þegar af þessu miklar tekjur. Nægir að benda á samgöngukerfið þessu til sönnunar, tekjur flugfélaga og þann fjölda manna, sem hefur atvinnu við bifreiðar, bifreiðaþjónustu, flugvélar og flugþjónustu, skip og siglingar hér á landi. Þess vegna er tími til kominn, að Alþingi gangi frá nýju frv. til laga um ferðamál, vegna þess að s.l. áratug eða svo hefur hver tilraunin á fætur annarri verið gerð til þess að skapa samkomulag um slíka löggjöf, þótt það hafi hingað til ekki tekizt.

Nú er hér á ferð frv. til l. um ferðamál, flutt af ríkisstjórninni, byggt á reynslu undanfarinna ára og umr. um þessi mál og að lokum undirbúið af sérstakri nefnd. Um þetta frv. hefur orðið samkomulag í Ed., og það er til okkar komið í Nd., án þess að teljandi deilur hafi orðið um nokkur atriði í því.

Frv. þetta er í fimm köflum. Í 1. kafla eru almenn ókvæði um ferðaskrifstofur, allmiklu ýtarlegri og að ýmsu leyti strangari en hér hafa tíðkazt áður. Ferðaskrifstofur eru stofnanir, sem selja farmiða og aðra þjónustu og hafa með höndum allmikið fé fyrir aðra, sem síðan veita þessa þjónustu. Þess vegna þykir rétt hér eins og annars staðar að gera til þeirra allstrangar fjárhagslegar kröfur, og kemur það fram í þessum kafla. Hér hafa risið upp allmargar ferðaskrifstofur á undanförnum árum, en vonandi ætti þessi löggjöf að skapa þeim fastari grundvöll til starfa og stuðla að áframhaldandi traustum rekstri þeirra.

II. kaflinn fjallar um ferðamálaráð, og er hugmyndin um það um það bil áratugagömul hér á Alþingi. Þetta á að vera ólaunað ráð, sem á fyrst og fremst að fjalla almennt um ferðamál, koma með hugmyndir og ráðleggingar, sem yfirvöld og aðrir geta farið eftir. Ætlunin er, að í þessu ráði verði fulltrúar frá helztu fyrirtækjum, stofnunum og samtökum, sem hafa með málefni ferðamanna að gera.

Í III. kafla er fjallað um Ferðaskrifstofu ríkisins. Hún hefur starfað um langt árabil og að mörgu leyti gefið ágæta raun. Hins vegar hafa verið miklar deilur síðustu ár um það ákvæði, að Ferðaskrifstofan hefur lögum samkvæmt einkarétt til að taka á móti erlendum ferðamönnum. Þetta ákvæði þótti eðlilegt, þegar Ferðaskrifstofan var stofnuð, og var gert í þeim hug að tryggja sem bezta þjónustu og sem ábyrgast starf á þessu sviði. Hins vegar hafa aðstæður breytzt verulega, og þykja nú margar aðrar ferðaskrifstofur og margir aðrir aðilar vel færir um að taka að sér slíka móttöku. Er því lagt til í þessu frv., að Ferðaskrifstofan hafi ekki áfram þennan einkarétt. Er það mála sannast, að Ferðaskrifstofan sjálf, sem bezt þekkir þessi mál, hefur ekki haldið fast í þetta atriði síðustu ár, og framkvæmdastjóri skrifstofunnar er einn þeirra þriggja manna, sem sömdu þetta frv. Hins vegar hefur ekki verið valinn sá kostur, sem stundum hefur verið stungið upp á, að afnema ríkisafskipti af ferðamálum. Þvert á móti er gert ráð fyrir, að Ferðaskrifstofa ríkisins starfi áfram, og henni fengin nokkur ný verkefni, auk þess sem búið er um fjárhagslega hnúta þannig, að hún geti gegnt hlutverki sínu við landkynningu í ríkari og betri mæli í framtíðinni en nokkru sinni hingað til.

Í IV. kafla eru ákvæði um ferðamálasjóð, sem ætlað er fyrst og fremst að styðja byggingu gisti- og veitingahúsa, þar sem þeirra er brýnust nauðsyn, til þess að móttaka ferðamanna geti verið sem snurðulausust um landið allt.

Loks eru svo ýmis frekari ákvæði, sem ekki er þörf á að rekja hér.

Samgmn. þessarar d. hefur fjallað um frv. og mælir einróma með því, að það verði samþykkt.