03.12.1963
Neðri deild: 23. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti: Ég ætlaði í raun og veru að falla frá orðinu til að flýta fyrir því, að þetta mál næði fram að ganga. Ég skal gera það að mestu og nær öllu leyti.

Hv. frsm. sparkaði hér í allar áttir í framsöguræðu sinni með furðulegum hætti, þegar þess er gætt, að sagt er, að mikill áhugi sé fyrir því, að þetta gangi fljótt fram og verði orðið að lögum fyrir 6. þ. m. En þeir hafa svo rækilega svarað honum tveir, að ég sé ekki ástæðu til að bæta miklu þar við. Það er aðeins tvennt, sem ég vil minnast á.

Hann sagði, að ég hefði viðhaft óviðeigandi skæting í mínum málflutningi um daginn. Ég sagði það þá, að það mætti setja hans málflutning í hnotskurn á þann hátt, að hann hefði svarað hv. 5. þm. Reykv., Þórarni Þórarinssyni, því, að af því að borgað væri að fullu fyrir suma á elliheimilum og það yrði gert áfram, þá skipti ekki máli, hvernig aðstaða hinna væri samanborið við 1958.

Ég ætla nú þeim, sem lesa þingtíðindin seinna, ef þeir verða einhverjir, að dæma um það, hvort hér var um skæting að ræða eða ekki. Þm. flutti mál sitt þannig, að hann sagði, að röksemdir Þórarins Þórarinssonar, að menn stæðu verr að vígi að greiða daggjöld á elliheimilunum með ellilaununum nú, fengju ekki staðizt vegna þess, að Þórarinn Þórarinsson hefði ekki viljað taka til greina, að borgað væri að fullu fyrir suma. Hvað kom það við ellilaunum til hinna, sem borgað var fyrir menn á sjúkradeildinni á elliheimilinu? Auðvitað kom það ekkert við ellilaunum til hinna, og þess vegna var þetta rétt lýsing á málflutningi hv. þm., sem ég gerði í nokkrum orðum, þó að honum hafi gramizt.

Þá sagði hv. þm., og það vil ég ekki láta standa ómótmælt, að Framsfl. hefði mjög oft verið fjandsamlegur í tryggingamálunum. Ég vil minna á það einu sinni enn, að það Framsfl., sem ásamt Alþfl. kom hér fyrst fram löggjöf um almannatryggingar, tryggingalöggjöfinni. Og það ætla ég að hafi verið þýðingarmesta skrefið, sem stigið var, og verið grundvöllur að öllu hinu. Og það var Framsfl., sem ásamt Alþfl. steig þetta skref, en ekki man ég betur en Sjálfstfl. hafi þá verið á móti. Þessu virðast hv. Alþfl.-menn algerlega vera búnir að gleyma, en þetta er engin ástæða til að láta liggja í láginni og ekki heldur hitt, að Framsfl. hefur verið fylgjandi öllum endurbótum, sem gerðar hafa verið á tryggingalöggjöfinni, en aðeins einu sinni lagt til, að frv. um þau efni væri frestað, þ.e. 1945, hygg ég, að það hafi verið, sem við lögðum til, að frv. væri frestað til þess að athuga það betur, sérstaklega til að athuga betur skipulagsbreytingu, sem þar átti að gera. Síðan lætur þessi hv. þm. sér sæma að halda því fram, að Framsfl. hafi a.m.k. mjög oft verið fjandsamlegur tryggingunum, og hann færir m.a. fram þau rök, að einhverjir sveitarstjórnarmenn, sem hljóti að vera framsóknarmenn sumir, hafi mælt í móti því að afnema verðlagssvæðaskiptinguna. Skyldi maður þó halda, að það skipti meira máli í þessu sambandi en hitt, hvað einstakir sveitarstjórnarmenn víðs vegar um landið hafa álitið um þetta. En svona var málflutningur þessa hv. frsm., sem átti að hafa það hlutverk að koma þessu máli fljótt og vel gegnum þingið.

Ég mun láta þetta nægja, því að aðrir hafa drepið á önnur atriði, en ég vil þó að endingu segja út af því, að þeir eru sífellt, — og meira að segja hæstv. ráðh. lét sér sæma að minnast á það nú nýlega, — að þeir eru sífellt að reyna að koma þeirri skoðun inn, að við sem vorum með Alþfl.-mönnum í ríkisstj., vinstri stjórninni svokölluðu, höfum fellt eða komið fyrir kattarnef endurbótatill. Alþfl. á almannatryggingunum. Við erum nú búnir að marglýsa því yfir hér hver um annan þveran, sem vorum í þessari ríkisstj., að í þessu er engin hæfa og enginn flugufótur fyrir þessu. Alþfl. bar ekki fram neinar endurbótatill. í þeirri ríkisstj., sem við felldum eða vorum mótfallnir að yrðu fluttar. Eins og hv. 5. þm. Reykv. réttilega tók fram, þá voru bornar fram till. um að taka til endurskoðunar alþýðutryggingarnar, og sú endurskoðun var yfirstandandi, þegar vinstri stjórnin fór frá. Það er blátt áfram ósæmilegt að halda áfram að klifa á þessu, þrátt fyrir það að þetta er rækilega upplýst að vera rangt, hvað eftir annað.