21.01.1964
Neðri deild: 42. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

111. mál, lyfsölulög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er ósköp lítið mál, sem hér er á ferðinni, eins og það ber með sér. Efni þess er aðeins að breyta fresti, sem settur var í lyfsölulögunum, þegar þau voru afgreidd á sínum tíma, að breyta honum nú úr 6 mán. og upp í 12 mán., — fresti, sem aðilar höfðu til að sækja um, að sérlyf verði tekin hér á skrá. Það var að áliti landlæknis nokkuð naumur frestur þegar í öndverðu, og eins og kemur fram í aths., hafði orðið nokkur dráttur á, að lyfjaskrárnefnd gæti hafið störf, og þótti því eðlilegt að framlengja þetta, sem þýðir, að fresturinn hefði runnið út að óbreyttu og rann þá út um síðustu áramót, en með þessari breytingu yrði hann framlengdur um 6 mán., eða í 12 mán. frá öndverðu.

Ég legg svo til, að málinu verði vísað til hv. heilbr.- og félmn. og 2. umr.