03.12.1963
Neðri deild: 23. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég sé nú ekki ástæðu til að tala langt mál og tel líka sjálfsagt að greiða fyrir því, að þetta frv. fái sem skjótasta afgreiðslu.

Það hefur verið staðfest hér af hæstv. félmrh., að það var ákveðið í almannatryggingalögunum 1956, að skerðingarákvæðið skyldi falla úr gildi 1960, og sést á því, að sú stjórn, sem þá fór með völd, kom þeim málum fram, en núv. stjórn gerði ekki annað en að sjá um, að lögunum yrði framfylgt í þessum efnum. Og það var einnig óbeint viðurkennt af hæstv. félmrh., að ekki síðar en í marz 1960 hefði allt stjórnarliðið hér á Alþ. greitt atkv. gegn því að gera landið að einu verðlagssvæði og meira að segja ég kallaður kommúnisti, 11. þm. kommúnista, fyrir að greiða atkv. með þeirri till., að landið yrði gert að einu verðlagssvæði. Þegar það er athugað, sé ég ekki mikla ástæðu til þess, að hæstv. ríkisstj. sé að hreykja sér af því að hafa loksins fallizt á þetta mál fyrir seinustu kosningar, eftir að hennar andstæðingar eru búnir að halda uppi mikilli baráttu um það að gera landið að einu verðlagssvæði.

En ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta, en ég vildi aðeins minnast að lokum nokkrum orðum á þá útreikninga, sem hér hafa verið í sambandi við elliheimilið Grund. Ég vil aðeins endurtaka það, að ég álít, að það sé réttara dæmi upp á það, ef menn vilja kynna sér, hvort hlutur gamla fólksins hefur farið batnandi eða versnandi, að bera saman þær hækkanir, sem orðið hafa á dvalarkostnaði á elliheimili, heldur en á framfærsluvísitölunni, því að dvalarkostnaður á elliheimili er alveg áþreifanlegt dæmi og sýnir einmitt þá aukningu, sem hefur orðið á framfærslukostnaði þess fólks, sem hér er um að ræða, miklu betur en framfærsluvísitalan, sem fjallar um talsvert aðra aðila, eða barnafjölskyldu, þar sem þarfirnar eru að ýmsu leyti aðrir. Þess vegna held ég, að það sé alveg hárréttur samanburður, þegar menn vilja gera sér grein fyrir því, hver hefur verið framfærslukostnaður hjá gömlu fólki á undanförnum árum, að miða við dvalarkostnað á elliheimili. Og ef taka á eitthvert eitt heimili sérstaklega, þá á að sjálfsögðu ekki að taka neitt heimili frekar en Grund, sem er búið að starfa lengst af þessum heimilum, og stendur líka talsvert öðruvísi á um önnur elliheimili. Þau njóta meiri styrktar og fyrirgreiðslu, eins og t.d. dvalarheimili aldraðra sjómanna. Það hefur stuðzt bæði við happdrætti og kvikmyndahúsrekstur, og þess vegna er ekki óeðlilegt, þó að gjöldin séu e. t. v. eitthvað lægri þar. Hin elliheimilin voru ekki heldur tekin til starfa 1958 eða í mjög litlum mæli og þess vegna erfiðara að gera samanburð á þeim fyrir svona langt tímabil.

Hæstv. félmrh. vildi halda því fram í sambandi við dvalarkostnað á almennu deildinni á Grund, að þá hefði ellilífeyririnn numið af honum 42.6% á ári árið 1958, en eftir að sú hækkun væri komin fram, sem felst í þessu frv., mundi ellilífeyririnn nema 45% af dvalarkostnaðinum, svo að hér væri um hækkun að ræða. Ég veit ekki, hvernig þessi útreikningur hæstv. ráðh. er fundinn, en ég hygg, að hann sé þó byggður á því, að hann hefur tekið meðaltal dvalarkostnaðarins fyrir árið 1963, sem mun vera eitthvað um 43 þús. Ég aftur á móti miða við dvalarkostnaðinn eins og hann er nú, en hann er nú, miðað við daggjöldin, sem eru í dag, um 46800 kr., og ég tel miklu réttara, þegar maður er að miða við framtíðina, til dæmis næsta ár, að þá sé tekinn dvalarkostnaðurinn eins og hann er í dag og eins og hann mun vera í framtíðinni, heldur en það sé tekinn meðaltalskostnaðurinn, sem verið hefur á þessu úri. En nú fyrir ekki löngu hefur t.d. dvalarkostnaðurinn hækkað um nær 5 þús. kr., og það á að sjálfsögðu að miða við þann dvalarkostnað, sem er nú og verður í framtíðinni, en ekki þann, sem hefur verið. Og ef við setjum dæmið þannig upp, þá hygg ég, að niðurstaðan verði sú, að þrátt fyrir þá hækkun, sem felst í þessu frv., verði ellilífeyririnn minni hluti af dvalarkostnaðinum á næsta ári, talsvert minni en var á árinu 1958. En annars er athyglisvert líka að setja þetta upp á annan hátt og fá kannske enn þá gleggri mynd af þessu. Og hún er sú, að á árinu 1958 nemur dvalarkostnaðurinn á almennu deildinni 21900 kr., en nemur nú 46800 kr., þannig að hann hefur hækkað um 24900 kr. á þessu tímabili. Ef maður dregur svo frá ellilífeyrinn, eins og hann verður eftir þá hækkun, sem felst í þessu frv., vantar samt um 14 þús. kr. upp á það, að hann hrökkvi fyrir þeirri dýrtíðaraukningu, sem hefur orðið síðan 1958. En þá dreg ég að sjálfsögðu frá líka þann ellilífeyri, sem var greiddur á árinu 1988, til þess að fá dæmið alveg rétt út, þannig að niðurstaðan verður sú, að maður, sem nú dvelur á almennu deildinni á Grund, verður að borga um 14 þús. kr. meira, eins og dæmið stendur í dag, heldur en hann þurfti að borga 1958 að frádregnum ellilífeyri í bæði skiptin. Og það sýnir, að það, sem hefur komið fram hér, er alveg rétt, að möguleiki gamla fólksins til að standa undir þeim framfærslukostnaði, sem nú er, er lakari en var fyrir þetta mörgum árum. Þess vegna má segja, að hér sé raunverulega um afturför að ræða.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar að sinni, vegna þess að ég vil ekki tefja fyrir málinu.