21.10.1963
Neðri deild: 4. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

14. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, var lagt fyrir síðasta Alþ., en kom svo seint fram, að ekki vannst tími til verulegrar athugunar þess, hvað þá fullnaðarmeðferðar. Síðan hefur málið verið til endurnýjaðrar athugunar hjá dómsmrn., og var sú ákvörðun tekin, að ekki þætti ástæða til að breyta frv., og er það því lagt fram aftur í sömu mynd og það var á síðasta þingi.

Þetta frv. hefur verið alllengi í smíðum. Má segja, að það sé ávöxtur af starfi tveggja athugana, fyrst, sem þáv. hæstv. heilbrmrh. stofnaði til 1959, og síðan til endurnýjaðrar athugunar, sem þeir framkvæmdu yfirlæknar á Kleppi, Tómas Helgason og Þórður Möller.

Svo sem segir í aths. frv., hvíla þær till. til breyt. á núv. skipun, sem gerðar eru í frv., á fjórum grundvallaratriðum. Í fyrsta lagi, að hin almennu fyrirbyggjandi ákvæði í kaflanum um meðferð ölvaðra manna haldast, en þó í nokkuð breyttu formi. Í öðru lagi, að tekin verði upp nákvæm skráning á ölvunartilfellum, sem lögreglan skiptir sér af, svo og skráning á drykkjusjúklingum. Í þriðja lagi, að um meðferð drykkjusjúkra manna gildi sem svipaðastar reglur og um meðferð annarra sjúklinga, eftir því sem við getur átt. Og í fjórða lagi, að séð verði fyrir auknu fé til, að komið verði upp þeirri þjónustu, sem lagt er til að höfð verði við þessa sjúklinga.

Löggjöf um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra var fyrst sett 1949, og eru í lögunum mjög ströng fyrirmæli um það, að ölvaða menn skuli taka til læknisskoðunar. En þessum fyrirmælum hefur ekki verið fylgt, og er þeim breytt nú á þann veg, að ætla megi, að þau verði framkvæmanlegri, og ekki séu teknir til læknismeðferðar aðrir en þeir, sem sérstök ástæða sé til, en jafnframt verði þó gerðar ráðstafanir til þess, að aðstandendum verði gert aðvart, einkanlega ef unglingar eru teknir ölvaðir, svo og að fullkomin skráning verði tekin upp, bæði á öllum þeim, sem lögreglan tekur ölvaða, svo og öllum þeim, sem leita til læknis af sjálfsdáðum. Þetta er talið nauðsynlegt af hálfu læknanna, þessi skráning, til þess að þeir og aðrir aðilar, er láta þessi mál sig varða, fái betra yfirlit um það, hversu mikið vandamál er hér við að etja. Að vísu má segja, að skráningarfyrirmælin séu ekki allsendis fullnægjandi, því að hugsanlegt er, að töluvert af drykkjusjúku fólki komi ekki til þeirrar meðferðar, sem gefi tilefni til skráningar. En þó er víst, að með þeim skráningarreglum, sem settar eru, verður mun betra en áður að fylgjast með mikilleik þess vandamáls, sem hér er við að etja.

Ég skal geta þess, að ég íhugaði sérstaklega, hvort fyrirmælin, sem í þessu frv. eru um, að menn skuli teknir til meðferðar af lækni og eftir atvikum einnig á sjúkrahúsi, væru svo ströng, að erfitt mundi verða um framkvæmd á þeim, einnig, hvort þau væru harðari en tíðkast t.d. í nágrannalöndum okkar. Að athuguðu máli sýnist mér ekki svo vera, heldur væru svipuð ákvæði sums staðar annars staðar, þótt með nokkuð öðrum hætti séu, og eins ætti að vera unnt að framkvæma þessi ákvæði eins og þau eru í frv., þótt hin eldri ákvæði hafi, eins og ég sagði, reynzt lítt eða ekki framkvæmanleg.

Þá er einnig ætlazt til þess samkv. frv., að kostnaður af meðferð þessara manna verði greiddur með sams konar hætti og er um kostnað af öðrum þeim, er dveljast á sjúkrahúsum.

Í II. kafla eru ákvæði um meðferð drykkjusjúkra manna, og þar er fellt niður það ákvæði, sem leggur á sjúkrahúsið á Kleppi að hafa eins konar yfirstjórn á meðferð allra þessara mála. Þessi skipan hefur ekki þótt heppileg. Eins og í aths. segir, er engin einhlít regla, sem dugir við meðferð þessara sjúklinga. Þar eru uppi mismunandi kenningar, mismunandi aðferðir geta verið haldgóðar og því eðlilegt, að ráðgert sé, að margir aðilar geti undir venjulegu eftirliti heilbrigðisstjórnarinnar gefið sig að meðferð þessa fólks.

Eins og nú til háttar, má segja, að það séu aðallega þrír aðilar, sem fáist við lækningar á þessum sjúklingum, eða þrjár stofnanir, sem að því gefi sig. Það er fyrst og fremst sjúkrahúsið á Kleppi, það er áfengisvarnadeild Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur og Bláa bandið. Á þessu ári hefur orðið sú breyting, að sjúkrahúsið á Kleppi hefur tekið við verulegum hluta af rekstri Bláa bandsins, þ.e.a.s. þeim, sem rekinn var í tveimur húsum við Flókagötu hér í bænum, svo að sjúkrahúsið á Kleppi hefur nú yfir að ráða í þessu skyni nokkrum sjúkrarúmum á sjálfum Kleppsspítala, stofnuninni í Gunnarsholti í Rangárvallasýslu, á Úlfarsá hér rétt fyrir utan bæinn og svo loks húsunum við Flókagötu. Bláa bandið heldur hins vegar rekstri í Víðinesi fyrir þá, sem þar koma til langvarandi dvalar. Á öllum þessum stöðum er sem sagt sjúkrarúm fyrir hendi, auk þess sem læknarnir gefa leiðbeiningar og hafa umsjón með fólki, sem getur dvalizt í heimahúsum. Áfengisvarnadeild Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur er hins vegar stjórnað af tveimur geðlæknum með aðstoð sálfræðinga og hjúkrunarkonu, og fara þar fram viðtöl við sjúklinga og lyfjagjafir. Fólk kemur á þessa stofnun til að fá leiðbeiningar og sækja siðferðilegan styrk, ef svo má segja, auk þess sem læknar og hjúkrunarkonur fara á heimili þessara drykkjusjúklinga, en sjálf hefur stofnunin ekki yfir að ráða neinum sjúkrarúmum.

Í 9. gr. frv. segir núnar, hvernig hugsað er, að rekstri ríkisins í þessum efnum verði háttað. Það er ljóst, að til þess að hann komist í sæmilegt horf, þarf að koma upp fleiri sjúkrarúmum, eftir atvikum stofnunum, en nú eru fyrir hendi, en ætlað er, að með þeim stofnunum, sem þegar eru til, sé hægt að hafa vísi að þeirri skipan, sem talin er æskileg samkv. 9. gr. frv. En það er rétt, að það komi skýrt fram, að ekki er ætlazt til þess, að ríkið hafi neina einokun á lækningum í þessu skyni, heldur sé með eðlilegu eftirliti heilbrigðisstjórnarinnar heimilt fyrir aðra, eins og t.d. Reykjavíkurbæ eða félög áhugamanna og einstakra lækna, að gefa sig að þessum málum.

Þá eru í 14. gr. ströng fyrirmæli um, að ekki megi gefa þeim, sem undir læknismeðferð eru fyrir þennan sjúkleik, eða láta þeim í té áfengi. Áður var bann við þessu takmarkað við þá, sem voru beint á spítölum eða sjúkrastofnunum, en bannið er fært yfir til allra, sem þessa meðferð hljóta.

Í III. kafla frv. eru svo ákvæði um stóraukið fé til þessarar starfrækslu. Þar er lögboðið, að af ágóða Áfengisverzlunar ríkisins skuli árlega greiða 7½ millj. kr. í sérstakan sjóð, gæzluvistarsjóð. Það er 5 millj. meira en nú er varið í þessum tilgangi. Læknarnir telja æskilegt, að þessi fjárhæð sé hærri, ef það þykir fært. Þetta verður að sjálfsögðu að miðast við aðrar þarfir, sem ríkissjóður stendur undir. En eðlilegt er, að Alþingi athugi það nánar í samræmi við heildarafgreiðslu fjárlaga, hversu miklu fé sé hægt að verja. Lægra en hér er stungið upp á verður ekki með nokkru móti komizt af með, ef á næstu árum á að vera hægt að gera einhver veruleg átök til umbóta, sem ég hygg að flestir telji þörf á.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið á þessu stigi, en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.