03.12.1963
Neðri deild: 23. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég skal sannarlega ekki bregða fæti fyrir það, að jólagjöf hæstv. ríkisstj. berist gamla fólkinu fyrir jól, og ætla ekki að leggja hér orð í belg frekar við þessa umr. Ég tel, að það liggi ljóst fyrir eftir þessar umr., að það er rétt í heild, að tölulegar hækkanir tryggingabóta hrökkva nú verr til að standast aukningu dýrtíðar heldur en var fyrir 1938, og á þetta kannske ekki við um allar bæturnar, en sérstaklega á þetta við um tvær þær þýðingarmestu, ellilífeyrinn og örorkubæturnar. Einnig er af þessum umr. ljóst t.d., að stórfelldustu umbæturnar, sem orðið hafa á tryggingunum, langt umfram þær tölulega, miklu þýðingarmeiri, eru afnám skerðingarákvæðanna og sú breyting, að landið var gert að einu verðlagssvæði. En hvorar tveggja þessar breytingar eru ávöxtur af baráttu Alþb. árum saman fyrir þessum málum, sem að seinustu náðu svo miklum vinsældum, að núv. stjórnarvöld sáu sér ekki lengur fært að standa gegn till. og samþykktu þær, eftir að hafa margsinnis greitt atkv. gegn þeim á Alþingi.