19.12.1963
Neðri deild: 36. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

14. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Frv. það til l. um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, sem hér liggur fyrir á þskj. 14, hefur verið til athugunar hjá heilbr.- og félmn. þessarar d., og mælir n. einróma með, að það verði samþ. óbreytt, eins og fram kemur í nál. á þskj. 130.

N. sendi frv. til athugunar nokkrum aðilum, og barst henni svar frá flestum þeirra, öllum á þann veg, að þeir mæltu með samþykkt þess án nokkurra till. um breyt., og var hér um að ræða aðila, sem n. taldi að helzt mundu koma til með að hafa afskipti af framkvæmd þess, ef að lögum verður.

Einn aðili, áfengisvarnaráð, benti á, að í norskum lögum um þessi mál væri að finna ákvæði, sem veitti rýmri heimild til að úrskurða til hælisvistar drykkjusjúka menn, sem hvorki hafa framið afbrot né vildu sjálfir æskja hælisvistar eða hefðu verið sviptir sjálfræði, en væru þó haldnir slíkri drykkjusýki, að þeir eyðilegðu að meira eða minna leyti heimili sín. N. ræddi þetta atriði sérstaklega við prófessor Tómas Helgason, sem ásamt Þórði Möller yfirlækni mun hafa samið frv. þetta. Próf. Tómas Helgason upplýsti, að þetta atriði hefði verið sérstaklega og ýtarlega athugað við samningu frv., en ekki þótt rétt að ganga lengra í þessum efnum en frv. gerir ráð fyrir. Hér væri um mjög veigamikið og viðkvæmt atriði að ræða í sambandi við persónufrelsi manna, og taldi prófessorinn, að ef lögfesta setti slík ákvæði, teldi hann, að þau ættu frekar heima í öðrum lögum en hér er lagt til að lögfest verði. N. taldi að þessu athuguðu ekki ástæðu til neinna breytinga á frv. hvað þetta atriði snertir.

Eins og fram kemur í grg. með frv., byggjast þær breytingar, sem þar er gert ráð fyrir frá gildandi lögum, að nokkru á þeirri reynslu, sem fengizt hefur á framkvæmd þeirra, og að nokkru á, að hliðsjón hefur verið höfð af skipan þessara mála í nágrannalöndunum, þegar frv, þetta var samið. En meginefni þess er í fyrsta lagi, að hin almennu ákvæði í kaflanum um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra haldast, þó að í nokkuð breyttu formi sé frá gildandi lögum. Í öðru lagi er gert ráð fyrir, að tekin verði upp nákvæm skráning á ölvunartilfellum, sem lögreglan skiptir sér af, svo og skrásetning á drykkjusjúklingum. Í þriðja lagi, að um meðferð drykkjusjúkra gildi sem svipaðastar reglur og um meðferð annarra sjúklinga, eftir því sem við getur átt. Og í fjórða lagi, að séð verði fyrir nægu fé til, að hægt verði sem fyrst að koma í framkvæmd þeirri þjónustu, sem frv. gerir ráð fyrir að ríkið láti í té í þessu sambandi.

Við 1. umr. um frv. hér í þessari hv. d. gerði þáv. hæstv. dómsmrh. í framsöguræðu sinni mjög ýtarlega grein fyrir efni þess og þeim breytingum, sem það felur í sér, miðað við gildandi lagaákvæði um þetta efni, og sé ég því ekki ástæðu til að ræða einstakar greinar frv., en leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að því verði að þessari umr. lokinni vísað til 3. umr.