11.02.1964
Efri deild: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

14. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það voru aðeins tvö atriði, sem ég vildi minnast á, áður en þetta mál færi til nefndar. Þó að um margt í því mætti að sjálfsögðu ræða, skal ég ekki gera það.

En þessi tvö atriði, sem ég vildi minnast á og skjóta til hv. n., eru annars vegar í sambandi við heimildina til að taka menn til hælisvistar samkv. 11. gr. Þar er gert ráð fyrir, að þá sé um tvo möguleika að ræða, þá, sem eru dæmdir til hælisvistar, og þá, sem sækja sjálfir um að verða aðnjótandi slíkrar vistar. Út af fyrir sig er þetta gott og blessað. En um fyrra atriðið er það að segja, að ég tel fulla ástæðu til að íhuga, hvort það geti talizt fullnægjandi heimildir fyrir hendi í núgildandi lögum til þess að úrskurða menn til hælisvistar. Grundvallaratriðið í hegningarlögum og núgildandi lögum um þessi mál er það, að til þess að dæma menn til hælisvistar, skuli þeir hafa beinlínis brotið af sér eða gerzt sekir um refsiverðan verknað. Það er auðvitað mjög vandmeðfarið, hve langt megi ganga í því að svipta menn frelsi sínu, en þó hefur verið talið, þegar um sjúkdóm er að ræða, að það megi undir vissum tilfellum gera það, jafnvel þótt menn hafi ekki neitt af sér brotið, ef það er talið, að af því stafi hætta fyrir aðra, að ekki séu gerðar ráðstafanir til þess að lækna viðkomandi mann. Og það, sem ég vildi leggja áherzlu á að væri athugað hér í sambandi við afgreiðslu þessa máls, er, hvort ekki væri ástæða til að setja ný ákvæði eða ganga lengra í þá átt að heimila að úrskurða drykkjusjúka menn til hælisvistar. Það er því miður mikill fjöldi manna, bæði hér í bæ og annars staðar, sem er umhverfi sínu og heimili hreint vandræðamál og böl vegna síns drykkjuskapar. Þessir menn út af fyrir sig komast kannske aldrei í kast við dómstóla, þannig að þeir yrðu dæmdir til eins eða neins, en allir þeir, sem hafa fengizt við áfengismál og áfengisvarnir, verða æ ofan í æ varir við þetta vandamál. Til þeirra kemur fólk, bæði eiginkonur og jafnvel börn, sem ekkert vita, hvað til bragðs á að taka vegna dæmalauss framferðis heimilisföður. Í norskri löggjöf um áfengisvarnir eru mjög víðtæk ákvæði, þar sem gert er ráð fyrir heimildum til þess með vissum og ákveðnum hætti að úrskurða menn til hælisvistar, enda þótt þeir hafi ekkert raunverulega af sér brotið, sem sé hægt að dæma þá fyrir. Það er, eins og ég áðan sagði, mikið vandamál, hversu langt á að ganga í þessu efni, en ég vildi skjóta því mjög til hv. n., að þessi norska löggjöf yrði athuguð.

Í umsögn um þetta frv. til hv. heilbr.- og félmn. Nd. sendi áfengisvarnaráð með umsögn sinni hin norsku lög um þetta efni og óskaði eftir því, að það væri tekið til athugunar, hvort annaðhvort væri hægt að taka upp einhver ákvæði í þetta frv. eða eftir atvikum önnur lög. Það er ekki endilega víst, að það heyri hér til að taka það upp í þetta frv., þó að það mætti vel hugsa sér það, og eða þá hvort n. sæi ekki ástæðu til að beina því til ríkisstj., að það yrði a.m.k. athugað gaumgæfilega, hvort ekki væri hægt að ganga lengra en hér er gert ráð fyrir í sambandi við þetta vandamál, því að ég fullyrði það, að hér er um mjög stórt vandamál að ræða, sem ber brýna nauðsyn til að verði tekið til gaumgæfilegrar íhugunar, hvort ekki er hægt að leysa á fullkomnari hátt en lagt er til í þessu frv.

Þá er hitt atriðið, sem ég vildi minnast á og ég tel að sé ákaflega hæpið, að tengja þetta of mikið við geðveikrahæli. Út af fyrir sig má segja, að það megi telja, að áfengissýki sé nokkurs konar geðveiki, en reynslan hefur sýnt það í mörgum tilfellum, að menn, sem mundu gjarnan vilja af fúsum vilja leita sér lækninga við þessari miklu meinsemd, hafa veigrað sér við það á þeim grundvelli, að þeir þyrftu að vera tengdir geðveikrahæli. Það kann að vera erfitt að koma þessu fyrir á annan veg, en ég held, að það sé fullkomlega ómaksins vert að íhuga það til hlítar, hvort ekki sé nauðsynlegt að fara hér inn á aðra braut og að á þessi hæli verði ekki litið sem geðsjúkdómahæli beint.

Þetta eru þau tvö atriði, sem ég vildi minnast á og sérstaklega skjóta fram til athugunar þeirrar hv. n., sem fær þetta frv. til meðferðar, hvort hún vildi ekki eiga hlut að því, annaðhvort að breyta þessu frv. eða þá beina því til ríkisstj., hvort ekki væri ástæða til framhaldsathugunar ýmissa atriða í sambandi við þetta mikla vandamál, sem hér er um að ræða. Það ber hins vegar að fagna ýmsum atriðum í þessu frv. og ekki hvað sízt þeim auknu fjárveitingum, sem hér er gert ráð fyrir, og þá sérstaklega einum þætti þess máls, sem vissulega er mjög mikilsvert að sinna, en það er, að það sé betur unnið að vísindalegum rannsóknum á bæði orsökum, eðli og meðferð drykkjusýki, eins og hér er gert ráð fyrir í þessu frv., og að því leyti tel ég tvímælalaust, að ýmis meginatriði þess stefni til bóta.