30.04.1964
Efri deild: 77. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (673)

14. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. því til laga um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, sem hér er til umr., var vísað til heilbr.- og félmn. Við athugun sína á þessu frv. íhugaði nefndin m. a. nokkrar ábendingar, sem komu fram um breytingar á frv. við 1. umr. í þessari hv. deild. Niðurstöðurnar af athugun n. á þessu frv. liggja svo fyrir bæði í nál. og brtt., sem eru á þskj. 500. N. mælir með því, að þetta frv. verði samþ. með þeim breyt., sem á þessu þskj. greinir.

Við 1. umr. var á það bent, að það gæti verið á ýmsan hátt óheppilegt, að þessi starfsemi, drykkjumannahælin, væri rekin undir stjórn Kleppsspítalans eða jafnvel á Kleppsspítalanum sjálfum, og það væri yfirleitt óheppilegt að tengja hælisvist fyrir drykkjusjúka menn um of við geðveikrahælið, því að það yrði til þess, að menn, sem þyrftu slíkrar hælisvistar og læknismeðferðar við, væru miklu ófúsari en ella til að undirgangast það, ef það kostaði það, að þeir yrðu að fara á geðveikrahæli.

Í þessu frv. er að vísu Kleppsspítalinn hvergi nefndur, eins og þó er gert í lögunum, sem fram að þessu hafa gilt um þetta efni, en það hafa orðið nokkrar breyt. á þessu að undanförnu. Það segir í upphafi 9. gr. í frv.: „Á geðsjúkrahúsi ríkisins og síðar á móttökudeild þess, er byggð verður, skal vera unnt að veita drykkjusjúklingum meðferð og framkvæma á þeim nauðsynlegar rannsóknir.“ Þó að þetta orðalag sé haft hér í frv., „síðar á móttökudeild þess“, þá er í raun og veru búið að koma þessari móttökudeild á laggirnar, og hún er tekin til starfa, en það er hin svokallaða Flókadeild, þ.e.a.s. þessi starfsemi er rekin í húsakynnum þeim, sem áður voru nefnd Bláa bandið og tilheyrðu held ég AA-samtökunum við Flókagötu hér í bæ. Og yfirlæknir þeirrar deildar hefur tjáð mér, að síðan ríkið tók við rekstri hennar, hafi orðið þar veruleg breyting til batnaðar og það sé nú mun auðveldara en áður var að fá menn sjálfviljuga til að leggjast inn á þessa deild. Á sjálfan Kleppsspítalann eru ekki lengur teknir, að því er mér hefur verið sagt, nema eingöngu þeir sjúklingar, sem eru drykkjuóðir.

En hvað sem öðru líður, er það ómótmælanleg staðreynd, að drykkjusýki er geðsjúkdómur, og þess vegna verða þeir læknar, sem hafa sérkunnáttu á þessu sviði, og sú ríkisstofnun, sem hefur þessa menn í þjónustu sinni, að hafa þar hönd í bagga og yfirstjórn málanna, þannig að n. sá í raun og veru ekki ástæðu til eftir þeim upplýsingum, sem hún fékk, að gera neina breytingu á 9. gr. frv.

Þá skal ég koma að sjálfum brtt.

Það er þá fyrst við 1. gr., að í frv. segir, að „þá, sem teknir eru höndum sakir ölvunar, skal lögreglan tilkynna til áfengisvarnaráðunauts (eða áfengisvarnanefndar), sem heldur spjaldskrá í þessu skyni. Einnig ber lögreglunni að tilkynna aðstandendum hinna handteknu aðgerðir sínar.“ N. þótti þarna nokkuð langt gengið, því að oft ber svo við, að menn eru teknir höndum sakir ölvunar, en sleppt tiltölulega fljótt, jafnvel án þess að vera sektaðir og án þess að vera settir í Kjallarann, eins og það er oft kallað, og þess vegna er það nokkuð strangt í sjálfu sér, að hver einasti maður, sem einhvern tíma verður fyrir því á lífsleiðinni að verða tekinn höndum sakir ölvunar, kannske góður og gegn borgari, sem þetta hendir ákaflega sjaldan, — að þá sé í sjálfu sér ástæðulaust að vera að setja nafn hans á spjaldskrá hjá áfengisvarnaráðunaut eða áfengisvarnanefnd, því að þá liti það í raun og veru þannig út eins og þarna væri um tilvonandi drykkjusjúkling að ræða. Auk þess má bæta því við, að spjaldskrá, sem áfengisvarnaráðunautur héldi í þessu skyni og væri byggð upp á þessum tilkynningum, mundi í sjálfu sér alltaf verða mjög ófullkomin, vegna þess að það eru margir ofdrykkjumenn, sem drekka svo kurteislega, ef svo má að orði komast, að þeir komast aldrei í tæri við lögregluna og eru aldrei handteknir sakir ölvunar.

Þá segir einnig í 1. gr. frv., að lögreglunni beri að tilkynna aðstandendum hinna handteknu aðgerðir sínar. Þetta þótti okkur nm. fulllangt gengið, að gera þetta að beinni skyldu í hverju einasta tilfelli, jafnvel þar sem um mjög vægileg og lítilfjörleg tilfelli væri að ræða. Þetta er fyrst og fremst nauðsynlegt að gera, ef það er ungt fólk, sem hefur verið tekið höndum sakir ölvunar, og á þessu sjónarmiði er brtt. n. við 1. mgr. byggð, en þar segir, að „þegar lögreglan tekur mann höndum sakir ölvunar, skal hún tilkynna nánustu vandamönnum hans aðgerðir sínar, ef um mann undir 21 árs aldri er að ræða. Sé maður handtekinn vegna ölvunar tvisvar sinnum eða oftar með skömmu millibili, skal lögreglan tilkynna nafn hans til áfengisvarnaráðunauts eða áfengisvarnanefndar, sem heldur spjaldskrá í þessu skyni.“ Þarna er sem sagt ekki skylt að tilkynna þetta til áfengisvarnaráðs, nema um endurtekna handtöku vegna ölvunar sé að ræða.

Þá kem ég að næstu brtt., sem er við 11. gr. frv. Þessi brtt. er í raun og veru sniðin eftir þeim upplýsingum, sem n. aflaði sér um það, hvernig það ætti sér stað yfirleitt í raunveruleikanum, að menn væru settir á drykkjumannahæli, hvernig atvikum væri háttað í slíkum tilfellum yfirleitt, en þar er skemmst frá að segja, að a.m.k. undanfarin ár hefur það verið mjög almennt, að þetta hafi átt sér stað með þeim hætti, að aðstandendur hins drykkjusjúka hafi óskað eftir því, að hann væri sviptur sjálfræði, til þess að koma honum inn á drykkjumannahæli. Í ýmsum tilfellum, þegar slík beiðni um sjálfræðissviptingu kemur fyrir sakadóm, er hún er tekin fyrir, þá er það, að hinn drykkjusjúki sér fram á, að hann muni verða sviptur sjálfræði, og til þess að koma í veg fyrir það, þá undirgengst hann það fyrir dómnum að sætta sig við vist á drykkjumannahæli í tiltekinn tíma. Aftur á móti er það, sem segir hér í frv., í 1. tölul. þessarar gr., að þeir séu dæmdir til hælisvistar skv. hegningarlögunum. Það er að vísu rétt, að það er hægt að gera þetta samkvæmt hegningarlögunum, en það mun ákaflega fátítt, að þetta beri þannig að, og sú leið mun sjaldan hafa verið farin, ef þá nokkurn tíma. Þó að það sé í sjálfu sér rétt, að það standi í lögum, þá er sú leið ákaflega óraunhæf.

Þá ber þetta auðvitað einnig að með þeim hætti, sem í sjálfu sér væri eðlilegastur og æskilegastur, að menn sæki sjálfir um það að verða aðnjótandi vistar á drykkjumannahæli, án þess að til þess þurfi að koma að beiðast sjálfræðissviptingar vegna þeirra, en þá er að sjálfsögðu nauðsynlegt að setja einhverjar reglur, sem tryggja það, að umsækjandinn, þegar hann ritar undir slíka umsókn, sé vel vitandi um það, hvaða skuldbindingar hann er að taka á sig, hvað hann er að gera, því að í sjálfu sér hefur e.t.v. borið á því eða því verið haldið fram, að menn væru látnir skrifa undir svona umsóknir illa haldnir, annaðhvort ölvaðir eða timbraðir, og þar sem þetta er nokkuð alvarleg skuldbinding, að vilja sitja um kyrrt á drykkjumannahæli kannske mánuðum saman, þá verður í sjálfu sér að tryggja það, að þetta sé gert að vel yfirveguðu ráði og manninum hafi verið ljóst, hvað hann var að gera.

Þá hefur einnig verið bætt inn í eða breytt upphafi 11. gr. þannig, að í staðinn fyrir, að „til hælisvistar skv. 9. gr. verði teknir,“ þá er sagt „til hælisvistar skv. 9. og 10. gr.,“ Því að skv. 10. gr. geta bæjarfélög eða önnur samtök sett á stofn drykkjumannahæli, og það verður að sjálfsögðu að sæta svipuðum reglum, ef slíkar stofnanir verða reistar, og þá er auðvitað eðlilegt, að þessi grein gildi einnig um þær.

Þá er rétt að geta þess líka, að við 11. gr. er gerð sú breyting, að þegar maður sækir af frjálsum vilja um að komast á drykkjumannahæli, þá getur hann þó aldrei skuldbundið sig lengur en í sex mánuði til þess að vera þar. Það mun að vísu vera venja, að þegar menn hafa undirritað slíkar yfirlýsingar fram að þessu, þá hefur það almennast verið frá 3–6 mánuðum, en þó í undantekningartilfellum hafa menn verið látnir skrifa upp á það að sæta dvöl á drykkjumannahæli í allt að eitt ár. En það þykir n. nokkuð viðamikið, og þess vegna hefur hún m.a. gert þá breyt. á 11. gr., að það er ekki heimilt að skuldbinda sig lengur en í sex mánuði í senn.

Við 12. gr. hafa einnig verið gerðar brtt. Það má segja, að þær leiði reyndar flestar af sjálfu sér af breyt., sem voru gerðar á 11. gr. Þar er það áréttað, að sjúklingur megi aldrei skuldbinda sig með umsókn nema í mesta lagi sex mánuði, nema samþykki hans komi til að nýju. Þá er líka rétt að benda á það, að í síðustu mgr. 12. gr. er breytt einu orði, sem gerir talsverðan blæmun á þessu ákvæði, en í frv. segir: „Nú fer sá, sem fengið hefur hælisvist skv. ákvæðum l. þessara, heimildarlaust af hæli, þar sem hann dvelst, og er þá rétt að þröngva honum, eftir atvikum með lögregluvaldi, í vistina á ný og til að hlíta henni, unz lokið er tíma þeim, sem segir í 1. og 2. mgr. þessarar gr.“ Þarna hefur n. sett, að í staðinn fyrir, að „rétt sé að þröngva honum“, þá sé „heimilt að þröngva honum“, og það yrði þá væntanlega á valdi læknanna á drykkjumannahælinu og aðstandenda drykkjumannsins, hvort þessari heimild yrði beitt eða ekki. En þó vil ég álíta, að breytingarnar, sem gerðar voru á 11. gr., leiði það raunar af sér, að það ætti síður að koma fyrir, að menn stykkju heimildarlaust burt af drykkjumannahæli, þó að það sé auðvitað engan veginn hægt að útiloka það, að slíkt eigi sér stað.

Ég hef þá farið í gegnum þessar brtt. og reynt að útskýra þær eftir föngum, og ég endurtek svo að lokum, að heilbr.- og félmn. mælir með því, að þetta frv. verði samþ. með þeim brtt., sem greinir á þskj. 500.