06.04.1964
Neðri deild: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

33. mál, skipulagslög

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Frv. til l. um breyt. á skipulagslögum hefur verið flutt nokkrum sinnum á Alþingi, án þess að það hafi náð fram að ganga. Og það er alveg rétt, að í einu þessu frv. voru ákvæði svipuð því, sem hv. 5. þm. Austf. (LJós) nefndi hér áðan, þ.e.a.s. ákvæði um það, að tekna yrði aflað til skipulagsframkvæmda á þann hátt, sem í þeim till. er gert grein fyrir. En það kom í ljós, að þótt menn væru sammála um hin teknísku atriði í þessu frv. um breytingu á skipulagslögunum, voru menn ekki eins sammála um hitt, hvernig tekna til þessara framkvæmda skyldi aflað, þannig að þegar þetta frv., sem hér liggur fyrir, var fyrst borið fram eða frv., sem var mjög svipað því, 1960 og 1961, voru þessi ákvæði um tekjuöflun til skipulagsframkvæmdanna tekin út, til þess að reyna að fá hin teknisku atriði afgreidd út af fyrir sig og án þess að málið í heild þyrfti að stöðvast vegna ágreinings um fjárhagsmálin. í grg., sem fylgdi frv. 1961, er gerð grein fyrir þessu. Með leyfi hæstv. forseta, segir svo í grg fyrir því frv.:

„Það, sem frekast getur orkað tvímælis, er það, að úr þessu frv. hefur verið sleppt þeim ákvæðum, sem bæði voru um fjáröflun til skipulagsaðgerða í frv. 1948 og 1958 svo og í frv. til laga um skipulagssjóði frá 1940. Í þessum frv. voru gerðar till. um sérstakan verðhækkunarskatt, sem lagður yrði á þær eignir, er hækkuðu í verði af skipulagsaðgerðum. Var lagt til, að mat færi fram á slíkum verðhækkunum, sem síðan yrðu skattlagðar. Var í frv. 1958 gert ráð fyrir, að 50% verðhækkunarinnar rynnu í sérstakan skipulagssjóð viðkomandi sveitarfélaga. í frv. 1940 var gert ráð fyrir, að allt að 80% rynnu í þennan sjóð, en allt að 100% í frv. frá 1948. Í frv. frá 1958 var einnig gert ráð fyrir almennum skatti á fasteignir til sömu þarfa. N. hefur ekkí talið ráðlegt,“ segir hún í grg. með þessu frv. 1961, — „að taka þessi ákvæði upp í þetta frv. Ástæðan er fyrst og fremst sú, að hér er um að ræða setningu reglna um álagningu og innheimtu skatta, en ekki í sjálfu sér um skipulagsmál. Þótt allir geti verið sammála um, að sanngirni mæli með því, að verðhækkanir sem verða á fasteign vegna skipulagsaðgerða, gangi til að greiða kostnað við framkvæmd skipulagsins eða annars slíks, er mjög erfitt að finna sanngjarnar og framkvæmanlegar reglur um þetta, t.d. um upphæð slíks skatts og gjalddaga. Slíkt hefur a.m.k. ekki tekizt í nágrannalöndum okkar, svo að vitað sé. Þá er og vitað, að þessi atriði geta valdið hatrömmum deilum og slíkt orðið til að tefja mjög, að sett verði ný skipulagslög. Mun þetta ekki sízt hafa valdið því, hve treglega hefur gengið að fá ný skipulagslög sett. Af þessum ástæðum og fleirum leggur n. til, að þessi mál verði athuguð sérstaklega og óháð þessu frv. og verði haft um það samráð við menn sérfróða um skattamál og málefni sveitarfélaga.“

M.ö.o.: með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er eingöngu lagt til, að leyst verði hin tekníska hlið málsins, en ekki hin fjárhagslega og henni frestað, til þess að hún standi ekki í vegi fyrir því, að hin teknísku atriði komist í gegn. Ég held þess vegna, að það væri óheppilegt að setja ákvæði um fjáröflun til skipulagsmála inn í þetta frv. Það gæti orðið til þess, að allt málið dagaði uppi, eins og það hefur gert svo oft áður. Hins vegar geta menn haft sínar skoðanir, og ég hef vissulega mínar skoðanir í því sambandi um það, hvernig tekna skuli aflað til framkvæmdar þessara mála. En ég er jafnsannfærður um hitt, að það er ekki heppilegt að blanda þessum fjáröflunarmálum saman við hin teknísku atriði, sem þetta frv. fjallar um, sem hér liggur fyrir. Ég vildi því leyfa mér að leggja til við hv. deild, að frv, gangi fram eins og það nú er, en hin málin, fjárhagsmál skipulagsins, yrðu síðar tekin til athugunar út af fyrir sig.