09.04.1964
Efri deild: 66. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

33. mál, skipulagslög

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta frv. að sinni. Það er einkum tvennt, sem ég vildi þó á þessu stigi málsins vekja athygli á í sambandi við frv ., og tók þó raunar hæstv. ráðh. bæði þau atriði fram í sinni ræðu.

Frv. til skipulagslaga hafa oftsinnis áður komið fram á Alþ., en þau hafa ætíð átt erfitt uppdráttar og ekki náð fram að ganga og það þrátt fyrir það, að öllum hefur komið saman um brýna þörf þess, að ný skipulagslög yrðu sett. Það er einkenni frv. upp á síðkastið, að þau verða rýrari að formi til með hverju ári og þá væntanlega einnig rýrari að efni um leið. Í frv. til skipulagslaga, sem kom fram á Alþingi 1958, var t.d. heill kaffi um fjárhagshlið skipulagsmála, kafli um skipulagssjóð og skipulagsgjöld. Þessum kafla hefur algerlega verið sleppt úr þessu frv. Ég skil vel ástæðuna til þess. Hér er um vandamál að ræða, sem ekki liggur beint fyrir, hvernig leysa skuli, en hér er um vandamál að ræða, sem þar fyrir er mjög mikilsvert að fá lausn á. Vandinn er í þessu frv. leystur með því að sleppa þessu með öllu, og þetta tel ég stóran galla á frv.

Annar galli, sem ég vildi einnig gera að umtalsefni, er sá, að eðlilegast hefði verið, að skipulagsmálin og byggingarmálin yrðu tengd saman í einum lagabálki, að þetta frv. hefði ekki komið fram, fyrr en lokið væri endurskoðun laga um byggingarmál, og að þessi tvö náskyldu mál hlytu afgreiðslu hér á Alþingi samtímis. Það er rétt, að skipulagslögin eru orðin gömul og úrelt. Þau eru að stofni til frá árinu 1921. En lög um byggingarmál eru enn þá eldri. Þau eru frá árinu 1905 og sennilega enn þá ófullkomnari og úreltari en skipulagslögin. Ef átt hefði að taka annað þessara mála fyrir á undan hinu, var því ástæða til að taka byggingarmálin fyrst. En ég er þeirrar skoðunar, að þessi tvö náskyldu mál, skipulagsmálin og byggingarmálin, hefði átt að taka samtímis til meðferðar hér á Alþingi til afgreiðslu. Og ég er ekki einn um þessa skoðun. Þegar frv. til skipulagslaga var til umr. hér í þessari hv. d. árið 1959, var því vísað til ríkisstj., fyrst og fremst vegna þess, að hv. d. óskaði eftir því, að endurskoðun færi fram á lögum um byggingarmál og að skipulagsmál og byggingarmál yrðu tengd í einum lagabálki, eins og víða er í öðrum löndum, t.d. í Danmörku, Finnlandi og Noregi. Þessi var skoðun hv. Ed. á málinu fyrir 5 árum. N., sem undirbjó skipulagslagafrv. árið 1958 og skipulagsstjóri ríkisins var formaður fyrir, benti þá á knýjandi þörf þess, að sett yrðu ný lög um byggingarmál, og n. taldi eðlilegast, að öll lagaákvæði um bæði þessi mál, skipulagsmál og byggingarmál, yrðu í einum og sama lagabálki. Þetta tók n. fram í grg. fyrir frv. árið 1958. Og það eru fleiri aðilar, sem hafa látið í ljós þessa skoðun. 7. landsþing Sambands ísl. sveitarfélaga, sem háð var í Reykjavík í ágúst s.l. sumar, gerði samþykkt um endurskoðun byggingarlöggjafarinnar, og þar var þess eindregið óskað, að hún yrði tengd afgreiðslu frv. til skipulagslaga. Þrátt fyrir þessar skoðanir aðila, sem þetta mál snertir mjög, og aðila, sem sérþekkingu hafa á þessum málum, hefur þessu ekki verið sinnt, og er það þó áreiðanlega ekki af því, að öllum komi ekki saman um þörfina á að endurskoða lög um byggingarmál. Þetta er eitthvert hugsunarleysi eða skeytingarleysi, sem hér er frekar um að kenna.

Þetta tvennt vildi ég sérstaklega gera að umtalsefni við 1. umr. þessa máls og lýsa yfir nokkurri óánægju minni með, fyrst og fremst það, að mikilsverð mál, sem snerta efni þessa frv., eins og fjárhagshlið skipulagsmála almennt, skuli hafa verið sniðgengin í þessu frv., aðeins vegna þess, að hér er um erfitt vandamál að ræða, og í öðru lagi lýsi ég yfir óánægju minni með, að endurskoðun laga um byggingarmál skyldi ekki flýtt meira en raun ber vitni um, þannig að hægt hefði verið að setja fram frv. til l. um skipulagsmál og byggingarmál samtímis.

Í þessu frv. eru að sjálfsögðu einstök atriði, sem orka tvímælis, en um það skal ég ekki fjölyrða að þessu sinni. En þó er aðeins eitt atriði, sem mig langar til þess að drepa á, og það snertir skipulagsgjaldið, sem um er rætt í 35. gr. Þar er ráðh. heimilað að ákveða sérstakt skipulagsgjald, sem má nema allt að 3%„ af brunabótaverði hverrar nýbyggingar. Þetta er ekki nýmæli, þetta mun vera í gildandi lögum. Gallinn á þessu er aðeins sá, að þetta gjald, skipulagsgjaldið, er látið renna í ríkissjóð og það hefur á sannazt, að ríkissjóður hefur haldið eftir nokkru af þessu gjaldi til sinna þarfa, en ekki látið það renna óskipt til þarfa skipulagsmálanna. Þetta finnst mér ótækt, því að vitanlega á skipulagsgjaldið fyrst og fremst að ganga til skipulagsmálanna. Því, sem síðan vantar á, verða síðan ríkissjóður og sveitarsjóðir að skipta á milli sín, eins og gert er ráð fyrir í frv. Hitt er ótækt, að ríkissjóður fái skipulagsgjaldið allt, noti nokkuð af því til sinna eigin þarfa og leggi síðan á sveitarfélögin að borga brúsann að hálfu við ríkissjóðinn. Ég hefði óskað eftir því sérstaklega, að hæstv. ráðh. athugaði þetta atriði, hvort hann gæti ekki fallizt á ákvæði um það í þessu frv., að skipulagsgjald yrði látið renna í sérstakan sjóð, sem eingöngu yrði varið til skipulagsmála.