09.04.1964
Efri deild: 66. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

33. mál, skipulagslög

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykv. (AG) gerði nokkrar aths. við frv. Ég ætla, að þær hafi í aðalatriðum verið þrjár, og ég skal fara nokkrum orðum um hverja fyrir sig, þó að sú fyrsta, sem fjallaði um fjárhagsmál skipulagsins, hafi nokkuð verið nefnd í frumræðu minni fyrir málinu. Ég rakti þar, að ástæðan fyrir því, að tekjuöflunin til skipulagsmála, þ.e. fyrir utan þessi 3%, sem eru lögð á nýbyggingar, væri tekin út úr frv., væri beinlínis sú, að ég hef ástæðu til þess að ætla, að sú tregða, sem hefur verið á afgreiðslu málsins hér á Alþingi, hafi að verulegu leyti verið vegna þessara ákvæða. Og það er einnig viðurkennt af þeim öllum, sem um þessi mál hafa fjallað og undirbúið hafa frv., því að það var ekki frá ríkisstj. komið, að till. var gerð um, að þessi kafli yrði tekinn úr 1., heldur kom till. frá þeirri nefnd, sem um málið fjallaði. Það er náttúrlega alveg afleitt, þegar eitt atriði veldur það miklum ágreiningi, að allt málið stöðvist af þeim sökum, og þegar þar að auki þetta eina atriði er annars eðlis en sjálft málið, sem um er fjallað í frv., því að það er náttúrlega sitt hvað að afgreiða lög um ýmiss konar teknísk atriði viðvíkjandi skipulagi eða að afgreiða lög eða lagasetningu, hvort sem hún er í þessu sama frv. eða öðru, sem er allt annars eðlis og raunverulega kemur ekki hinum teknísku atriðum skipulagsins nokkurn skapaðan hlut við. Náttúrlega er nauðsynlegt að afla fjár til þess að geta framkvæmt þær aðgerðir, sem nauðsynlegar eru, til þess að skipulagið geti náð tilgangi sínum. Það er vitað mál. En ég hefði fyrir mitt leyti viljað, að á málunum yrði þannig haldið, að þau atriði, sem ágreiningslaus væru, væru afgreidd fyrst og hin látin bíða, sem ágreiningnum yllu, og freistað svo, að um þau væri hægt að fá þá samstöðu, að þau yrðu afgreidd einnig, þó að síðar væri. Ég er sammála hv. þm. um, að það er ekki óeðlilegt, að slik lög um fjáröflun verði sett, þannig að verulegur hluti þeirrar verðhækkunar, sem verður vegna skipulagsaðgerðanna, renni til þessara mála. En samt sem áður verður að haga málunum þannig, að það náist um þau það mikið samkomulag, að þau verði ekki til þess að stöðva önnur aðalatriði.

Í grg. n. fyrir frv. 1961 var frá því skýrt, að n. vissi ekki til, að þetta mál hefði tekizt að leysa í nágrannalöndum okkar heldur, þeir væru staddir í nákvæmlega sama farinu og við, það hefði ekki tekizt samkomulag um afgreiðslu á verðhækkunarskatti, sem margir teldu eðlilegan, en þó nægilega margir ekki eðlilegan til þess að stöðva málið. Ég hefði þess vegna viljað leggja á það áherzlu, að þetta atriði yrði ekki tekið upp í þetta frv. eða brtt. í þá átt samþ., heldur verði málið látið ganga fram eins og það liggur fyrir. Till. um þetta voru fluttar í Nd. af hv. 3. þm. Reykv. (EOl), en þær voru felldar, og ég teldi ekki rétt, að það yrði samþ. hér í þessari d., því að ég veit, að það á a.m.k. örðugt uppdráttar í hv. Nd. eins og stendur, og sennilega á það það hér líka, geri ég ráð fyrir.

Þá var annað atriði, sem hv. þm. minntist á, og það voru ákvæðin um setningu byggingarlaga, og skildist mér á honum, að hann gæti ekki hugsað sér skipulagslög, án þess að þau væru þar upp í tekin. Hann nefndi nú endurskoðun á þeim lögum, en sannleikurinn er sá, að byggingarlög eru engin til í þessu landi raunverulega, eins og er. Það eru aðallega lögin um byggingarsamþykktir frá 1905, sem náttúrlega taka ekki til nema nokkurs hluta málsins. Þetta mál var miklu síðar tekið upp en þetta frv., sem hér liggur fyrir, og fyrirrennarar þess. Það er margrætt og rakið af fjöldamörgum mönnum, sem hafa kynnt sér það, og í öllum eða allflestum tæknilegum atriðum ætla ég, að um það sé samkomulag. Byggingarlagafrv, hefur að vísu verið samið að frumkvæði félmrn., þannig að það er til. En það hefur ekki gengið í gegnum neitt svipaðan hreinsunareld og þetta frv., sem hér liggur fyrir, og á eftir að fara til margra manna til athugunar. En ég vildi ekki láta það heldur verða til þess að stöðva þetta frv., því að það kemur að fullu gagni út af fyrir sig, þó að byggingarlagafrv. sé eitthvað látið bíða. Ég viðurkenni, að það sé nauðsynlegt, enda hefur rn. átt frumkvæði að því, að lög yrðu um það sett, og væntanlega kemur það tiltölulega fljótlega, vildi ég segja, þegar það hefur fengið þá málsmeðferð, áður en til Alþingis kemur, sem ég tel nauðsynlega og æskilega.

Þá minntist hv. þm. að lokum á skipulagsgjaldið, sem gert er ráð fyrir að verði 3%o af brunabótaverði hverrar nýbyggingar, eins og verið hefur að undanförnu. Á því er engin breyting frá því, sem verið hefur. En það, sem hv. þm. hafði að athuga í því sambandi, er það, að það mun hafa komið fyrir, að þetta gjald hafi eitthvert ár orðið meira en kostnaður við skipulagið og hafi þá það, sem út af stóð, verið látið renna í ríkissjóð. En á það vildi ég benda í því sambandi, að það mun einnig hafa komið fyrir og æðioft, að þetta gjald hafi ekki nægt til þess að standa undir þeim gjöldum, sem eru samfara skipulagsmálunum og úrvinnslu þeirra hjá skipulagsnefnd og ýmsum aðilum, sem til þess hafa verið fengnir. Ég hef nú ekki skrá yfir það, hvað þetta hefur numið miklu á báða vegu, bæði það, sem hefur runnið í ríkissjóð, og það, sem úr ríkissjóði hefur verið greitt umfram þetta gjald. En eðlilegast væri, og það er ég honum alveg sammála um, hv. þm., að þetta gjald rynni algerlega til skipulagsmála og yrði látið undir þeim standa. En á meðan svo er, að það í sumum tilfellum nægir ekki, þannig að ríkissjóður verður eitthvað að greiða, tel ég ekki óeðlilegt, að það verði látið renna í ríkissjóð, þegar það nemur hærri upphæð en kostnaðurinn nemur. Ef stofnaður verður sjóður, sem stendur undir þessum málum eða þetta gjald látið renna í, get ég fyrir mitt leyti vel fallizt á, að það verði ekkert af því látið renna í ríkissjóðinn, en þá verður líka ríkissjóðurinn um leið undanþeginn þeirri skuldbindingu að standa undir umframgjöldum. Ég held þess vegna, að á meðan þetta er ekki komið í fastara form en nú er, sé ekki rétt að gera á þessu breytingu, en í „prinsipinu“ get ég vel fallizt á það sem meginstefnu, að gjaldið verði látið renna allt til þessara mála, ef það er þá um leið séð fyrir því, að það nægi.