05.05.1964
Efri deild: 81. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (701)

33. mál, skipulagslög

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Þetta frv. til skipulagslaga er, eins og ég benti á við 1. umr. málsins, að ýmsu leyti gallað. Ég vil fyrst minna á þann stóra galla þessa frv., að ekki skuli vera nein ákvæði í því að finna um skipulagssjóð sveitarfélaga, sjóð, sem gerir sveitarfélögum kleift m.a. að endurbyggja gamla bæjarhluta, þannig að vel fari. Það er mjög mikill galli á frv., að þessu skyldi sleppt úr, en í sumum eldri frv. til skipulagslaga eru ákvæði um slíkan skipulagssjóð: Þetta torveldar ekki aðeins sveitarfélögum eða sveitarstjórnum að hafa frumkvæði um að endurbyggja gömul bæjarhverfi, heldur mun það og hafa mikil áhrif á, að endurbyggingin verði ófullkomnari og verri en ella væri, vegna þess að sveitarfélögin hafa ekki bolmagn fjárhagslega til þess að skipuleggja eins og bezt fer hverju sinni. Ég hygg, að það séu þegar að byrja að koma í ljós ágallar af þessu tagi í sambandi við endurskipulagningu eldri bæjarhverfa í Reykjavík.

Í öðru lagi er það stór galli á þessu frv., að ekki skyldi tekin með og samtímis endurskoðun laga um byggingarmál. Skipulagsmál og byggingarmál eru mjög nátengd hvor öðrum og hefði farið bezt á því, að frv: um bæði þessi mál hefðu komið fram á Alþingi samtímis, hvort sem það hefði verið sitt í hvoru lagi eða í einum og sama lagabálki; eins og ýmsir telja eðlilegast. Nú upplýstist það við 1. umr. í ræðu hæstv. félmrh., að endurskoðun l. um byggingarmál væri að heita má lokið, og þess vegna hefði ekki átt að vera óvinnandi vegur að láta bæði frv. koma fram samtímis.

Í þriðja lagi tel ég það mikinn galla, að þetta frv., eins og það er úr garði gert nú, skyldi ekki vera lagt fyrir Arkitektafélag Íslands til umsagnar. En það kemur í ljós af bréfi, sem Arkitektafélag Íslands sendir hv. heilbr: og félmn. þessarar d, og dags. er 18. apríl 1964, að frv. hafði ekki verið sent arkitektunum til umsagnar. Arkitektafélag Íslands hefur áhuga á löggjöf um skipulagsmál, eins og eðlilegt er, og félagsmenn hafa sérstaka aðstöðu til þess að geta komið fram með eða bent á skynsamlega lausn á þessu vandamáli, setningu nýrra laga um skipulagsmál. Þetta hefur ekki verið gert, enda leggur Arkitektafélagið til í þessu bréfi sínu, að frv. verði ekki afgreitt í þeirri mynd, sem það er nú, heldur verði athugaðar þær till., sem Arkitektafélagið vill leggja fram og eru í því fólgnar, að lög um skipulagsmál verði byggð á allt öðrum grundvelli en hér er gert.

Af þessum ástæðum, sem ég nú hef greint, vil ég gera það að till. minni, þótt munnleg sé að hv. d. samþykki að lokinni þessari umr. að vísa frv. til hæstv. ríkisstj. Ég fer þess á leit við hæstv. forseta, að hann beri þessa munnlegu till. mína upp nú að lokinni 2. umr. En ef svo skyldi fara, að þessi till, yrði felld og þetta frv. gengi áfram sína leið, vil ég til vara gera stuttlega grein fyrir nokkrum brtt., sem ég flyt við frv. Þessar brtt. er að finna á þskj. 488 og eru 7 talsins.

1. brtt. er við 1. gr. frv. í upphafi 3. mgr. 1. gr. eru þessi orð: „Verkefni skipulagsstjórnar er að ganga frá skipulagsuppdráttum, er berast til staðfestingar.“ Ég kann ekki við þetta orðalag, að verkefni skipulagsstjórnar sé að ganga frá skipulagsuppdráttum. Orðalagið er ekki fagurt, og það er ekki heldur ljóst, hvað við er átt. Hvað á skipulagsstjórnin að gera, ganga frá skipulagsuppdráttum, þ.e.a.s. ljúka þeim, ljúka ófullgerðu verki? Þetta mun ekki vera meiningin, heldur mun hún vera sú að dæma um skipulagsuppdrætti, það sé verkefni skipulagsstjórnar að dæma um skipulagsuppdrætti og staðfesta þá. Ég legg því til, að orðalaginu þarna verði breytt þannig, að verkefni skipulagsstjórnar skuli vera — ekki að ganga frá, heldur dæma um skipulagsuppdrætti, er berast til staðfestingar. Þetta er 1. brtt.

2. brtt. snertir 2. gr. frv. og er á þá leið, að nýr málsl, komi inn í þá gr. og málsl. sá hljóði á þessa leið: „Skipulagsstjóri skal vera sérmenntaður í skipulagsmálum.“ Þótt undarlegt sé, er ekki gert ráð fyrir því í frv., að skipulagsstjóri ríkisins sé sérmenntaður í skipulagsmálum. Þetta má furðulegt heita. En svona er það stundum, að það þykir næstum móðgun að láta sérfróða menn fjalla um viðkomandi mál. Ég legg mikla áherzlu á, að þessi brtt. verði ekki felld, því að ef svo færi, mundi það minna mig illilega á það, sem skeði í Reykjavík fyrir nokkrum árum, þegar bæjarstjórnin bauð barnaverndarnefnd sálfræðing til aðstoðar og starfa. N. svaraði því til, að hún hefði ekkert við sálfræðing að gera. Hér kom fram rótgróin fyrirlitning á sérfræði og sérfræðingum. Mér finnst, að sama stingi upp kollinum hér, og einkum mundi mér finnast það, ef sú brtt. mín yrði felld, að skipulagsstjóri skuli vera sérfróður í skipulagsmálum. Það er algert lágmark, að svo sé. Ég skal taka fram, að ég er engan veginn ánægður með, hvernig skipulagsstjórn ríkisins skuli skipuð. Ég tel fyrst og fremst, að hún sé skipuð embættismönnum, sem illa hafa tíma til þess og tóm að sinna þeim málum, sem þeim er ætlað að sinna. Það eru önnum kafnir embættismenn ríkisins, eins og húsameistari, vegamálastjóri, vita- og hafnarmálastjóri. Þessir menn hafa vitanlega engan tíma til þess að sinna stjórn skipulagsmála í landinu. En algert lágmark er þó, að framkvæmdastjóri þeirra, framkvstj. skipulagsstjórnar ríkisins, sé sérfróður í skipulagsmálum. En það er nú orðið fyrir löngu, eins og kunnugt er, alger sérgrein innan arkitektafagsins.

3. brtt. mín er þess efnis, að á eftir 2. gr. komi ný gr., þar sem skýrt sé kveðið á um, að sveitarstjórn sé heimilt að annast skipulagsmál sveitarfélagsins undir umsjón skipulagsstjórnar og þá skuli hlutverk skipulagsnefndar sveitarfélags að vera ráðgefandi um skipulagsmál sveitarfélagsins og enn fremur að annast undirbúning og gerð skipulagsuppdrátta og fylgjast með störfum byggingarnefndar. Ákvarðanir sveitarstjórnar í skipulagsmálum skulu sendar skipulagsstjórn ríkisins til staðfestingar að sjálfsögðu. Ég tel rétt að hafa um þetta sérstakt ákvæði og sérstaka grein og að það sé frekar gert að hvetja sveitarstjórnir til að taka þessi mál til sín en að letja. Í frv., eins og það er úr garði gert, eru að vísu ákvæði um, að fela megi sveitarstjórnum framkvæmdir einstakra verka í skipulagsmálum, en það er hvergi tekið skýrt fram, að sveitarfélögum sé heimilt að hafa sinar eigin skipulagsnefndir. Þetta tel ég vera mikils vert, einkum og sér í lagi fyrir Reykjavík og kaupstaði landsins, og eins og ég tók fram, er ástæða til þess að hvetja stærri byggðarlögin til þess að annast sjálf skipulagsmál sín og mundi vera til framdráttar skipulagsmálum yfirleitt, m.a. gera þeim auðveldara um vik að ráða sér skipulagsfróðan mann til ráðuneytis og til starfa í kaupstöðunum.

4. brtt. mín fjallar um það, að síðari mgr. 5. gr. falli niður. Í þessari mgr. er gert ráð fyrir, þótt ótrúlegt sé, að unnt verði að leyfa byggingarframkvæmdir á óskipulögðum svæðum, að gera megi undantekningar og leyfa byggingarframkvæmdir, þó að skipulagsuppdráttur sé ekki fyrir hendi eða aðeins til af hluta svæðisins. Ég legg til, að þessari heimild sé algerlega varpað fyrir borð. Það er óviturlegt að leyfa slíkt í lögum. Við Reykvíkingar erum búnir að finna fyrir því, hversu skaðlegt það er að leyfa byggingar á óskipulögðum svæðum. Það hefur viðgengizt hér um áratugi og gerist enn í dag til óumræðilegs tjóns fyrir útlit borgarinnar og fyrir allt skipulag hennar. Þess vegna legg ég til, að þessari síðari mgr. í 5. gr. sé sleppt. Ég skal taka fram, að það er einmitt ein af brtt., sem Arkitektafélag Íslands gerir, að þessi síðari mgr. 5. gr. sé felld niður.

Um 5., 6. og 7. brtt. mína get ég verið fáorður, og ég held, að það sé bezt, að ég ræði þær allar í einu lagi. Í frv. er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður hirði skipulagsgjöldin og að sveitarfélögin greiði síðan úr sjóðum sínum helming kostnaðar við gerð skipulagsuppdrátta og önnur skipulagsstörf í viðkomandi sveitarfélögum, gegn jafnháu framlagi frá ríkissjóði. Í þessu felst, að sveitarfélögin eiga ekki aðeins að greiða allt gjald í skipulagssjóðinn, heldur á við það að bætast, að þau greiði helming kostnaðar af sjálfu skipulagsstarfinu. Þannig hefur þetta gengið til, og þannig á þetta að ganga til áfram. Eins og fram var tekið við 1. umr. og staðfest var af hæstv. ráðh., hefur það oftlega komið fyrir, að skipulagsgjöld hafa gert meira en að þekja kostnað við skipulagsstarfið, og þá hafa þau orðið hreinn eyðslueyrir fyrir ríkissjóð. Þessu eigum við að breyta, og það er eðlilegast, að skipulagsgjöldin renni í sérstakan sjóð og að skipulagsstjórn ríkisins í samráði við samtök sveitarfélaganna ráðstafi þessu fé, það sé fyrst og fremst látið ganga til skipulagsstarfsins, og ef skipulagsgjöldin nægja ekki, eiga að koma framlög frá ríkissjóði og sveitarsjóðum, jafnt frá hvorum, en ekki fyrr. Ég skal taka það fram, að þessi breyting, sem ég hér legg til, er algerlega í samræmi við það, sem þing sveitarfélaganna gerði á s.l. sumri till, um. Ég tel rétt, að skiptingin sé þannig, að hvert sveitarfélag hafi umráð yfir sínum skipulagsgjöldum og noti þau eingöngu til skipulagsþarfa í byggðarlaginu, en þau renni ekki inn í ríkissjóðinn og komi máske aldrei aftur með fullum skilum.

Þetta er það helzta, sem felst í þessum þremur síðust;u brtt. mínum, að þessu verði komið fyrir á annan veg en nú, fyrst og fremst, að skipulagsgjöldin fari ekki í ríkissjóð, heldur í sérstakan sjóð, skipulagssjóð, sem varið verði til þessara ákveðnu þarfa, þarfa hvers sveitarfélags í sambandi við framkvæmdir skipulagsmála, að skipulagsstjórn ríkisins ráðstafi fénu í samráði við samtök sveitarfélaganna og að hvert sveitarfélag fái að njóta sinna eigin skipulagsgjalda, svo lengi sem þau endast, en verði ágreiningur um skiptingu kostnaðar í einstökum tilfellum, þykir mér eðlilegt, að ráðh. skeri úr, enda er gert ráð fyrir því í brtt. mínum.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Fleira mætti taka fram um þetta frv. Því miður er það heildarniðurstaðan af minni athugun, að frv. sé ófullkomlega úr garði gert að ýmsu leyti, einnig fyrir utan þann höfuðgalla, að í frv. er sneitt hjá öllu því erfiðasta og vandasamasta, en um leið því veigamesta, eins og fjármálum í sambandi við skipulag byggingarhverfa. Ég vænti þess að lokum, að hæstv. forseti beri upp mína munnlegu till., en brtt. mínar síðan að henni felldri.