17.04.1964
Efri deild: 70. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

210. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það er orðið næsta algengt í tíð hæstv. núv. ríkisstj., að hún beri fram frv., sem nota í heimanfylgju þá notalegu nafngift, að þau séu um skattalækkanir, og það hefur ekki aldeilis átt að láta slík tækifæri ónotuð til þess að kynna það rækilega fyrir þjóðinni, hvílíkir öndvegis stjórnendur það væru, sem sífellt eru að losa skattborgarana við klyfjarnar, eru að strita við það baki brotnu að minnka álögurnar. Þetta mun vera í þriðja skipti, frá því að viðreisnarstjórnin komst til valda, að flutt hafa verið svokölluð lækkunarfrv. á tekjuskatti. Og í hvert skipti, sem slík frv. eru fram borin, er tekið fram stærsta letrið í stjórnarblöðunum. Þá eru langar ræður haldnar, ræður í næstum því upphöfnum tón líkt og á þjóðhátíð um ágæti þeirrar ríkisstj., sem alltaf sé að lækka tollana og skattana, sporna við ofþjökun skattborgaranna, gera skattakerfið réttlátara o.s.frv.

Það frv. um skattamál, sem hér liggur fyrir, hefur nú gengið hina venjulegu boðleið hæstv: ríkisstj. um slík mál. Það hefur fyrst verið kynnt og rætt á Varðarfundi, og nú er röðin komin að hv. Alþingi. Og ekki hafa stjórnarblöðin verið spör á stóra letrið að þessu sinni: Fimm dálka fyrirsögn efst á forsíðu Morgunblaðsins í fyrradag, letrið álíka hressilegt og sjálfur blaðhausinn: „Skattar og útsvör lækka.“ Neðar á sömu síðu gat að lita aðra fyrirsögn:

„80 millj. kr. skattalækkun.“ Þessi fyrirsögn var að vísu ekki nema 4 dálkar, en greinina prýddi að sjálfsögðu mynd af hetju dagsins, hæstv. fjmrh. Menn skyldu nú ætla, ef hlutirnir væru aðeins skoðanir í því ljósi, sem hæstv. fjmrh. og stjórnarblöðin vilja á þá varpa, að skattar og tollar væru orðnir eftir allar þessar lagfæringar harla léttbærir. En þegar menn virða nokkru betur fyrir sér alla þessa rósrauðu dýrð, þegar menn gera svolitla úttekt á hinu skáldlega hugmyndaflugi, kemur veruleikinn í ljós, óskáldlegur, jafnvel dálítið kuldagrár. Reynslan af heildarstefnu hæstv. ríkisstj. í skattamálum er dálítið önnur en ætla mætti af þeim fallegu ræðum, sem fluttar eru við tækífæri eins og það, sem nú býðst. Heildarútkoman er nefnilega sú, að í tíð núv. hæstv. ríkisstj. hafa skattaálögur aukizt ár frá ári með óhugnanlegum hraða, svo að ég held, að það séu engin dæmi slíkrar þróunar á jafnskömmum tíma. Frá því á árinu 1959, síðasta ári fyrir viðreisn, hefur heildarupphæð tolla og skatta hækkað úr 796 millj. kr., miðað við fjárlög, í 2540 millj., miðað við fjárl. 1964 og söluskattshækkunina nú í byrjun þessa árs. Þar er því um rúmlega þreföldun að ræða á fimm ára tímabili. Á sama tíma hefur hins vegar almennt kaupgjald hækkað um 55%, en verðlag vöru og þjónustu um 84%. Framfærsluvísitalan hefur á þessum árum hækkað um 61%. Það gefur svo auga leið, hver áhrif svona gífurleg hækkun álaga til ríkisins hefur á hag alls almennings og hver áhrif hún hefur orðið á allt verðlagið í landinu.

Engum getur dulizt, að skattheimtan, hin mesta, hin langmesta í sögu þjóðarinnar, er ásamt gengisfellingunum ein aðalorsök þeirrar óhagstæðu og uggvænlegu þróunar, sem orðið hefur í kaupgjalds- og verðlagsmálum, ekki sízt að því leyti, hversu mikið misræmi hefur skapazt milli kaupgjalds annars vegar og verðlags hins vegar. En sjálf heildarhækkunin á skattheimtu ríkisins skiptir hér ekki ein máli, þegar meta skal áhrif skattanna á lífskjör alls almennings í þessu landi. Þar ber ekki síður að hafa í huga, hver eðlisbreyting hefur orðið á skattheimtunni á þessum árum. Í þeim efnum hefur ekki aðeins orðið veruleg breyting í tíð núv. hæstv. ríkisstj., heldur má segja, að þar hafi orðið gerbylting, alger stefnuhvörf. Í sívaxandi mæli hefur verið horfið frá því að nota stighækkandi skatta, sem lagðir eru á eftir tekjum manna og efnahag, en í þess stað tekið upp kerfi, sem að langsamlega mestu leyti byggist á óbeinum sköttum, sölusköttum og tollum. Við upphaf viðreisnarinnar námu tekju og eignarskattur um 21% af heildarskattheimtunni, en á tímabili hæstv. núv. ríkisstj., á viðreisnartímanum, hefur þessi þáttur komizt niður fyrir 7% sum árin. Hér veldur vitanlega langmestu um, að rekstur félaga og einstaklinga, þ. á m. rekstur hinna stærstu gróðafélaga, hefur með breytingum á skattalögunum, breytingunum frá 1962, verið gerður að mjög verulegu leyti skattfrjáls. Nú munu beinir skattar til ríkissjóðs af rekstri hvers konar vera tiltölulega mjög litlir, tæplega meira en 3–4% af þeim fúlgum, sem í ríkissjóð renna. Nýjar fyrningarreglur, bein lækkun skatta á atvinnurekstur, hækkun á skattfrjálsu varasjóðstillagi, hækkun á skattfrjálsum arðgreiðslum, allt þetta var sett í skattalögin 1962 og það hefur raunverulega losað reksturinn í landinu undan skattheimtu af ríkisins hálfu að langsamlega mestu leyti. Nú eru jafnvel hin mestu gróðafélög, svo sem tryggingafélögin, til þess að nefna aðeins eitt dæmi, orðin skattfrjáls að heita má. A sama tíma hafa skattar og tollar á nauðsynjar, m.a. þær, sem allir verða að veita sér, eigi þeir að lifa, verið hækkaðir gífurlega, í sumum tilfellum um mörg hundruð prósent. Þannig hefur hæstv. ríkisstj. tekizt að gera jafnvel hina snauðustu, hina tekjulægstu þjóðfélagsþegna, að — ja; mér liggur við að segja: gildum skattgreiðendum, á sama tíma og máttarstólparnir svokölluðu, þeir sem hafa aðstöðu til að velta sparifé landsmanna, hafa verið að miklu leyti leystir frá sköttum og skyldum. Í sem skemmstu máli: fyrir atbeina hæstv. núv. ríkisstj. hefur í íslenzku þjóðfélagi verið horfið gagngert og að því er virðist af fullkomlega ráðnum hug frá þeirri grundvallarreglu nútíma velferðarríkis að nota skattakerfið til tekjujöfnunar og auðjöfnunar milli þegna þjóðfélagsins. Þess í stað hefur sú regla verið upp tekin í sívaxandi mæli að nota það til vaxandi misskiptingar, til þess að flytja þjóðarauðinn í æ stærri stíl á þær hendur, þar sem mest var fyrir.

Í umr. um söluskattshækkunina nú í byrjun þessa árs gerði hv. 4. þm. Norðurl. e. (BJ) býsna fróðlegan samanburð á skattakerfinu hér annars vegar og í Noregi hins vegar. Sá samanburður sýndi m.a., að beinir og óbeinir skattar hins opinbera, þ.e.a.s. bæði ríkis og bæja, eru í Noregi nokkurn veginn jafnir að heildarupphæð, þ.e. um það bil 50% beinir skattar og ca. 50% óbeinir. Slíkur munur er á skattakerfinu í þessum tveimur löndum. Ég dreg mjög í efa, að hliðstæðu við íslenzka skattakerfið, eins og það er nú orðið, sé að fínna meðal grannþjóða okkar, sérstaklega að því er snertir hlut gróðafélaga í skattheimtunni annars vegar og hlut almennings með óbeinni skattheimtu hins vegar.

Þegar þessar staðreyndir eru hafðar í huga, þreföldun skatta til ríkissjóðs á 5 árum og eðlisbreyting skattheimtunnar, verð ég að segja, að mér finnst engin sérstök ástæða til fyrir hæstv. fjmrh. að vera að ofmetast af því, þó að eigi nú að draga örlítið úr þessari gífurlegu fúlgu — eða réttara sagt þeirri fúlgu, sem ella hefði verið heimt af almenningi miðað við óbreytt skattkerfi, eftir að launatekjur manna hafa á einu ári hækkað að krónutölu um 20% og þaðan af meira. Þess er og naumast að vænta, að allur almenningur geti tekið undir neinn sérstakan fagnaðarsöng í tilefni af því frv., sem hér liggur fyrir. Það er stundum sagt, að ekki sé allt sem sýnist, og mér virðist það eiga við sum atriði þessa frv. A.m.k. þori ég að fullyrða, að frv. er ekki slíkt sem hæstv: fjmrh. vill, að mönnum sýnist það.

Hæstv. ráðh. segir, að frv. fell í sér 80 millj. kr. lækkun á tekjuskatti einstaklinga, og leggur á þetta mjög ríka áherzlu, sömuleiðis blöð stjórnarflokkanna. En þegar athugað er, við hvað þessi tala er miðuð, við hvað þessi lækkun er miðuð, kemur í ljós, að hún er ekki miðuð við það, sem menn hafa þurft að greiða, t.d. á síðasta ári eða á neinu öðru liðnu ári. Þessi útreikningur er miðaður við það, sem orðið hefði að óbreyttum lögum nú, eftir að launatekjur manna hafa á einu einasta verðbólgumetári hækkað í krónutölu um 20% minnst og hjá mörgum stórum meira. Það kemur einnig í ljós við frekari athugun, að heildarupphæð tekjuskattsins er í fjárl. nú, eins og hæstv. ráðh. gat um, áætluð mjög verulega hærri en var í fjárl. ársins 1963, og er þó í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna nú gert ráð fyrir svipaðri lækkun og í þessu frv. felst á skattstiganum. Í fyrra, þ.e. á fjárlögum fyrir 1963, voru þessir skattar, tekju- og eignarskatturinn, áætlaðir 155 millj., en eru nú áætlaðir 245 millj. Þessi upphæð 1963 kann að vísu að hafa reynzt eitthvað meiri en þetta í raun og veru, en samt held ég, að óhætt sé að fullyrða, að breytingin, sem felst í þessu frv. til lækkunar á skattstiganum, muni ekki leiða til neinnar lækkunar á þeim skattaupphæðum, sem skattgreiðendum er gert að borga, jafnvel ekki miðað við s.l. ár og enn síður ef seilzt er til samanburðar lengra aftur í tímann. Nei, heildarupphæðin kemur áreiðanlega til með að hækka, en ekki lækka, og það er nefnilega, ekki hið sama að lækka skattaupphæðina frá því, sem áður var, og lækka skattstigann. Slíkt gildir einungis; þar sem verðlag og kaupgjald er stöðugt. Hér kemur nefnilega aukning dýrtíðar og verðbólgu inn í dæmið, og allir útreikningar, sem ekki taka hana til greina, eru blekkjandi, þeir eru falskir, þ. á m. þeir útreikningar, sem prentaðir eru sem fskj. með þessu frv. Og sömuleiðis eru. blekkjandi af sömu ástæðu þeir útreikningar, sem hæstv. fjmrh. var hér með áðan, þegar hann bar saman kaup og tekjuskatt á árunum 1958 annars vegar og samkv. þessu frv. hins vegar, þegar um gerólíkan kaupmátt launa er að ræða.

Við — skulum athuga dálítið nánar, hvernig þessir hlutir koma út. Segjum, að maður með konu og 1 barn hafi haft 100 þús. kr. í nettótekjur á árinu 1962. Á s.l. ári, 1963, hefði hann þá átt að greiða í tekjuskatt 1500 kr. Gerum ráð fyrir, að kaup þessa manns hafi á árinu 1963 hækkað um 20% , eins og mjög er algengt á þessu ári: Sú hækkun, það skal ég taka fram, jafngildir þó ekki aukningu dýrtíðarinnar, svo að afkoma mannsins væri fremur lakari en betri þrátt fyrir 20% hækkun á kaupi. Samkvæmt þessu frv. ætti umræddur maður að greiða í ár 1600 kr. af sínu kaupi, sínu hækkaða kaupi, eðs heldur hærri upphæð en hann greiddi á s.l. ári. Ég hygg, að þó að ekki séu tekin öllu fleiri slík dæmi, þá sé yfirleitt ekki um neinar raunverulegar lækkanir að ræða frá s.l. ári, þegar þetta er tekið með í reikninginn, heldur eingöngu um hitt, að frv., ef að lögum verður, komi að mestu a.m.k. í veg fyrir nýjar skattahækkanir. Allt þetta tal um einhverja stórfellda raunverulega skattalækkun er því vafasamur orðaleikur, — ég vil segja, að það sé blekkjandi orðaleikur, sem ætlaður er þeim einum, sem ekki hafa fyrir því að athuga hlutina svolítið nánar.

Lögin um tekjuskatt eru að því er til einstaklinga tekur frá árinu 1960. Í rauninni væri því eðlilegt að miða útreikninga skattanna við launatekjur þess árs annars vegar og núverandi launatekjur hins vegar. Stöðug aukning dýrtíðar síðan veldur því, að skattgreiðendurnir hafa frá þessum tíma og án þess að um nokkra raunverulega tekjuaukningu hafi verið að ræða, — hún hefur verið aukning í krónutölu, en ekki raunveruleg, — þá hafa einstaklingar fallið inn í skattstigann, hinn hækkandi skattstiga, og orðið að gjalda síhækkandi skatt þrátt fyrir algerlega óbreytta og í ýmsum tilfellum versnandi afkomu sína.

Ég gat þess áðan, að framfærsluvísitalan hefur hækkað um 61% frá því í ársbyrjun 1960 og verðlagsvísitalan 84%. Almennt kaupgjald hefur hins vegar aðeins hækkað um 55%. Hvaða afleiðingar þetta hefur haft varðandi skattgreiðslur samkvæmt óbreyttum skattstiga þetta tímabil, væri svolítið fróðlegt að athuga lítils háttar. Einhleypingur með 60 þús. kr. nettótekjur 1960 hefði þá greitt 500 kr. í tekjuskatt. Til þess að halda óbreyttri afkomu hefðu nettótekjur hans á s.l. ári þurft að vera a.m.k. 96 þús. kr. Að óbreyttum skattstiga hefði skattur hans í ár orðið 4360 kr., en að þessu frv. samþykktu yrði skattur hans í ár 3100 kr., eða þrátt fyrir breytinguna, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, rösklega 6 sinnum hærri en 1960, á samsvarandi laun 1960.

Þessi dæmi af handahófi valin sýna greinilega, hver þróunin hefur verið í þessum málum s.l. ár. Árið 1960 var tekjuskatturinn raunverulega lækkaður, það er alveg rétt, og allverulega. En hinar svokölluðu tekjuskattslækkanir, sem nú eru ráðgerðar, eru, að því er ég bezt fæ séð, ekki annað en nokkur leiðrétting, leiðrétting að nokkru leyti á þeim skakka, sem orðið hefur síðan vegna verðbólguþróunarinnar í landinu. Þrátt fyrir samþykkt þessa frv. yrði tekjuskattur nú miklu þyngri á flestra herðum en hann var 1960, eftir lagfæringuna þá. Hann mun meira að segja, eins og ég hef bent á, reynast jafnþungur eða heldur þyngri á yfirstandandi ári en hann var s.l. ár, miðað við jafnverðmætar tekjur, og það er aðalatriðið að miða við þær.

Það hefði vissulega verið öllu fróðlegra að sjá sem fskj. með þessu frv. eða heyra hér áðan af vörum hæstv. fjmrh, grg. um breytingar á skattheimtu, miðað við tekjur færðar til fasts verðlags. Þá hefði raunhæfur samanburður fengizt í stað þess samanburðar, sem nú er hafður í frammi í áróðursskyni, — samanburður, sem jafnan endar í þeirri fullyrðingu, að hér sé um stórfelldar skattalækkanir að ræða.

Hitt er svo rétt, og það er sjálfsagt að viðurkenna og meta, að þetta frv. hindrar að nokkru hækkanir á skattgreiðslum, sem ella hefðu orðið vegna mikilla verðlagsbreytinga, vegna óðfluga verðbólguþróunar. Að því leyti er þetta frv, til nokkurra bóta, það gengur í leiðréttingarátt, en þó svo skammt, að það kemur ekki í veg fyrir skattahækkanir, jafnvel þótt aðeins sé seilzt til s.l. árs til samanburðar. Í þessu sambandi er líka ástæðulaust að gleyma þeirri staðreynd, að söluskattur var fyrir skömmu hækkaður um 300 millj. kr., og þetta frv: er vægast sagt heldur léttvægt á vogarskálunum til mótvægis við þá miklu hækkun.

Það verður að telja, að hækkun persónufrádráttar sé aðalatriði þessa frv. Nokkrar aðrar breytingar eru þar gerðar á skattalögunum. Ýmsar þeirra eru tvímælalaust til bóta, aðrar kunna að vera vafasamar. Ég hef ekki í hyggju á þessu stigi máls að ræða að neinu ráði einstök atriði frv. Tvö vildi ég þó aðeins nefna. Fyrra atriðið er sú breyting að fækka stórlega þrepum í skattstiga. Ég tel hana heldur vafasama, svo að ég kveði ekki fastar að orði. Hér virðist vera að því stefnt, og þá ekki síður með hliðstæðu ákvæði í frv. til l. um tekjustofna sveitarfélaga, að afnema smám saman stighækkun á allri skattheimtu. Skrefið er að vísu ekki stigið nema til hálfs að þessu sinni. Ég held, að þetta sé hæpin stefna, stefna, sem hljóti, þegar til lengdar lætur, að bitna á hinum tekjulægri í þjóðfélaginu.

Hitt atriðið, sem ég ætlaði aðeins að minnast á, er sú nýjung, sem felst í þessu frv., að stofnuð skuli sérstök rannsóknardeild á vegum ríkisskattstjóra til þess að fylgjast með skattaframtölum. Ég tel þetta nýmæli geta horft til verulegra bóta og vafalausra bóta og fagna því, að það skuli fram komið. Þarna er að vísu ekki ráð fyrir því gert að lögfesta þau vinnubrögð um eftirlit, verulega virkt skattaeftirlit, sem ég hygg að reynist óhjákvæmileg, ef þetta nýmæli á að ná tilgangi sínum. En aðalatriðið er að sjálfsögðu, hvernig framkvæmdin verður, og sjálfsagt má setja reglur og reglugerð um hana, þó að ákvæði séu ekki útfærð í lögum. Það er nú svo, að ríkisstjórnir og Alþingi hafa of lengi verið aðgerðalitlir aðilar um setningu nauðsynlegrar löggjafar í sambandi við þessi skattheimtumál. Það ber þess vegna að fagna því, ef nú fremur en áður er verulegur skilningur fyrir hendi hjá ráðamönnum um það, að nú verði að leggja til rækilegrar atlögu við þann ófögnuð, sem skattavik eru. Hins vegar býst ég við, að það geti orðið nokkuð erfitt að framkvæma skatteftirlit með mjög verulegum árangri, nema skipulögð könnun einhvers tiltekins hundraðshluta framtala verði gerð árlega. Ég veit ekki, hversu hún þyrfti að vera mikil. Ég hef heyrt, að sums staðar erlendis, þar sem slík skipulögð könnun fer fram, sé talan 2–3%, og slík könnun framtala þarf að fara fram eftir reglum, sem væru þannig úr garði gerðar, að enginn gæti fundið sig öruggan um, að nákvæm rannsókn færi ekki fram á hans framtali, hvenær sem er. E.t.v. væri áhrifamest, að val þeirra, sem undir smásjána væri brugðið hverju sinni, færi fram eftir árlegum útdrætti skattnúmera. Ég teldi slíkt betra en að fela einum eða fáum embættismönnum að ákveða, hvaða skattframtöl skuli árlega koma til slíkrar rannsóknar.

Með þessum orðum er ég þó engan veginn að lýsa vantrausti á ríkisskattstjóra eða starfslið hans. Ég er aðeins að benda á aðferð, sem hefur gefizt vel, þar sem hún hefur verið notuð erlendis. Eftir sem áður mundi skatteftirlitið að sjálfsögðu kanna sérhver þau framtöl, sem því þættu að einhverju leyti eða af einhverjum ástæðum grunsamleg. Rannsókn skv. útdrætti kæmi þá til viðbótar, og ég held, að hún gæti á skömmum tíma haft veruleg holl áhrif.

Um afstöðu þingflokks Alþb. til þessa frv. í heild er það að segja á þessu stigi málsins, að við teljum óhjákvæmilegt vegna gerbreytts verðgildis peninga að breyta skattstiganum til lækkunar, einkum á lágar tekjur og miðlungstekjur. Við munum því fylgja frv. að því leyti sem það léttir skattstigann á hinar lægri tekjur, og teljum raunar, að í því efni sé helzt til skammt gengið í þessu frv., þar sem lækkun skattstigans mun ekki hafa í för með sér neina lækkun á heildarupphæð tekjuskatts frá því, sem áður hefur verið.

Ég vil ljúka máli mínu með því að benda á þá staðreynd, að eins og skattkerfi okkar er nú orðið, er ekki unnt með breytingum á tekjuskattslöggjöfinni einni að milda; svo að verulegu máli skipti fyrir láglaunastéttirnar, þá miklu og lítt bærilegu skatta, sem á þeim hvíla. Leiðin til þess hlyti að verða sú að lækka söluskatt og tolla og þá alveg sérstaklega á þeim varningi, sem óhjákvæmilegur er til daglegs rekstrar hvers einasta heimilis í landinu. En stefna hæstv. núv. ríkisstj. er vissulega ekki slík, að líkur séu til, að hún hafi ótilneydd frumkvæði að þeim breytingum, sem þar þyrftu til að koma.