17.04.1964
Efri deild: 70. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

210. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Aðalatriði þessa frv., sem hér liggur fyrir, er hækkun persónufrádráttar. Persónufrádráttur er skv. þessu frv. hækkaður um 30 %. Þar er í raun og veru um lagfæringu eða leiðréttingu vegna vaxandi verðbólgu að ræða. Þessi hækkun persónufrádráttarins er nauðsynleg, ef persónufrádrátturinn á að hafa sama eða svipað gildi og s.l. ár, ef hann á að hafa nú sama að segja og þá.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að vegna vaxandi verðbólgu hafa allar upphæðir hækkað í krónutölu, þ. á m. tekjur, m.a. vegna beinna kauphækkana á s.l. ári. Þau hjón, sem nú fá 91 þús. kr. til frádráttar skattskyldum tekjum, eru því ekki betur sett en þau hjón, sem á s.l. ári fengu 70 þús. kr. í frádrátt á skattskyldum tekjum, og einstaklingur, sem nú fær 65 þús. kr. frádregnar, áður en skattur er á lagður, verður í raun réttri ekki betur settur en sá einstaklingur, sem í fyrra fékk 50 þús. kr. frádregnar, áður en skattur var þá lagður á hans tekjur. Vegna stighækkunar tekjuskattsins verður hann hlutfallslega því þyngri sem krónurnar þynnast meir út og þeim fjölgar og upphæð tekna hækkar í krónutölu, en kaupmáttur hverrar krónu minnkar að sama skapi.

Hér er því ekki um eiginlega skattalækkun að ræða, miðað við s.l. ár, heldur leiðréttingu á persónufrádrætti til samræmis við aukna dýrtið að undanförnu. En vitaskuld er um skattalækkun að ræða, sé miðað við það, hver skatturinn nú hefði orðið á þær tekjur, sem menn hafa aflað á s.l. ári, miðað við það, að persónufrádrátturinn hefði verið sá sami og s.l ár.

Sú lagfæring á persónufrádrættinum, sem hér er gerð tillaga um, er að mínum dómi eðlileg og sjálfsögð, og getur varla orðið ágreiningur um það atsiði út af fyrir sig. En spurning er hins vegar, hvort sú lagfæring þyrfti ekki að vera meiri. Persónufrádráttur var hækkaður mjög verulega 1960, eins og hér hefur raunar áður í þessum umr. verið gerð grein fyrir. Sú hækkun var út af fyrir sig góðra gjalda verð. Um þá breytingu var á sínum tíma ekki heldur neinn ágreiningur. Við framsóknarmenn t.d. vorum sammála þeirra breytingu, enda var hún þá í raun réttri orðin óumflýjanleg vegna vaxandi dýrtíðar, og þá m.a. vegna dýrtíðarráðstafana ríkisstj.

En til þess að sá persónufrádráttur, sem þá var ákveðinn, haldi raunverulega gildi sínu, hafi sama verðgildi og þá, þyrfti persónufrádrátturinn nú að hækka talsvert meir en hér er lagt til. Miðað við þá hækkun á framfærsluvísitölu, sem síðan hefur átt sér stað, þyrfti persónufrádrátturinn nú sennilega að hækka um 53% frá því, sem hann var ákveðinn 1960, í stað þeirra 30% sem hér er lagt til, að hann sé hækkaður um. Eftir þessa fyrirhuguðu breytingu verður skattþegn því í raun og veru verr settur en hann var árið 1960, að því er persónufrádrátt varðar, en líklega svipað staddur og s.l. ár. En eins og ég áðan sagði, liggur það í augum uppi, að ef persónufrádrættinum væri ekki breytt nú, hefði hann vitaskuld orðið miklu verr staddur.

Þetta, sem ég hef hér nefnt, er í raun og veru, eins og ég sagði, aðalatriðið í þessu frv.

Í 3. gr. frv. er að vísu einnig lagfæring af sömu rót runnin og lagfæring sú, sem í 4. gr. greinir, en þar er frádráttur vegna heimilisstofnunar hækkaður úr 20 þús. í 26 þús. kr. eða um 30%. Sú hækkun er einnig eðlileg að mínum dómi.

Það má segja, að í 1. gr. frv. felist aðeins nokkrar skattívilnanir, a.m.k. varðandi vissar eða tilteknar eignir barna undir 16 ára aldri.

Ég fæ ekki séð, að í frv. þessu sé eða geti verið um aðrar breytingar að ræða en þær, sem ég nú hef nefnt, sem geti talizt til skattlinunar. Þær breytingar eru, eins og ég hef þegar minnzt á, út af fyrir sig góðar, svo langt sem þær ná, og ég hef enga tilhneigingu til þess að gera sérstaklega lítið úr þeim, enda kom það fram hjá hæstv. fjmrh., að hann var dálítið sár yfir því, að þessar tilraunir hans til lagfæringar á skattamálum hefðu ekki hlotið verðuga viðurkenningu, að honum fannst, hjá málgögnum stjórnarandstæðinga. Það er nú svo, eins og hæstv. fjmrh. ætti að vera manna kunnugastur, að laun heimsins eru vanþakklæti, og ég skal nú ekki bæta miklu við það vanþakklæti, sem hann telur sig hafa mætt að þessu leyti. En ástæðan til þess, að málgögn stjórnarandstöðunnar hafa nú talið rétt að rifja upp nokkur atriði í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, er sú, að það hefur verið sagt frá þessari skattalagabreytingu, sem hér er á ferðinni, með vægast sagt talsvert skrumkenndum hætti í málgögnum hæstv, fjmrh. og í málgögnum stjórnarinnar. En þegar litið er til þess, sem ég hef hér lýst, þeirra skattívilnana, sem felast í þessu frv., er nú naumast ástæða til að flytja um þær mjög hástemmt lof og allra sízt ef rifjuð er upp ofur lítið saga hæstv. núv. ríkisstj. í sambandi við skattamál. Ég skal ekki fara langt út í þá sögu og sé ekki ástæðu til að fara að vekja upp deilur um þau atriði í sambandi við þetta mál, sem hér er til meðferðar, en get þó ekki stillt mig um að benda aðeins á örfá atriði; örfáar staðreyndir, þó að það hafi reyndar verið minnzt á þær sumar hér áðan af hv. 5. þm. Reykn.

Ég get í fyrsta lagi ekki stillt mig um að minna á það, að í tíð núv. hæstv. ríkisstj. hafa álögur á almenning aukizt og margfaldazt, sem sést bezt á því, ef bornar eru saman tölur um tekjuáætlanir t.d. fjárl. 1958 og svo aftur tekjuáætlun fjárl. nú, en slíkur samanburður sýnir, að hér hefur átt sér stað þreföldun a.m.k. Vitaskuld á hækkun gjaldstofnanna í krónutölu í því drjúgan þátt, að þessi hækkun hefur átt sér stað, því skal alls ekki neitað. En þegar gjaldstofnarnir sjálfir hækka jafngífurlega og hér hefur átt sér stað á undanförnum árum, ættu, ef rétt væri á haldið, allir skattstigar og gjaldstigar að lækka, því að ella er auðsætt, að skattabyrðin þyngist í raun og veru, þ.e.a.s. að óbreyttum skattstigum þyngist skattabyrðin t.d. vegna tekjuskattsins, þegar um er að ræða tekjuhækkanir í krónutölu vegna vaxandi verðbólgu, og það, sem því veldur, er hin öra stighækkun skattsins, sem upphaflega var náttúrlega miðuð við allt aðrar tekjur í krónutölu en nú er, og þess vegna er m.a. sá samanburður, sem hæstv. fjmrh. gerði hér áðan á árunum 1958 og nú í þessu tilviki, algerlega fráleitur og villandi, eins og líka áðan var bent á. Mér skilst, að ef hér ætti að halda jafnvægi að þessu leyti til og tekjuskatturinn ætti að haldast í jafnvægi að þessu leyti til, þyrftu tekjuskattsstigarnir í raun og veru að lækka eftir einhverri formúlu í hlutfalli við vísitölu, því að annars er auðsætt, að niðurstaðan verður þessi, sem ég drap á.

Það er alveg rétt, að persónuskattur, skattur á einstaklinga, var lækkaður allverulega 1960 vegna þeirrar hækkunar, sem þá átti sér stað á persónufrádrættinum. En ég minnist þess nú ekki, að beinir skattar hafi að öðru leyti verið lækkaðir á einstaklingum í tíð núv. hæstv. ríkisstj., fyrr en þá þetta frv., sem hér liggur fyrir, kemur til framkvæmda. En eins og þegar hefur verið sýnt fram á, er þar um að ræða lagfæringu vegna dýrtíðarinnar, sem nær þó í raun og veru ekki nægilega langt. Hitt er aftur á móti rétt, að í tíð núv. hæstv. ríkisstj. hafa beinir skattar á félög og fyrirtæki verið lækkaðir mjög verulega. Þegar litið er á þetta, verður ekki séð, að hæstv. ríkisstj. hafi af svo mjög miklu að státa í sambandi við skattalækkanir á einstaklinga, jafnvel þó að horft sé á beina skatta út af fyrir sig. En í öðru lagi er svo á það að minna, að í tíð núv. ríkisstj. hefur skattheimtunni verið æ meir breytt í form óbeinna skatta. Og þá auðvitað verður efst á blaði söluskatturinn og sú gífurlega hækkun á honum, sem átt hefur sér stað og nú síðast á þessu ári, svo sem öllum mönnum er í fersku minni. Það má líka minna á það, að á sínum tíma og í tíð núv. ríkisstj. voru aukatekjur ríkissjóðs, sem kallaðar eru, hækkaðar mjög verulega, og þar er um gjöld að ræða, sem snerta marga. Í fjórða lagi má minna á það, að á þessu tímabili hafa verið lögð á eða hækkuð gjöld til þess að standa undir sérstökum þörfum, og þar er auðvitað skemmst að minnast hækkunar benzínskattsins í sambandi við vegalögin. Og það mætti nefna ýmis fleiri dæmi, m.a. að það liggja fyrir þessu Alþ. nú frv., þar sem gert er ráð fyrir álagningu sérstakra gjalda til þess að standa undir sérstökum þörfum. Ég er alls ekki að segja með þessum orðum, að álagning þeirra gjalda, sem hér er um að tefla, sé óeðlileg í öllum tilfellum. Þvert á móti geta þær þarfir í ýmsum tilfellum verið svo mikilsverðar, að það sé rétt og verði ekki hjá því komizt að fullnægja þeim með þessum aukaálögum, og auðvitað dettur mér ekki í hug að halda því fram, að í ýmsum greinum sé þessum miklu tekjuhækkunum fjárl., sem átt hafa sér stað í tíð núv. stjórnar, ráðstafað í óþarfa í öllum tilfellum. Þvert á móti er auðvitað um óhjákvæmileg útgjöld að ræða í mörgum tilfellum. En staðreyndirnar eru samt sem áður þær, að álögurnar á almenning hafa hækkað, eins og hér hefur stuttlega verið drepið á.

Ég skal nú ekki fara lengra út í þetta og ekki hrella hæstv. fjmrh. með því, enda var hann mun hógværari í sinni grg. fyrir þessu frv. og gerði ekki eins mikið úr ágæti þess og manni virðist, að málgögn stjórnarinnar hafi gert á undanförnum dögum. Reyndar verður að játa, að það virðist líka í þeim vera farið að halla undan fæti í þessum efnum því að þrátt fyrir það, að fyrirsögn Morgunblaðsins væri talsvert hástemmd í fyrradag, eins og hv. 5. þm. Reykn. gerði grein fyrir, var hún með talsvert hógværara móti í gær, því að þá var fyrirsögnin á leiðaranum aðeins: „Léttbærari skattabyrði.“ Það var nú ekki hærra risið orðið þá á fyrirsögninni. Og ég býst við því, að þegar menn fara að kynna sér þetta og athuga nánar, þá komist þeir nokkuð að því sanna í þessu efni.

Ég skal svo ekki fara langt út í önnur einstök atriði þessa frv. Þau verða náttúrlega; eins og hvað eina í því, athuguð í nefnd. Ég vil þó aðeins minnast á 5. gr., þar sem gert er ráð fyrir því; að skattþrepunum í skattstigunum sé fækkað um helming, fækkað úr 6 niður í 3. Rökin fyrir þessari breytingu eru sögð þau, að með þeim hætti verði skattaálagningin og skattaútreikningurinn einfaldari. Það má vel rétt vera, og ég skal ekki dæma um það á þessu stigi, hvort þessi breyting á rétt á sér eða ekki. En ég vil aðeins segja það, að þar má ekki taka einfaldleikann fram yfir á kostnað réttlætisins. Ef það er hægt að ná réttlátari niðurstöðu með því að hafa skattþrepin 6, á náítúrlega að halda sig við það, þó að hitt sé eitthvað einfaldari útreikningur. En um þetta atriði skal ég annars ekkert fullyrða. Mér finnst það vera atriði, sem æskilegt sé, að hv. n., sem fær frv. til meðferðar. taki til at: hugunar og geri sér nánari grein fyrir því en maður getur í fljótu bragði gert, hvað í þessu felst og hver afleiðingin af því verður.

Í frv. eru svo, eins og reyndar hefur þegar verið drepið á, nokkur ákvæði, sem miða að auknu eftirliti og aðhaldi með skattframtölum: Ég fer ekki að ræða þau neitt sérstaklega; hvert einstakt atriði í því sambandi. Um þau er í sjálfu sér ekki nema gott eitt almennt að segja. Það er þörf á auknu aðhaldi í þessum efnum, um það munu flestir ljúka upp einum munni. Mönnum á vitaskuld ekki að haldast það uppi að sleppa undan réttmætum skatti. Af því hlýzt ranglæti. Skatturinn á öðrum, sem ekki telja þannig fram, að hið sanna kemur í ljós, verður þá hærri en rétt væri, ef einhverjir sleppa undan, þannig að það er gott og nauðsynlegt, að það sé haft fullt eftirlit og höfð full aðgát í þessum efnum. En jafnframt því, sem þetta eftirlit og aðhald er hert, verður þó eitthvað að gæta þess að ganga ekki of nærri réttaröryggi einstaklinganna. Og ég verð að segja það alveg eins og er, að mér er svolítið um og 6 um viss ákvæði í þessu sambandi, t.d. 6. gr. frv. eða þá breytingu, sem í henni felst. Það er dálitið víðtækt vald, sem lagt er þar í hendur skattstjóra. Mér dettur ekki í hug að vera með neinar getsakir í garð þeirra embættismanna, en ég býst við því, að sumum aðilum gæti þótt talsvert nærri sér gengið, ef skattstjórinn kæmi inn til þeirra einn góðan veðurdag og krefðist þess að fá að sjá verzlunarbréf þeirra og samninga alla, sem þeir hefðu gert. Það eru náttúrlega og verða að vera nokkur takmörk fyrir því, hversu langt má ganga í slíku efni, án þess að nokkrar sérstakar grunsemdir liggi fyrir. Því má náttúrlega svara til sjálfsagt þessari aths. minni, að til slíks ráðs sem þessa verði ekki gripið, nema skattstjóri álíti, að það sé eitthvað óhreint mél í pokanum, og það getur rétt verið; en heimildin er þarna eigi að síður fyrir hendi, og hún er ærið víðtæk. Enn fremur er það, að í 11. gr. er ríkisskattstjóranum veitt aukið rannsóknarvald, og hann á, að því er virðist, að geta tekið skýrslur jafnvel af framteljendum eða fyrirsvarsmönnum þeirra, og sérstaklega gert ráð fyrir því, að sett sé upp sérstök rannsóknardeild við embætti ríkisskattstjóra.

Nú er, eins og ég þegar hef sagt, gott eitt um það að segja, að þessi mál séu rannsökuð gaumgæfilega. En þær stofnanir, sem þá rannsókn eiga að hafa með höndum, verða að vera þannig úr garði gerðar, að það gildi um þær vissar, fastar reglur, þannig að útilokað sé, eftir því sem hægt er, að þarna gildi nokkurt handahóf. Ég hefði talið heppilegra, án þess að ég vantreysti á nokkurn hátt ríkisskattstjóra í þessum efnum, að það væri athugað, hvort ekki væri rétt að setja upp einhvers konar skattarannsóknardómara eða skattarétt, sem væri bundinn við það að fara í sínum störfum í þessum efnum eftir nokkuð almennum réttarfarsreglum. En það er ekki gerandi ráð fyrir því, að slíku verði við komið í þessari rannsóknardeild. Reyndar lét hæstv. fjmrh. þess getið, að það væri gert ráð fyrir því, að í þessari rannsóknardeild störfuðu menn, sem sérstökum kostum væru búnir í þessum efnum og hefðu kunnáttu í þeim efnum, en það eru ekki í frv. sjálfu nein ákvæði um það efni, engin skilyrði, engin hæfniskilyrði sett eða neitt þvílíkt, t.d. hvorki krafizt, að það séu lögfræðingar né löggiltir endurskoðendur né því um líkt. Þetta er sem sagt allt alveg laust. Það getur verið, eins og drepið var á hér áðan, að það verði kveðið á um þessi atriði í reglugerð. Það er að sjálfsögðu hægt. En ég vil a.m.k. skjóta því til n., sem fær frv. til athugunar, að hún kynni sér það, hvort ekki muni vera heppilegra að hafa aðra skipan á í þessu efni en hér er gert ráð fyrir að þessu leyti. En ég undirstrika það enn, að þessar hugleiðingar mínar má ekki á neinn hátt skilja á þá lund, að ég vilji draga úr því, að eftirlit og aðhald sé hert í þessum efnum, en það verður bara að vera gert um leið á þann hátt, að réttaröryggi og vissri friðhelgi einstaklingsins sé ekki misboðið.

Það er lítið atriði, sem ég vildi þó aðeins vekja athygli á líka og skjóta til n. að athuga, og það er sú stytting kærufresta, sem þarna er um að ræða í 9. og 10. gr., þar sem gert er ráð fyrir því, að almennur kærufrestur verði 14 dagar í stað þess, að hann almennt utan Reykjavíkur hefur til þessa verið 30 dagar, að ég ætla, og í 10. gr. gert ráð fyrir því, að kærufrestur til ríkisskattstjóra verði nú 21 dagur í stað þess, að hann hefur verið utan Reykjavíkur a.m.k. 30 dagar. Það getur vel verið, að breyttar aðstæður, bættar samgöngur réttlæti það, að þessir frestir séu svo stuttir, og það er rétt, sent kom fram, að frestirnir hafa verið stuttir í l. um tekjustofna sveitarfélaga. En ég held, að það sé ekki alveg víst, að það eigi það sama við hér. Framkvæmd þeirra laga er að sumu leyti nær mönnum, ef svo má segja, heldur en skattaálagningin og skattaúrskurðirnir, og þetta er ekki langur tími, sem mönnum þarna er ætlaður til þessarar athugunar mála og ákveða, hvort þeir skuli kæra, og til þess að koma kæru frá sér. Þetta þyrfti að athuga.

Ég vil að lokum segja það, að þetta frv. er að vísu nokkuð seint hér á ferð. Við gerum nú ráð fyrir því, að það fari að styttast í þingtímanum. Það hefði verið æskilegt, að þetta hefði komið fyrr fram. Þá hefði verið hægt að athuga það betur en nú verður í raun og veru hægt að gera, og það verður ekki séð, að það hafi verið ástæða til þess, — eða maður sér það ekki í fljótu bragði, — að það hafi verið ástæða til þess að draga framlagningu þessa frv. svo mjög, því að það er ákaflega langt síðan það var gefið fyrirheit um, að persónufrádráttur mundi verða hækkaður. Mig minnir, að hæstv. fjmrh. gæfi fyrirheit um það þegar á s.l. sumri, svo að maður undrast það eiginlega dálítið, hvað þetta hefur dregizt. Það hefur sumum dottið í hug, að þetta frv. hafi staðið eitthvað í sambandi við þann kjaradóm, þá úrlausn, sem þar varð nú nýlega, og hafa látið sér detta í hug, að þetta frv. mundi kannske ekki hafa séð dagsins ljós, ef úrlausn kjaradóms hefði orðið á annan veg. Ég veit ekkert um það, og það má vel vera, að þetta séu getsakir manna í milli. En þó að þetta frv. sé nú seint fram komið, er það svo, eins og ég hef þegar drepið á, að í því felast vissar leiðréttingar og lagfæringar á tekjuskattinum, — lagfæringar, sem full þörf er á, — og þess vegna munum við framsóknarmenn greiða för þessa frv. hér um d. og þingið, en munum þó auðvitað athuga um leið, hvort ekki er ástæða til þess að koma að í sambandi við málið frekari breytingum á tekjuskattslögunum. En það mun þó verða með þeim hætti, að það mun ekki verða til þess að tefja málið, því að það er ljóst, að það er orðið svo seint á ferð, að það liggur á að fá það afgreitt vegna álagningar skatta, af því að ákvæði frv. á að taka til greina við álagningu skatta þetta ár.