28.04.1964
Efri deild: 75. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

210. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Þegar hv. alþm. kynntust fyrst efni þess frv., sem hér er til umr., en það var í frásögn Morgunblaðsins af fundi í Landsmálafélaginu Verði, en það er nú orðinn fastur siður hæstv. ráðh. að leggja málin þar fyrir, skömmu áður en þeim er útbýtt á Alþingi, þá voru fyrirsagnir blaðsins um stórfelldar skattalækkanir. Nú eru allir hlutir afstæðir, og það er misjafnt, við hvað er miðað. Ef miðað er við þær reglur, sem Alþingi setti, þegar það setti síðast ákvæði um álagningu tekjuskatts, fæst önnur niðurstaða en fyrirsagnir Morgunblaðsins bentu til, en hins vegar eru þær niðurstöður nokkuð réttar, þótt kannske séu ýktar, ef miðað er við þær reglur, sem nú gilda og Alþingi hefur raunar ekki sett, heldur óðaverðbólgan, því að hún hefur breytt svo öllum verðmætum, sem þarna er miðað við, að hún hefur algerlega afskræmt þann vilja, sem Alþingi lét í ljós með setningu laganna á sínum tíma.

Þegar ég nú geri samanburð á þeim reglum, sem felast í þessu frv., og því, sem fyrr hefur verið, mun ég miða við þau verðmæti og það verðlag, sem gilti, þegar Alþingi setti þær reglur, sem gilt hafa íram til þessa. Að sjálfsögðu mun niðurstaða mín þess vegna verða nokkuð önnur en hv. frsm. meiri hl., sem hafði allar sínar víðmiðanir við þær reglur, sem óðaverðbólgan er búin að búa til á undanförnum árum.

Í upphafi starfsferils núv. hæstv. ríkisstj. var boðuð ný stefna í skattamálum. Óbeinir neyzluskattar skyldu í vaxandi mæli koma í stað beinna skatta. Beinir skattar voru taldir ranglátir, m.a. vegna þess, að það voru talin svo mikil brögð að undandrætti og skattsvikum. En hæstv. ríkisstj, lofaði því, að í stað þeirrar stórfelldu hækkunar á óbeinum sköttum, sem hún beitti sér fyrir með 1. um söluskatt og raunar l. um efnahagsmál í febr. 1960, skyldi lækka tekjuskatt og afnema hann með öllu á þeim tekjum, sem kallaðar voru þurftartekjur. Það voru síðan afgreiddar nýjar reglur um álagningu tekjuskatts, bæði um persónufrádrátt og um skattstiga, í aprílmánuði 1960 og samþykktar sem lög nr. 18 það ár, og síðan hafa þessar reglur, bæði reglurnar um persónufrádrátt og um skattstiga, verið óbreyttar.

Þegar þessar reglur voru settar í aprílmánuði 1960, voru meðaltekjur verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna, sem reiknaðar eru út samkv. úrtaki úr skattskýrslum um tekjur ársins á undan, sem rétt er að miða við í þessu sambandi, 74900 kr. Framfærsluvísitalan var, þegar lögin voru sett, 104 og vísitala vöru og þjónustu var 106. Svo kom verðbólguþróunin til og breytti öllum þessum verðmætum, bæði verðlags og tekna, sem Alþingi hafði haft fyrir augum, þegar þessi lög voru samþykkt. Og árið 1962 voru úrtakstekjurnar, sem ég gat um áðan, 103600 kr., og ég hef látið mér detta í hug, að það væri sjálfsagt varlegt að áætla þær um 115 þús. á árinu 1963. Þannig hafa þær hækkað um 53.4%. Vísitala framfærslukostnaðar er nú orðin 161 og hefur hækkað um nærri 55%, og vísitala vöru og þjónustu er nú 184 stig og hefur hækkað um 73.6%.

Það var athyglisvert áðan í ræðu hv. frsm. meiri hl., að honum þótti eðlilegt að miða við meðalvísitölu ársins sem leið, sem hann taldi vera 134 stig, og bera hana saman við vísitöluna, þegar lögin voru sett, í aprílmánuði 1960, sem er 104 stig. Rökin fyrir þessu voru þau, að það væri nú verið að búa sig undir að leggja á tekjur seinasta árs. En mér er spurn, hvort það hafi ekki einnig verið þannig árið 1960. Ef við viljum miða við fyrra ár nú, skulum við þó a.m.k. miða við fyrra ár þá líka, þó að ég að vísu skuli viðurkenna, að ef það væri gert, gæfi það nokkru hagstæðari útkomu fyrir talsmenn þessa frv., sem hér liggur fyrir.

En þegar við höfum litið á þessar hækkanir, sem ég hef nú verið að gera grein fyrir, er næst að líta á það, að tilgangur þessa frv. er sagður vera fyrst og fremst sá að leiðrétta persónufrádráttinn í samræmi við breytt verðgildi peninganna, síðan lögin voru sett. Þetta taldi hv. frsm. meiri hl. hér áðan einnig vera meginsjónarmíð frv. En væri þetta ætlunin, hlyti maður að gera ráð fyrir, að hækkunin á persónufrádrættinum væri töluvert miklu meiri en raun ber vitni. Hækkunin á persónufrádrættinum, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., er 30%. en eins og ég gerði grein fyrir áðan, hefur verðlagshækkunin, síðan lögin voru sett, verið 55% eða 74% eftir því, hvora vísitöluna menn telja eðlilegt að miða við í þessu sambandi.

Mig langar einnig í þessu sambandi til þess að benda á annað. Þau verðmæti, sem talin eru í grundvelli vísitölunnar fyrir vörur og þjónustu, námu í aprílmánuði 1960 51241 kr., en í aprílmánuði 1964 89119 kr. Hækkunin er 37878 kr., eða ef menn vilja miða við vísitölu framfærslukostnaðar, þá verða tölurnar þessar, að í aprílmánuði 1960 var grundvöllurinn upp á 68736, en í apríl 1964 106455, og mismunurinn þarna er nokkurn veginn sá sami og í vísitölu vöru og þjónustu, nefnilega 37719 kr. Samkvæmt þessu hafa því brýnustu lífsnauðsynjar hækkað á þessu tímabili um 37 þús. og 700800 kr., en hækkun persónufrádráttarins er ekki nema 15 þús. kr. fyrir einhleyping, 21 þús. kr. fyrir hjón, 24 þús. kr. fyrir hjón og barn og 27 þús. kr. fyrir hjón og tvö börn. Af þessu er þá einnig ljóst, að hækkun persónufrádráttarins er allmiklu minni en verðlagsþróunin hefði gefið tilefni til, ef ætlunin hefði verið að leiðrétta að fullu þá röskun, sem verðlagsþróunin hefur orsakað í þessum efnum.

En jafnvel ekki þessarar takmörkuðu réttarbótar er skattþegnum ætlað að njóta óskertrar, ef tekjur þeirra fara eitthvað fram úr persónufrádrættinum. Þá á sér nefnilega stað hækkun á skattstiganum, hækkun, sem er fólgin í því, að skattstiginn er gerður brattari í upphafi, þannig að skattskyldar tekjur yfir 50 þús. fara með skattinn upp í hæsta þrep skattstigans í stað þess, að áður þurftu skattskyldar tekjur að fara yfir 90 þús., til þess að hæsta þrepi væri náð. Það er alveg augljóst, þrátt fyrir mótmæli hv. frsm. meiri hl., að þetta kemur þyngst niður á þeim, sem hafa hóflegar skattskyldar tekjur, en úr því að menn hafa farið yfir 90 þús. í skattskyldar tekjur, verður hækkunin á skattstiganum jöfn í krónutölu og því minnkandi hlutfallslega, eftir því sem tekjurnar og skatturinn verður hærri.

Af töflu, sem birt er í nál. okkar minnihlutamanna, kemur það fram, svo að ekki verður um villzt, að af sömu skattskyldu tekjum verður, eftir að frv. þetta er orðið að lögum, borgaður hærri skattur en áður var, enda gerði hv. frsm. meiri hl. ekki tilraun til að mótmæla því, og þessi hækkun, miðað við skattskyldu tekjurnar, verður hlutfallslega mest á tiltölulega lágu bili skattskyldra tekna. Ég skal ekki fara út í að rekja það, sem rakið er í nál. um þetta, en langar í þess stað að taka nokkur önnur dæmi um það, hvernig þessi breyting á skattstiganum verkar.

Á árinu 1959 voru meðaltekjur samkv. úrtakinu, eins og ég gat um áðan, 74 þús. kr., en á árinu 1963 gizkaði ég á, að þær væru varlega metnar í kringum 115 þús. kr. Ef við berum saman hjón, sem hafa eilitlu lægri hreinar tekjur en þær tekjur, sem þarna um ræðir, verður sá samanburður á þessa leið: Hjón, sem höfðu hreinar tekjur um 70 þús. kr. á árinu 1959, höfðu í persónufrádrátt á árinu 1960 einnig 70 þús. kr. og borguðu því engan skatt það ár. Hafi nú tekjur þessara hjóna hækkað í hlutfalli við hækkun á tekjum úrtaksins, hefðu þau á árinu 1963 u.þ.b. 110 þús. kr. tekjur, en persónufrádráttur þeirra er nú aðeins 91 þús. Skattskyldar tekjur verða því 19 þús. og tekjuskatturinn 1900 kr. Hjón með tvö börn með sömu tekjur borguðu auðvitað engan skatt 1960, borga 600 kr. samkv. þessari breytingu, og þessi hjón, sem urðu skattlaus með þessar tekjur árið 1960, þurfa nú að hafa eignazt tvö börn til viðbótar til þess að sleppa við skatt samkv. hinum nýju reglum.

Það má taka ýmsa aðra viðmiðun, ef menn vilja, til þess að reikna út, hver áhrif þessar breytingar hafi, og ef við t.d. tökum dæmi af hjónum með eitt barn, sem á árinu 1959 höfðu hreinar tekjur að upphæð 90 þús., þá höfðu þau í persónufrádrátt á árinu 1960 80 þús. og í skattskyldar tekjur 10 þús. kr. og borguðu því tekjuskatt upp á 500 kr. Ef þessum hjónum með sitt eina barn hefur nú tekizt að halda þannig í horfinu, að þau hafa aukið tekjur sínar um einmitt það, sem grundvöllur vísitölunnar hefur hækkað um, nefnilega 38 þús. kr., sem virðist þó vera algert lágmark, — ef þeim á að hafa tekizt að halda bara nokkurn veginn í horfinu, þá hafa tekjur þeirra á s.l. ári verið 128 þús. kr., persónufrádráttur verður 104 þús. kr. og skattskyldar tekjur 24 þús. og tekjuskattur 2400 kr. í staðinn fyrir 500 fyrir 4 árum.

Ég hirði ekki um að taka fleiri dæmi af þessu tagi. Það er augljóst, hvað á sér stað við þessar breytingar. Persónufrádrátturinn er hækkaður minna en nemur verðrýrnun peninganna á tímabilinu, síðan hann var seinast ákveðinn. Skattþegnarnir, sem fara upp fyrir persónufrádráttinn, njóta þó ekki einu sinni þeirrar hækkunar til fulls vegna hækkunar skattstigans. Þetta eru staðreyndir málsins, sem raunar hv. frsm. meiri hl. gerði ekki tilraun til þess að vefengja efnislega, þó að hann reyndi að gera nál. okkar tortryggilegt með öðrum hætti.

Á undanförum árum hefur verðbólguþróunin sífellt verið að rýra persónufrádráttinn, rýra raungildi hans. Jafnframt hefur hún verið að flytja skattþegnana, sem fá fleiri krónur, vegna þess að þær eru verðrýrari, upp í hærri skattstiga, eins og raunar frsm. meiri hl. gerði ágætlega grein fyrir hér áðan. Árangurinn hefur verið sá, að óðaverðbólgan hefur með þessum hætti verið drjúg tekjulind fyrir ríkissjóð. Árið 1960 var á fjárl. gert ráð fyrir, að tekju og eignarskattur yrði 72 millj. kr., en reyndist samkv. ríkisreikningum 97 millj. kr. Á árinu 1961 var gert ráð fyrir því á fjárl., að tekju og eignarskattur yrði 75 millj. kr., en hann reyndist 106 millj. kr. Og árið 1962 var gert ráð fyrir á fjárl., að hann yrði 95 millj. kr., en reyndist 118 millj. kr. Þannig ruglar þessi verðbólguþróun allt mat fjárveitingavaldsins, ekki aðeins á tekjum ríkissjóðs, heldur einnig á skattstigunum og þeirri skattstefnu, sem ákveðin er með skattalögum á hverjum tíma. Af þessum ástæðum virðist okkur í minni hl. eðlilegt að verðtryggja persónufrádráttinn með svipuðum hætti og gert var í skattal. frá 1954, þannig að nokkurn veginn sé tryggt, að hann haldi gildi sínu frá ári til árs.

Hv. frsm. meiri hl. gerði tvær aths. við þessa till., sem við í minni hl. flytjum sem fyrri tölulið á þskj. 496. Annars vegar væri það ekkert víst, að þetta væri skattþegnum í hag, vegna þess að svo gæti- vel farið, að stjórnarliðið hv. hugsaði sér að hækka enn persónufrádráttinn með nýjum lagabreytingum á næsta ári. Og hann lét að því liggja, að ef nú yrði samþykkt að verðtryggja persónufrádráttinn, mundu hv. stjórnarflokkar síður sjá ástæðu til þess að hækka persónufrádráttinn á næsta ári. Ég fæ nú ekki með neinu móti séð, að ef hv. frsm. meiri hl. er reiðubúinn til þess að viðurkenna það nú, að leiðrétting á persónufrádrættinum hafi verið of lítil og þurfi þess vegna að leiðréttast aftur á næsta ári, þá sé síður ástæða til þess að gera það, þó að sú réttarbót, sem nú hefur fengizt, yrði vísitölutryggð. Þess vegna get ég ekki fallizt á þessa röksemdafærslu, sem ég tel vera út í loftið.

Hin aths. hv, frsm. meiri hl. veldur mér meiri umhugsun. Hann gat. þess, að það væri óeðlilegt að miða við vísitölu framfærslukostnaðar, vegna þess að í henni væri tekið tillit til beinu skattanna. Ef hv. frsm. meiri hl. þætti þess vegna eðlilegra að binda þetta við vísitölu vöru og þjónustu, sem ekki felur í sér neitt tillit til beinu skattanna, þá er ég reiðubúinn til þess að endurskoða till. mína með honum, ef hún með þeim hætti gæti fengið stuðning hans.

Þá var hin till., sem við í minni hl. berum fram á þskj. 496, sem er sú að fella niður ákvæðið um hinn nýja skattstiga, svo að núgildandi skattstigi haldi gildi sínu. Astæða okkar til þess að bera fram þá till. er sú, að við teljum, að hin skyndilega hækkun stigans, strax eftir að komið er upp fyrir persónufrádráttinn, sé óréttlátari en núgildandi skattstigi vegna þess, hve snögglega menn komast upp í háan tekjuskatt. Það er þess vegna af hreinum sanngirnisástæðum, sem við förum fram á það, að þessi breyting sé felld niður.

Í tilefni af ýmsum aths., sem fram komu í ræðu hv. frsm. meiri hl., þykir mér rétt að taka það fram, að brtt. okkar eiga ekki fyrst og fremst rót sína að rekja til þess, að við séum mótfallnir því, að hæstv. ríkisstj. leggi nú að nýju meiri áherzlu á beina skatta — og þá vonandi í framhaldi af því minni á óbeina — og sé þannig að taka svolítið skref aftur á bak frá þeirri stefnu, sem hún markaði árið 1960. Það er ekki það, sem við erum mótfallnir, vegna þess að eins og hv. frsm. meiri hl. tók réttilega fram, þá álítum við þá stefnu, sem ríkisstj. tók upp í skattamálum árið 1960, vera ranga. Við berum hins vegar fram 2. brtt. á þskj. 496 vegna þess, að við teljum þann skattstiga, sem nú gildir, sanngjarnari en þann, sem lagður er til í frv. Við mundum miklu heldur kjósa það, þó að hæstv. ríkisstj. þyrfti eitthvað að herða á beinu sköttunum, að hún gæti þá lækkað óbeinu skattana, a.m.k. að sama skapi og raunar helzt miklu meira, sökum þess, hve skattbyrðin er nú að okkar dómi orðin óhæfilega þung.

Ég hef hér farið nokkrum orðum um þær tvær höfuðbreytingar á skattstigum og persónufrádrætti, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., og um þær brtt., sem við í minni hl. leggjum til á þskj. 496. En það eru fleiri atriði í þessu frv., sem er ástæða til að nefna nokkrum orðum, og það er það, að nú seint og um síðir finnst ríkisstj. ástæða til þess að herða á skattaeftirlitinu og viðurlögum við undandrætti og skattsvikum. Það er að sjálfsögðu ekki nema gott um það að segja, og sjálfsagt minnast allir hv. þm. þess, að það var ein af aðalröksemdafærslum hv, stjórnarflokka, þegar rætt var um breyt. á skattastefnunni árið 1960, að það væri svo erfitt að koma í veg fyrir skattsvik, að nauðsynlegt væri þess vegna að leggja minnkandi áherzlu á beinu skattana. Nú virðist hæstv. ríkisstj, hins vegar sjá möguleika á því að herða skattaeftirlitið, og við getum aðeins fagnað því og munum styðja þær breytingar á skattalöggjöfinni, sem að þessu lúta í því frv., sem hér liggur fyrir. É:g get samt ekki stillt mig um að segja það, að auðvitað er mönnum alltaf nokkurt íhugunarefni að auka rétt embættismanna og ríkisvaldsins til þess að hnýsast í einkamál manna, án þess að mjög rökstuddur grunur liggi fyrir, en í þessum efnum er sú nauðsyn fyrir hendi, sem okkur virðist að réttlæti þau ákvæði, sem í þessu frv. er að finna.

Hv. frsm. meiri hl. fór nokkrum orðum um þær aths. í nál. okkar, sem lúta að því, að við finnum að því, að þetta tilefni skyldi vera tekið til þess að stytta kærufresti, bæði til skattstjóra og til ríkisskattstjóra, og við höfum leyft okkur að benda á það, að með þessu sé verið að rýra rétt þeirra, sem að ósekju kynnu að verða órétti beittir af hálfu skattayfirvalda. Að gefnu þessu tilefni skal ég taka það fram, að þó að við finnum að þessu í nál. okkar, höfum við ekki enn a.m.k. flutt við þetta brtt., og á það rót sína að rekja til þess, að okkur virðist að sumu leyti ekki óeðlilegt, að sömu reglur gildi eins og í l. um tekjustofna sveitarfélaga og að þá verði að líta á þetta sem samræmingu við þau. En þó höfum við það til athugunar að flytja e.t.v. á síðara stigi þessa máls brtt. við 9. og 10. gr.

Að svo mæltu vildi ég leyfa mér að mæla með samþykkt brtt. okkar minni hl. á þskj. 496 og brtt. meiri hl. á þskj. 507 og samþykkt frv. svo breytts.