28.04.1964
Efri deild: 75. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1038 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

210. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá atriði varðandi nál. minni hl. og brtt., sem ég vildi gera hér að umtalsefni. Í nál. segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Tilgangur þessa frv. er sagður vera fyrst og fremst sá að leiðrétta persónufrádráttinn í samræmi við breytt verðgildi peninga. Væri það ætlunin, er ljóst af því, sem að framan er sagt, að hann hefði átt að hækka um a.m.k. 55%, ef ekki 74, eftir því, hvora vísitöluna menn vilja miða við, en frv, gerir ráð fyrir að hækka hann um 30% og yrði hann því nú allmiklu lægri í hlutfalli við tekjur og verðlag en seinast, er hann var ákveðinn.“

Í tilefni af þessu rifjast það upp fyrir mér, að ég átti sæti í þeirri n., sem undirbjó skattalagabreytinguna 1960. Þá var tekjuskatturinn lækkaður mjög mikið. Það var róttækur niðurskurður, sem þá átti sér stað, ekki einungis það, að skattgreiðendunum fækkaði þá mikið, heldur lækkaði hann líka á öllum skattgreiðendum. Ég man það vel, að þegar við í þessari nefnd vorum að rökræða um þennan skala, sem fyrirhugað var að lögfesta, þá var það hugsun okkar, a.m.k. var það hugsun mín og margra annarra, sem voru þarna við þetta riðnir, að það verðlag og kaupgjald, sem gilti þegar á þeim tíma, þegar verið var að lögfesta þetta frv., mundi að sjálfsögðu taka breytingum í nánustu framtið. Það var auðséð t.d. á því, að í ársbyrjun 1960 var gengi krónunnar lækkað talsvert og af því leiddi augljóslega verulegar verðhækkanir. Þess vegna var það álit okkar, að í þessum skala, sem þá væri ákveðinn, væri svo mikil skattalækkun og róttæk fólgin, að hann mundi rúma það, þó að tekjur manna og verðlag hækkaði talsvert á næstu árum, þó að þar væri að sjálfsögðu ekki miðað við neina fastákveðna tölu. Þess vegna hlýtur samanburður nú og þá að vera í sjálfu sér ákaflega erfiður, og þessar tölur, sem þarna eru nefndar, eru vægast sagt, þó að það sé rétt farið með vísitöluna, mjög ónákvæmur samanburður, því að það verður að gera greinarmun á því, að 1960 fór fram endursköpun skattalaganna, og það er eðlilegt, þegar slík endursköpun á sér stað, að hún sé miðuð við nokkur ár fram í tímann. Þó að enginn geti um það sagt með vissu fyrir fram, hvað verðlag og kaupgjald muni hækka, þá er það nokkurn veginn ljóst alltaf, að það muni eiga sér stað. Hins vegar er núna aðeins verið að gera leiðréttingu. En það, sem skiptir þó auðvitað máli í þessu sambandi, er, hvað Alþingi og ríkisstj. ætlast fyrir um það að gera slíkar leiðréttingar oft, og eins og hv. frsm. meiri hl. n. drap á, fyndist mér það mjög koma til athugunar, að leiðrétting yrði gera aftur á næsta ári, m.a. vegna þess, að 15% kauphækkun, sem varð í desember, kom að ákaflega litlu leyti fram á tekjum ársins 1963, og á þá kauphækkun verður því ekki lagður skattur í ár, það er ekki fyrr en á næsta árí. En ég vildi sem sagt undirstrika það, að það var ekki hugsunin, þegar þessi skattalög voru sett og persónufrádrátturinn ákveðinn, að hann væri endanlega fastbundinn við það kaupgjald og verðlag, sem ríkti í landinu, þegar verið var að lögfesta það frv.

Þá kem ég að öðru atriði og það er sjálfur skattstiginn. Menn minnast þess sjálfsagt 1960, þegar verið var að breyta skattalögunum hér á Alþingi, að þá gagnrýndu talsmenn Framsfl. þann skattstiga, sem þá var verið að lögfesta. Að vísu neituðu þeir því ekki, að það væri fjöldi manna, sem yrði skattlaus eftir þeim stiga og þeim frádrætti, sem þá gilti, og að skatturinn lækkaði verulega á miðlungstekjum eða hærri. Það, sem þeim þótti lakast, var, að skatturinn á háar tekjur lækkaði allt of mikið. Að vísu játuðu þeir það, að hann lækkaði prósentvís talsvert minna á háar tekjur en miðlungstekjur, en tölulega séð, ef teknar voru upphæðirnar, þá átti hátekjumaðurinn að hagnast miklu meira en sá, sem hafði meðaltekjur eða þar undir. Nú virðist hins vegar vera öðruvísi varið afstöðu Framsfl. í þessum efnum, því að nú vilja þeir breyta nýja skalanum, eða réttara sagt: nú vilja þeir halda við gamla skalann óbreyttan, þegar ríkisstj. leggur til, að nýr skali sé tekinn upp.

En ef við berum saman, hvernig skatturinn kemur út á eftir reglum þessa frv. og hins vegar eftir þeirri brtt., sem hér kemur fram frá hv. minni hl. nefndarinnar, sem er á þá leið, að gamli skalinn gildi óbreyttur, þ.e.a.s. persónufrádrátturinn á að sjálfsögðu að breytast eftir reglum frv. og hækka, en skalinn sjálfur á síðan að taka við óbreyttur, þá kemur í ljós, ef við tökum t.d. einhleyping, sem hefði 75 þús. kr. í skattskyldar tekjur, að hann á samkv. frv. að borga 1000 kr. í skatt, en samkv. brtt. 500 kr. eða samkv. gamla skalanum. Það er út af fyrir sig alveg rétt. Og alveg sama má segja um hjón með 2 börn, sem hefðu 127 þús. kr. í tekjur, þau eiga eftir frv. að borga 1000 kr. í skatt, en eftir brtt. minni hl. n. eiga þau að borga 500 kr., þannig að á vissum bilum og fyrir það fólk, sem er með lægri skattskyldar tekjur, en kemst þó í skatt, er þetta lækkun prósentvís, sem vissulega er mikil, getur maður sagt. En þegar skoðað er lengra upp, og ég tek til dæmis 250 þús. kr., kemur í ljós, að einstaklingur eða einhleypur maður með 250 þús. kr. skattskyldar tekjur á samkv. frv. að borga 47500, en samkv. brtt. 43000. Þar með er sú lækkunin 4500 kr. Og hjón með 2 börn eiga samkv. frv. að borga 31900, en samkv. brtt. eiga þau að borga 27400, þ.e.a.s. 4500 kr. lægri skatt en frv. gerir ráð fyrir.

Það má að sjálfsögðu lengi deila um svona sjónarmið, hvað sé réttmætt og sanngjarnt og hvað ekki. Ég er ekki að nefna þetta vegna þess, heldur sýnir þetta alveg ljóslega, að Framsfl. er kominn inn á talsvert aðra stefnu en hann hafði 1960. Þá gagnrýndi hann breytingarnar á skattalögunum vegna þess, að þar var um of mikla lækkun á sköttum hátekjufólks að reeða. Nú vill hann hins vegar snúa þessu við og gerir brtt. um það, að skattarnir á þetta fólk lækki frekar en frv. stjórnarinnar gerir ráð fyrir. Og það er einmitt það, sem mér finnst á skorta í afstöðu Framsfl. í skattamálunum, að hann hefur ekki nógu sjálfstæðar skoðanir eða sjálfstæðar till. fram að færa. 1960 var Framsfl. andvígur þeim skattstiga, sem þá var settur fram, án þess að gera till. um nokkurn annan skattstiga. Og núna, þegar ríkisstj. gerir till. um nýjan skattstiga, þá hefur Framsfl. ekkert annað fram að færa en gamla skattstiga ríkisstj.

Þá ætla ég að lokum að koma að hinni brtt., sem gerir ráð fyrir því, að persónufrádrátturinn hækki í samræmi við framfærslukostnað eða framfærsluvísitölu. Út af fyrir sig viðurkenni ég það, að það er viss sanngirni í því fólgin, að persónufrádráttur fylgi vísitölu. En það er á annað að líta. Ég er þeirrar skoðunar, að einasta ráðið, sem dugir til frambúðar til þess að halda verðbólgunni í skefjum, sé einmitt að hafa eins konar refsivönd yfir stéttunum, þannig að stéttirnar í þjóðfélaginu græði ekki á verðbólgu. Undanfarin ár og áratugi hefur þetta verið þannig, að það hafa allt of margar stéttir í landinu grætt á verðbólguþróuninni, og það hefur m.a. skapað erfiðleika við að kveða hana niður. Ég vil taka sem dæmi, svo að vissir hópar eða stéttir í þjóðfélaginu séu nefnd, eins og við skulum segja atvinnurekendur, skuldarar, launþegar, skattgreiðendur. Ef við gætum komið á þeim reglum, að engin þessara stétta sæi sér ávinning í aukinni verðbólgu, þá væri vissulega mikið unnið. En það er einmitt út frá þessu sjónarmiði, sem ég skal að vísu játa það, að þessi refsivöndur ætti að vera á lofti yfir fleiri en aðeins skattgreiðendum, ég vil taka það fram, en ég tel einmitt, að ef skattgreiðendurnir sjá íram á það, að aukin verðbólga íþyngi þeim í sköttum, þá hafa þeir einmitt hagsmuni af því, að verðbólgunni sé haldið í skefjum, og þannig þyrfti að koma á reglu um fleiri stéttir. Þess vegna get ég ekki fallizt á þessa till., eins og sakir standa.