28.04.1964
Efri deild: 75. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (722)

210. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Björn Jónsson:

Herra forseti. Við hv. 5. þm. Reykn. flytjum hér á þskj. 498 brtt. við 11. gr. þess frv., sem hér er til umræðu, en í 11, gr. frv. er það nýmæli að finna, að við embætti ríkisskattstjóra skuli starfa sérstök rannsóknardeild, sem hafi með höndum rannsóknir samkv. skattalögunum eftir nánari ákvörðun ríkisskattstjóra, eins og þar segir. Það verður sjálfsagt að telja þetta nýmæli um sérstaka rannsóknardeild til bóta, ef vel er á málum haldið. En hér sem víðar er það svo, að mikið eða jafnvel allt er undir sjálfri framkvæmdinni komið, og um það, hversu um hana tekst til, verður að sjálfsögðu ekki fullyrt, fyrr en nokkur reynsla er fengin. Að svo komnu liggur ekkert fyrir um það frá höfundum þessa frv., hvernig þeir hugsa sér, að rannsóknardeildin starfi í aðalatriðum, en það er hins vegar algerlega lagt í vald ríkisskattstjóra. Vafalítið verður þó að telja, að þeir, sem að frv. standa, og þ. á m. ríkisskattstjóri, hafi nú þegar gert sér a.m.k. í algerum höfuðatriðum hugmyndir um starfshátt slíkrar deildar og um starf hennar og afkastagetu.

Mín skoðun er sú, að þeir starfshættir, sem rannsóknardeildinni verði ákveðnir, ráði algerlega úrslitum um það, hvort við hana megi binda vonir um það, að verulega dragi úr þeirri þjóðarmeinsemd, sem skattsvik eru orðin. Það er enginn vafi á því, að orsaka skattsvikanna er ekki að leita í því, að skattstjórar og skattayfirvöld yfirleitt hafi viljandi vanrækt störf sín. Og þeirra hefur ekki heldur verið að leita, nema þá að sáralitlu leyti, í því, að skattheimtan hafi verið svo óhófleg, að það hafi neytt framteljendur til skattsvika sem eins konar neyðarúrræðis sér til fjárhagslegrar bjargar, eins og stundum er haldið fram. Meginorsökin er vafalaust og hefur verið sú, að ekkert raunverulegt og virkt skattaeftirlit hefur verið til í landinu og þeim, sem hefur verið falin framkvæmd skattaálagningar, hefur verið upp á lögð handarbakavinna, vil ég segja, svo að það hefur verið útilokað, að hún bæri nokkurn árangur í þá átt að draga úr skattsvikunum. Reglan hefur verið sú, að skattstjórum og skattanefndum hefur verið ætlað að fara ofan í hvert einasta framtal til þess að ganga úr skugga um gildi þess. En auðvitað hefur slíkt fyrirkomulag leitt til þess, að fámennu starfsliði og oft lítt þjálfuðu hefur reynzt slíkt hlutverk algerlega um megn og endirinn orðið sá, að um engar raunverulegar rannsóknir framtala hefur verið að ræða, nema þá í sérstökum tilvikum. Þetta hefur lengi verið lýðum ljóst, og skattsvikararnir hafa því getað stundað iðju sina að mestu algerlega áhyggjulausir fram að þessu. Sannleikurinn er líka sá, að það er tæplega hugsanlegt, að slíku eftirlitsbákni, að það yrði fært um að grandskoða hvert einasta framtal á öllu landinu, verði nokkru sinni komið á. Það væri strax útilokað, í fyrsta lagi kostnaðarins vegna, þó að ekki kæmi fleira til. Það er því mjög fjarri því, að stofnun sérstakrar rannsóknardeildar ein út af fyrir sig geti orðið sú úrbót, sem þörf er á, ef ekki verður mjög breytt um sjálf vinnubrögðin. En það eru einmitt breytt vinnubrögð, sem ein geta komið hér að gagni, og þau þurfa nauðsynlega og fremur öllu öðru, vil ég segja, að vera alþjóð kunn og með þeim hætti, að af þeim standi veruleg ógn hverjum þeim, sem hefur hug á að svíkja undan skatti.

Í brtt. minni og hv. 5. þm. Reykn. er tekið upp algert nýmæli um starfshætti skattaeftirlitsins, nýmæli, sem þó á sér fyrirmyndir erlendis og þar hafa gefizt mjög vel. Í okkar brtt. er gert ráð fyrir því, að það sé skylt að láta fara fram árlega útdrátt úr framtölum, og skulu dregin út 5% framtala þeirra, sem hafa rekstur með höndum eða eru bókhaldsskyldir, en 2% af framtölum einstaklinga. Þessi útdráttur skal að öðru leyti fara eftir reglum, sem Hagstofa Íslands setur, og á hennar vegum. Þau framtöl, sem þannig eru dregin út, skulu síðan rannsakað gaumgæfilega, m.a. með bókhaldsskoðun, og ef þurfa þykir, skulu framtöl viðkomandi aðila athuguð á sama hátt allt að 5 ár aftur í tímann, þannig að sannleiksgildi þeirra sé reynt, eftir því sem nokkur kostur er á. Að sjálfsögðu mundi þessi skipun mála ekki hindra rannsóknir annarra framtala, sem grunsamleg kynnu að þykja, sbr. t.d. ákvæði 36., 37. og 42, gr. skattalaganna. En öllum meginþunga skattaeftirlitsins yrði sem sagt beint að hinum útdregnu framtölum.

Það gefur auga leið, að ef sá háttur yrði upp tekinn, sem hér er lagt til að gert verði, getur enginn framteljandi nokkru sinni verið öruggur um það að sleppa í gegn með falsaða framtalsskýrslu. Og reyni hann að hætta á slíkt, þá getur hann í 5 ár frá því, að fölsunin var framin, átt í vændum, að ofan. af honum verði flett. Og ég dreg í efa, að þegar svo væri komið, og einkanlega ef viðurlögum væri beitt, eins og lög nú frekast heimila, þá mundu ýkjamargir vilja eiga slíkt á hættu og heldur kjósa að gjalda sína skatta án undandráttar. Það má e.t.v. spyrja, hvers vegna við leggjum til, að útdráttur framtala til rannsókna sé framkvæmdur, og því er í rauninni auðsvarað. Það er í fyrsta lagi gert vegna þess, að ekki er mögulegt, eins og ég áður sagði, að þrautkanna nema mjög takmarkaðan hluta framtala, og svo í öðru lagi og ekki síður vegna þess, að með vélrænum útdrætti yrði hafið yfir allar hugsanlegar efasemdir, að allir skyldu jafnir fyrir lögunum, og fyrir það byggt, eftir því sem frekast er unnt, að nokkrar hugsanlegar freistingar gætu sótt að þeim, sem eftirlit hafa með höndum, til þess að sniðganga rannsóknir á einstökum framteljendum. En það er einmitt slíkt traust á því, að skattaeftirlitið sé raunverulega virkt og réttlátt og engum sé hlíft, sem sekur kann að reynast, sem nú skortír fyrst og fremst, til þess að nokkrar vonir séu til þess, að skattsvikunum linni í verulegum mæli.

Ég ætla ekki í sambandi við þetta að reyna að leiða neinar líkur að því, hversu skattsvikameinsemdin er orðin umfangsmikil hjá okkur Íslendingum. En það eitt er víst, að ótrúlegum upphæðum tekna og misjafnlega fengins gróða er skotið undan í skattaframtölum, og áður vafalaust þó aldrei slíkum sem nú á síðustu árum, sérstaklega eftir að almenni söluskatturinn var lögfestur og hann gerður að einni helztu tekjulind ríkisins. Í þessu sambandi hafa verið nefndar ýmsar tölur. Ég sá t.d. núna þá ágizkun í einu blaði hæstv. ríkisstj., að 25% af tekjum Íslendinga væri skotið undar, skatti. Ég vil ekkert um þetta fullyrða, en hitt er víst, eins og ég sagði, að hér er um gífurlega fjárhæð að ræða. Þjóðkunnur maður, sem vel er kunnugur þessum málum, lýsti ástandinu í þessum efnum ekki alls fyrir löngu í mín eyru svo, að í þessum efnum lifðum við ekki í siðuðu þjóðfélagi. Betri lýsingu held ég, að tæpast sé unnt að gefa af því hyldýpi svika og fjárglæfra, sem aðgerðarleysið og linkindin við ósómann hefur verið að skapa hægt og bítandi, en þó með vaxandi hraða og með þeim margvíslegu afleiðingum, bæði efnahagslega og siðferðislega, sem því er óhjákvæmilega samfara og augljósari hljóta að vera en svo, að hér verði upp taldar.

Við þm. Alþb. höfum um margra ára skeið hamrað á því í öllum umræðum um skattamál hér á hv. Alþingi, hver höfuðnauðsyn væri til þess að stemma stigu við skattsvikameinsemdinni. En máli okkar í þeim efnum hefur litlu verið sinnt til þessa. Þær breytingar, sem nú er lagt til að gerðar verði varðandi skattaeftirlit, kunna að vera vottur þess, að nú sé í vændum einhver breyting í þessum efnum, og ég trúi því raunar, að þeim, sem nú fara með yfirstjórn skattamálanna, sé loks að verða alvara með að reyna einhverjar úrbætur. En afstaða til till. okkar hv. 5. þm. Reykn, sker þó að mínu viti úr um það, hvort þessi mál verða tekin þeim tökum, sem til þarf, eða hvort hálfkákið eitt verður látið nægja.

Um frv. að öðru leyti mun ég ekki mikið ræða að þessu sinni, enda gerði hv. 5. þm. Reykn. hér við 1. umr. málsins glögga grein fyrir afstöðu okkar Alþb.-manna til þess og rakti þar m.a. í sundur þá höfuðblekkingu hv. stjórnarsinna, að hér sé um að ræða einhverja raunverulega skattalækkun frá því, sem verið hefur. Hann gagnrýndi þá réttilega þá breytingu, sem felst í 5. gr. frv. um fækkun skattþrepanna, sem að mínu viti er langvarhugaverðasta ákvæði þessa frv. Með því er greinilega stefnt að því að afnema í áföngum- alla stighækkun á tekjuskattinum, og yrði því marki trúlega náð í næsta áfanga, í næstu endurskoðun þessara laga, ef hæstv. núv. ríkisstj. endist líf til þess að breyta tekjuskattslögunum einu sinni enn. Yrði þá sama skattprósenta gildandi fyrir háar sem lágar tekjur, ef þær ná skattskyldu á annað borð.

Hér er vissulega um grundvallaratriði í sambandi við skattlagningu að ræða, og þarf ég ekki að orðlengja það, að við þm. Alþb. erum slíkri breytingu algerlega andvígir. Af þessari breytingu leiðir líka, eins og glögglega er sannað í nál. minni hl. fjhn., að skattabyrðin, hlutfallsleg skattabyrði miðað við skattskyldar tekjur, er stórlega þyngd á lægri skattskyldum tekjum, en því minna sem um hærri tekjur er að ræða. Og skiptir hér ekki máli í þessu sambandi, þótt óbreyttur skattstígi, eins og hv. minni hl. fjhn. leggur til, mundi lækka um ofur litla krónutölu tekjuskatt á hærri tekjum. Hlutföllunum er eftir sem áður breytt mjög í óhag hinum tekjulægri, og verður því að telja, að þessi breyting, sá nýi stigi, sem gert er ráð fyrir, sé stórum óréttlátari en sá gamli var.

Í samræmi við þessa afstöðu mun ég a.m.k. fylgja þeirri brtt., sem hv. minni hl. fjhn. flytur um það, að 5. gr. frv. falli brott og skattstiginn, eins og hann nú er ákveðinn í lögum, verði látinn haldast óbreyttur, og er þó síður en svo, að í því felist sú skoðun mín, að hann fullnægi öllu réttlæti.