04.05.1964
Neðri deild: 89. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (734)

210. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Áður en lýkur þessari 1. umr. um málið, vildi ég óska eftir upplýsingum frá hæstv. fjmrh. um eitt atriði. Ég skildi ræðu hans svo áðan, að beinu skattarnir hefðu verið alveg óhæfilegir hjá vinstri stjórninni og þar áður, — alveg óhæfilegir. Svo hefði viðreisnarstjórnin komið með sína miklu skattalækkun 1960, skattalækkun nr. 1, og nú kemur skattalækkun nr. 2. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh., ef þetta er rétt, að beinu skattarnir fyrir 1960 hafi verið svona háir, hvernig stendur á því, sem segir í síðasta hefti Hagtíðinda um beina skatta? Þar segir, að beinir skattar í marz 1959 á vísitölufjölskyldu hafi verið 9420 kr., en í marz 1964 12887 kr. eða um 37% hærri? Hvers konar skattalækkun er þetta? Eða hefur hagstofan gert einhverja vitleysu þarna? Hefur hún kannske reiknað vitlaust? 37% hærri beinir skattar í marz 1964 heldur en 1959 þrátt fyrir stóru skattalækkunina, sem gerð var 1960. Það verður að fara að endurskoða þessi Hagtíðindi, ef þau eru að segja manni eitthvað rangt, ef þau gera það. En ég gæti bezt trúað, að þau segðu alveg rétt.

Annars ætla ég ekki að telja það neitt lofsvert hjá neinni stjórn að vera að hæla sér af lækkun beinna skatta, ef það kostar það, að óbeinu skattarnir eru hækkaðir á móti margfalt. Eða hvernig var það í vetur? Voru ekki söluskattar hækkaðir um 300 millj. kr. núna í vetur? Það tekur því varla, held ég, að fara að hæla sér af skattalækkun núna eftir þá jólagjöf, sem fólkið fékk þá. Það voru skattar, sem lögðust nefnilega alveg jafnt á barnið í barnaskóla og á heildsalann. Þessir gera það ekki, þótt vondir séu.