08.05.1964
Neðri deild: 94. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1078 í B-deild Alþingistíðinda. (742)

210. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við framsöguræðu frsm. minni hl. fjhn., sem gerði töluvert að umtalsefni sínu hér viðmiðun á sköttum frá 1960 og svo nú, miðað við það frv., sem hér er flutt. Ég skal viðurkenna það, að málflutningur hans hér var með töluvert öðrum hætti en upprunalega virtist ætla að verða af hálfu stjórnarandstöðunnar í sambandi við þetta frv. En mér fannst rétt, þegar þessi viðmiðun var tekin í sambandi við skattlækkunina, að það dæmi, sem hann tók, 130 þús. kr. tekjur hjá hjónum með tvö börn, yrði fært örlítið lengra aftur í tímann, til þess að fram kæmi glöggur mismunur á þeim sköttum, sem lagðir eru á samkv. l. frá 1960, og því, sem mundi verða, ef það frv., sem hér er á dagskrá, yrði að lögum. Skattaálagning með umreikningi samkv. l. frá 1954, eins og nú yrði lagt á, yrði 9665 kr., samkv l. frá 1960 4000 kr., en samkv. frv., sem nú er á dagskrá, aðeins 1300 kr. Þetta sýnir tvímælalaust, að hér er raunverulega farið mjög mikið niður með skattbyrði gagnvart einstaklingum og fjölskyldum, og inni í þessari tölu, sem ég var með, 9665 kr., er umreikningurinn líka.

Hv. frsm. minni hl. ásamt hv. 1. þm. Norðurl. v. flytur brtt. um, að umreikningurinn verði tekinn upp nú í sambandi við þetta frv. Þá ber þess að geta, að við samningu frv. og setningu l. frá 1960 er um gífurlega skattalækkun að ræða, þegar einmitt þessi umreikningur er felldur úr l. Hins vegar var því haldið fram hér við 1. umr. þessa máls, að ef það virtust vera uppi óskir um að fá einhverja breyt, á l. til samræmis við lögin frá 1954, þá mætti að sjálfsögðu athuga, hvort ekki mætti skjóta inn í setningu, þar sem þeir, sem óskuðu eftir skattálagningu miðað við þau lög, gætu fengið það. Þessu hefur síðan ekki verið hreyft, og ég geri ekki ráð fyrir því að athuguðu máli, að neinn aðili mundi óska eftir því. En mér fannst rétt, miðað við þennan samanburð, sem hér var tekinn, að láta koma fram viðmiðun örlítið lengra aftur í tímann en til 1960. Enda þótt sú viðmiðun sé e.t.v. svo léleg, þá er hún engu að síður rétt.