08.05.1964
Neðri deild: 94. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (745)

210. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru nokkur orð í sambandi við þær aths., sem hæstv. fjmrh. gerði hér við þá brtt.; sem ég flyt við frv. Mér sýndist afstaða hæstv. ráðh. vera harla einkennileg til þessarar till. Hann hélt því fram, að einn galli till. væri sá, að með henni væri gert ráð fyrir, að taka ætti til sérstakrar athugunar framtöl samkv. ákveðnum útdrætti hjá ýmsum framteljendum og að þessi athugun ætti að leiða til þess, að ekki væri hægt að koma fram athugun á framtölum þeirra aðila, sem væru grunsamlegir af hálfu skattayfirvaldanna. Ég vil nú spyrja hæstv. ráðh.: Hvar stendur þetta í till.? Hvar stendur það í till., að skattayfirvöldin geti ekki tekið alla þá, sem eru grunsamlegir og lög standa til, að sérstök athugun verði látin fara fram á? Hver bannar það? (Fjmrh.: Vill ekki hv. þm. reyna að hafa það rétt eftir, sem ég sagði? ) Vill þá ekki hæstv. ráðh. bara endurtaka þetta, svo að ég megi fara með það á réttan hátt. Ég skildi þetta sem meiningu hans. Ég gat ekki skilið mál hæstv. ráðh. á annan hátt en þann og skrifaði það á blað hjá mér, að hann talaði um. það, að þessir ættu að ganga fyrir með athugun, og hann sagði, að grunsamlegir aðilar ættu að mæta afgangi, — ég skrifaði það líka: mæta afgangi. Ég trúi því ekki, að ég hafi skrifað þetta svona, án þess að ráðh. hafi sagt það. Ég held, að við verðum þá að fá spóluna spilaða hér, til þess að við fáum að heyra, hvað hann sagði.

Nei, það er vitanlega ekkert úr minni till., sem mælir fyrir um það, ekki neitt. Öll sú aðstaða, sem til er nú samkv. l. til að láta fara fram athugun á framtölum þeirra, sem eru grunsamlegir, er til eftir sem áður. En það einkennilega er nú þetta, að hæstv. ráðh. segir í öðru orðinu, að ákvörðun um, að það skuli tekin framtöl aðeins sem nema 5% af framtölum allra þeirra, sem eru bókhaldskyldir, þýði, að það verði ekki hægt að komast yfir allan hópinn á minna en 20 árum, og það skuli aðeins tekin 2% af íramtölum annarra aðila, það þýði, að það taki hálfa öld að komast yfir þá alla; — vegna þess að þetta er svona lítið, er ráðh. á móti þessu. Hann vildi láta þetta ganga miklu hraðar fyrir sig, sem auðvitað er ekki bannað í minni till. En hver var svo niðurstaðan einmitt af þessari röksemdafærslu? Niðurstaðan er sú, að þetta verði svo tímafrekt og það verði svo mikil vinna af þessu, að það verði að láta hina, sem eru grunsamlegir, mæta afgangi, það sé ekki hægt að sinna þeim. Nei, þegar ég ákvað að hafa einmitt þessar tölur í minni till., var beinlínis miðað við það, að það væri ekki hægt. að segja, að þessi skylda skapaði skattayfirvöldunum svo mikla vinnu, að þau gætu varla

komizt yfir meira en þetta. Auðvitað eiga þau að halda öllu því eftirliti eftir sem áður, sem þau hafa haft með höndum, en það á að leggja á þau þessa skyldu, að mjög nákvæm athugun skuli fara fram á að minnsta kosti þessum fjölda.

Og nú vildi ég spyrja hæstv. fjmrh., ef hann má mál mitt heyra, sem hann hefði nú reyndar átt að gefa sér tíma til. Ég hef það fyrir satt, að hliðstæð ákvæði þessum, sem er að finna í minni till., séu í Bandaríkjunum. Nú efast ég ekkert um það, að fjmrh. hefur kynnt sér, hvaða reglur eru í gildi þar. Nú vildi ég spyrja fjmrh. um það: Taka þeir á ári hverju hærri hundraðshluta af framtölum, sem þar berast, en þá hundraðstölu, sem hér er nefnd? Taka þeir þar hærri hundraðstölu? Ég efast ekkert um, að fjmrh. veit þetta. Nei, vitanlega er það svo, að þegar þarf að taka með útdrætti nokkur sýnishorn, til þess bæði að veita aðhald og til þess að gera mjög gaumgæfilega athugun á framtölum, er vitanlega ekki hægt að hafa úrtakið allt of mikið. Það yrði vitanlega svo mikið bákn, að skattayfirvöld landsins réðu ekki við það. En svo er, eins og hæstv. ráðh. fann auðvitað sjálfur, vitanlega ekkert í minni till., sem bannar, að meira sé tekið en þetta lágmark, ef skattayfirvöldin geta komizt yfir meira. En ég efast ekkert um, að ef það væri tekið á hverju ári sem nemur 5% af öllum framtölum þeirra, sem hafa rekstur með höndum, og þau framtöl tekin til verulega rækilegrar athugunar, mundi það veita mjög aukið aðhald í þessum efnum. En það er líka alveg augljóst af því, sem ráðh. segir, að hann vill ekki vera bundinn af þessari skyldu, hann vill ekki láta þessa athugun fara fram. Það má líka hverjum manni vera ljóst, að með þessari till. er ekki verið að binda hendur ríkisskattstjóra á nokkurn hátt. Hann getur vitanlega látið alla þá athugun fara fram, sem hann vill, á þeim, sem hann telur vera grunsamlega, hvort sem þeir koma með í þessum útdrætti eða ekki.

Þá sagði ráðh., að í þessari till. væri gengið skemmra en gengið er í l. með nákvæma athugun, á framtölum aðila, þar sem framtöl þeirra eru athuguð aftur í tímann. Þetta hygg ég, að sé ekki rétt hjá hæstv. ráðh., því að í till. er við það miðað, að til viðbótar við það framtal, sem er sérstaklega til athugunar, megi taka 5 ár þar aftur fyrir sig, en í l. er hins vegar miðað við það, að athuga megi samtals 6 ár.

Ég verð að lýsa undrun minni yfir því, að hæstv. fjmrh., sem hefur þó talað þetta mikið um skattasiðferði, sem hann óneitanlega hefur gert, skuli vera á móti því, að slík athugun sem þessi sé látin fara fram á framtölum. Ég er ósköp hræddur um, að hann eigi eftir að verða var við það, að þessar aðferðir, sem hann taldi upp, muni gefast heldur lélega til þess að gera skattaframtölin trygg. Hann taldi hér upp, að þrennt þyrfti að fylgjast að: í fyrsta lagi, að skattstigarnir væru hæfilegir. Það hefur þýtt eflaust til þessa, að þeir ættu frekar að lækka en hækka. Í öðru lagi sterkt eftirlit, segir hæstv. ráðh., en vill þó ekki vera bundinn af neinum skyldum í því, að framtölin skuli athuguð. Og svo er í þriðja lagi jafnvægi í efnahagsmálum. Allir vita nú, hvernig jafnvægið er og hvernig það hefur verið. Ég held því, að hæstv. ráðh. muni komast heldur stutt áleiðis til þess að bæta skattasiðferðið eftir þessum þremur meginleiðum sínum, ef hann ætlar að neita því að vilja láta fara fram slíka athugun sem lögð er til með till. minni.

Ef hæstv. ráðh. væri raunverulega á þeirri skoðun, að sá úrtakafjöldi, sem nefndur er í till., væri of lágur og það væri viðráðanlegt að hafa þau framtöl, sem skulu ganga undir þessa sérstöku athugun, enn þó fleiri, þá er vitanlega ósköp einfalt að hækka þessar tölur. Ég mundi verða honum sammála um að hækka þessar tölur, hafa fjölda þeirra framtala talsvert hærri, sem eiga að ganga undir þessa sérstöku athugun, ef skattayfirvöld landsins telja sér fært að vinna það verk á hverju ári. Það er því ofur auðvelt að breyta til. En ég sá nú ekki, að hæstv. ráðh. væri á þeim buxunum, heldur fremur á hinum að vilja vera með öllu óbundinn í þessum efnum, láta sem sagt skattaeftirlitið vera eins og það hefur verið. En það hefur verið þannig, að sumir af hæstv. núv. ráðh. lýsa því yfir hér á Alþingi, að þeir telji, að það megi sanna það, að a.m.k. 500–600 millj. kr. á ári af tekjum fari fram hjá skattayfirvöldum landsins. Spurningin er, hvort á að gera einhverjar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir slíkt. Og ég hygg, að það verði ekki gert á annan hátt betur en að slá því föstu með lagaákvæði, að það skuli fara fram ákveðin athugun á þeim grundvelli, sem lagt er til með minni tili., því að auk þess sem sú sérstaka athugun mundi leiða margt í ljós án efa, mundi þetta lagaákvæði einnig veita mikið aðhald.

Ég skal svo ekki karpa hér við hæstv. ráðh. frekar um þá skattalækkun, sem hann telur að sé fólgin í þessu frv. Það er alveg augljóst mál, að hann vill setja sin dæmi upp í þeim efnum á gersamlega annan hátt en við aðrir, sem hér höfum talað. Hann vill ekki taka á neinn hátt tillit til breytinga á verðgildi peninganna, og um það er auðvitað ekkert að villast, að sá, sem setur sitt dæmi upp á þann veg, fær auðvitað út nokkra skattalækkun. En svo eru hins vegar aðrir, sem ekki vilja viðurkenna það, að 100 þús. kr. tekjur nú í ár séu samsvarandi tekjur á raunverulegan hátt og 100 þús. kr. voru fyrir 8 árum. Verðgildi peninganna hefur breytzt svo mikið, að það er vitanlega ekki hægt að bera þessar tvær upphæðir saman. Það verður því að taka fullt tillit til verðgildisbreytinganna á peningunum, áður en skatturinn er reiknaður út, ef rétt útkoma á að fást. En það veit auðvitað hæstv. ráðh., að það mundi breyta öllum hans útreikningi; ef hann setti dæmið upp á þann hátt, og því fæst hann ekki til þess.