05.12.1963
Efri deild: 21. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af þeim tveim ræðum, sem hér hafa verið haldnar um málið af hv. 9. þm. Reykv. (AG) og hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ).

Ein af þeim aths., sem hv. 9. þm. Reykv. gerði við frv., var um þá viðmiðun, sem hækkunin væri miðuð við. Hann sagði, sem er að vissu leyti rétt, að undanfarin ár hefði hækkunin orðið sú sama eða svipuð og átt hefði sér stað hjá opinberum starfsmönnum. Það er rétt á þann hátt, að sú almenna launahækkun, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, hefur verið bætt opinberum starfsmönnum með líkri hækkun á sín laun. En sú allsherjarendurskoðun, sem fór fram á kjörum opinberra starfsmanna í sumar, var fyrst og fremst til þess að leiðrétta gamalt ranglæti, sem þessir starfsmenn höfðu orðið að búa við um ár og jafnvel áratugi, og var þess vegna alveg sérstæð og gat ekki verið heppileg ég vil segja alveg útilokuð til viðmiðunar á sama hátt og hún var áður. Þá var ein prósenta látin gilda fyrir alla opinbera starfsmenn. Nú hefur prósentuhækkunin til þeirra verið mjög mismunandi og þess vegna ekki hægt á sama hátt og áður að gera hana að þeirri viðmiðun fyrir tryggingabæturnar, sem hún hefur verið undanfarin ár.

Ég vil líka geta þess, þegar talað er um það, að þessi hækkun, sem frv, fer fram á, sé kannske minni en æskilegt væri, að þá má geta þess, að það hefur orðið meiri breyting á tryggingakerfinu en felst í þeirri hækkun, sem hefur orðið beinlínis á bótunum. Nefni ég þar t.d. afnám skerðingarákvæðisins, sem þýðir það, að fjöldi eldra fólks, sem áður átti ekki rétt á neinum ellilaunum eða örorkubótum, vegna þess að það hafði tekjur, hefur nú bætzt í hópinn og fær sín fullu ellilaun. Ég vil enn fremur geta þeirrar breytingar, sem orðið hefur með afnámi verðlagssvæðaskiptingarinnar, sem einnig hefur verið gerð nýlega og veldur því, að bótaþegar, sem áður voru á 2. verðlagssvæði, fá nú sömu bætur og þeir hafa fengið, sem á 1. verðlagssvæði eru, þ.e.a.s. hækkunin á 2. verðlagssvæði hefur orðið mjög veruleg umfram það, sem 1. verðlagssvæði hefur fengið: En á 2. verðlagssvæði býr nærri helmingur af öllum bótaþegum landsins, eða á 6. þús. manna af röskum 12 þús. Þessar hækkanir hafa borið í sér mikla leiðréttingu til þeirra, sem notið hafa. Og ég get líka bætt við þeirri sérstöku breytingu; sem kemur til framkvæmda 1. jan. næsta ár, að þeir, sem eru meðlimir í sérsjóðum og áður höfðu engan aðgang að hinu almenna tryggingakerfi, fá nú einnig sínar bætur. Þetta eru mjög mikil hlunnindi og mjög miklar aukningar, vil ég segja, á starfi Tryggingastofnunarinnar frá því, sem áður var, þó að það komi ekki fram sérstaklega í hækkunum tryggingabótanna til hvers einstaklings. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga, þegar bótahæðin eða hækkunin er athuguð, því að vitanlega koma þessar hækkanir, sem gerðar hafa verið á þennan hátt, einnig til útgjalda hjá Tryggingastofnuninni, þ.e.a.s. hjá ríkissjóði og öðrum aðilum, sem að þessari tryggingastarfsemi standa. Og það er táknrænt, að á síðustu nokkrum árum hafa útgjöld ríkisins til þessarar starfsemi aukizt alveg gífurlega, þ.e.a.s. þau hafa meir en fimmfaldazt frá því, sem þau voru fyrir örfáum árum, og eru nú orðin eða nálgast að vera um 1/4 hluti eða 25% af öllum útgjöldum ríkisins.

Það er alveg rétt, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði hér, hv. 3. þm. Norðurl. v., að samtímis því, sem rætt er um, hversu háar bæturnar skuli vera, þá verður náttúrlega um leið að gera sér grein fyrir því, að þeim, sem gjöldin eiga af þessu að bera, sé ekki ofboðið. Ég veit, að í ýmsum sveitarfélögum eru útgjöldin til almannatrygginganna farin að liggja á með mjög auknum þunga frá því, sem áður var, og eiga sum sveitarfélög, það er mér kunnugt um, í erfiðleikum með að standa í skilum með sinn hluta af því fé, sem þarf til útgjalda trygginganna. Ég held þess vegna að það verði á fleira að líta heldur en hækkunina sjálfa, það verði einnig á það að líta, hvaða möguleikar séu fyrir hendi til greiðslu.

Hv. 9. þm. Reykv. sagðist ekki geta nefnt þá upphæð, sem hann teldi að útgjöldin til trygginganna mundu aukast, ef hans till. yrði samþykkt, en sagði um leið, að þó að þau ykjust um 100–200 millj., held ég að hann hafi sagt, mundi hann ekki telja það eftir. Ég tel það ekki heldur eftir, þó að útgjöldin ykjust urri' það, en það verður bara að vera möguleiki til þess að greiða það: Hv. 3. þm. Norðurl.-v. sagði, að aðalatriðið væri, eða a.m.k. yrði fyrst að hafa það í huga, að hagur bótaþeganna rýrnaði ekki, og ég er honum náttúrlega fullkomlega sammála um það. En hv. 9. þm. Reykv. vildi tryggja það með því að setja verðtryggingu á bæturnar, þannig að bæturnar hækkuðu af sjálfu sér jafnmikið og framfærsluvísitalan hækkaði, skildist mér, eða eitthvað þess háttar. En við þessu er það að segja, að það má hafa mismunandi hátt á þessu, það má annars vegar taka þetta með verðtryggingu og það má hins vegar taka þetta á þann hátt, eins og gert hefur verið öll undanfarin ár, með því að gera leiðréttingar, sem taka tillit til þeirrar hækkunar framfærslukostnaðar, sem orðið hefur, sem hefur verið gert á þann hátt að láta bótagreiðsluna hækka svipað eða það sama upp á síðkastið og launakjör láglaunafólks í landinu hafa hækkað.

Það kom fram hjá hv. 9. þm. Reykv., að hann teldi, að það hefði átt sér stað nokkur rýrnun, og raunar sagði hv. 3. þm. Norðurl. v. það líka, að dýrtíðin hefði étið upp bæturnar eða á sumum sviðum meira en það. Ég held, að það sé rétt í því sambandi, að ég lesi upp grg., sem samin hefur verið í félmrn. um breytingar á ellilífeyri frá því í marz 1959 og til þessa dags. Það er miðað við marz 1959, vegna þess að þá var vísitalan sett í 100, og þess vegna geta menn á augnabliki borið saman vísitöluhækkunina, sem í dag er í heild 46 stig, en er á ýmsum nauðsynjum eins og matvælum miklu hærri, 70 stig eða milli 70 og 80 stig, svo að þessar tölur verða aðgengilega sambærilegar við hækkun bótanna, ef miðað er við þennan tíma. En þessi samanburður lítur þannig út, með leyfi hæstv. forseta: í marz 1959 var ellilífeyrir einstaklings á fyrsta verðlagssvæði 829 krónur á mánuði, en hann er í dag 1519 krónur, hækkun hefur því orðið 33%, og með þeirri hækkun, sem nú er ráðgerð, hefur hækkunin orðið 110%. Miðað við hjón var ellilífeyririnn í marz 1959 1327 krónur á mánuði, er nú 2735 kr. á mánuði, þ.e.a.s., hækkunin á þessu tímabili hefur orðið 106%, og með þeirri hækkun, sem nú er fyrirhuguð; 15%, verður hækkunin 137%. Þessar tölur verða enn þá athyglisverðari, ef annað verðlagssvæði er tekið. Þar höfðu einstaklingar í marz 1950 622 kr. á mánuði, hafa nú 1319 kr., þ.e.a.s. hjá þeim hefur hækkunin orðið 144%, og með þeirri hækkun, sem nú er fyrirhuguð, verður hún 180%. Fyrir hjón var ellilífeyririnn 1959 í marzmánuði 995 kr., er í dag 2735 kr., þ.e.a.s. hækkunin hefur orðið 174%, og verður með 15% álaginu 216%, þannig að hvað sem um þetta má segja að öðru leyti, er ekki hægt að segja með réttu, að hækkunin, sem fengizt hafi, hafi étizt upp af vöruverðshækkuninni, vegna þess að bótahækkunin í allt hefur orðið svo miklu, miklu hærri en hækkun vöruverðsins, þó að mikil sé. Finnst mér, að ekki verði hjá því komizt að taka tillit til þessa, því að þetta er undirstaðan undir því, sem hér hefur verið fært fram.

Ég held, að það sé nú ekki miklu fleira, sem ég þarf að taka fram, en ég vil aðeins benda á það, að fyrir utan þessar hækkanir á greiðslunum til einstaklinga eru engu þýðingarminni þær breytingar, sem gerðar hafa verið með afnámi verðlagssvæðanna og afnámi skerðingarákvæðisins og núna með ellilaunagreiðslu almannatrygginganna til þeirra, sem eru meðlimir í sérsjóðum: Þetta eru bætur, sem hafa kostað þá, sem undir tryggingunum standa, mjög mikið fé og hefur orðið til þess, að bæði hafa nýir aðilar orðið bótanna aðnjótandi og bótagreiðslurnar hafa verið gerðar jafnar eftir landshlutum, en ekki skipzt eftir verðlagssvæðum, eins og áður var, og hefur það hækkað eða bætt hlut rúmlega helmings ellilaunaþeganna eða bótaþeganna.

Um hugleiðingar hv. 3. þm. Norðurl. v. um það, hvað gera skuli til þess að bæta enn aðstöðu þeirra tryggðu, með t.d. stofnun sérsjóða, sem sameiginlega með ellilífeyriskerfinu mynduðu heildartrygginguna fyrir þessa menn, þá vil ég aðeins segja það, eins og ég raunar sagði, þegar lögin í vor voru afgreidd hér á hv. Alþingi, að ég teldi, að sú breyting, sem nú er gerð á almannatryggingunum í þá átt að láta þær greiða bætur einnig til þeirra, sem eru meðlimir í sérsjóðum, sé spor í þá átt, sem fara beri, nefnilega þá að hafa bæði sérsjóðinn, sem sá tryggði sjálfur og atvinnurekandinn venjulega kosta, og þá verði almannatryggingarnar þar til viðbótar eða öfugt, sérsjóðirnir verði til viðbótar við almannatryggingarnar, sem mundu gera tryggingakerfið miklu aðgengilegra fyrir gamla fólkið en þó nú er. En sérsjóðirnir stofnaðir á þennan hátt valda ekki ríkissjóði beinum útgjöldum, þar sem nærri helmingur kemur venjulega frá hinum tryggðu sjálfum og hinn hlutinn frá atvinnurekendum. Ég tel, að þetta sé mjög athyglisvert og sennilegast að mínu viti sé sú leið, sem farin verður til þess að auka og bæta hag þessa fólks.

Ég þakka svo hv. ræðumönnum fyrir þær undirtektir að vilja flýta málinu og vil, að það fái fljóta afgreiðslu hér í þessari hv. deild.