08.05.1964
Efri deild: 85. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

197. mál, Ljósmæðraskóli Íslands

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég óskaði eftir því í dag, að umr. yrði frestað, til þess að átta mig betur á þessum skriflegu brtt., sem fluttar voru af hv. 9. þm. Reykv. Ég ræddi við landlækni um málið, sem hafði haft með að gera undirbúning þess og aðallega í samráði við yfirlækninn á fæðingardeildinni, Pétur Jakobsson, og yfirljósmóðurina þar.

Í sjálfu sér gætu báðar þessar till. komið til álita, eins og ég reyndar vék að í minni fyrri ræðu. En þó held ég, að ég mundi leggja til, að það væri ekki verið að breyta þessu nú, svo langt sem liðið er á þing og eiginlega ekki af meiri ástæðu en hér er fyrir hendi.

2. brtt. er um, að yfirstjórn skólans heyri undir menntmrh., og það er, elns og ég sagði, í samræmi við stefnu undanfarinna ára, að skólarnir yfirleitt séu undir sama ráðuneyti. En þessi skóli er nokkuð sérstakur, hann er lítill, gert ráð fyrir að útskrifa 10 ljósmæður árlega eða eitthvað um það bil, hefur ekki neitt sérstakt skólahús, en starfar í sambandi við eða á fæðingardeildinni, eins og kunnugt er. Þess vegna má segja, að hann sé nokkuð sérstaks eðlis og eftir atvikum ekki óeðlilegt, eins og lagt er til þarna og eins og verið hefur, að hann heyri undir heilbrmrn.

Um sérstaka stjórnarnefnd er svo síðari brtt., og það getur auðvitað vel komið til álita. En í frv. er gert ráð fyrir því, að stjórnarnefnd ríkisspítalanna gegni skólanefndarstörfum fyrir skólann. Hún er að vissu leyti ekki nema að litlu leyti skólastjórn í eiginlegum skilningi. Stjórnarnefnd ríkisspítalanna sér um reikningshald og rekstrarfyrirkomulag, en það má segja, að stjórn skólans sé í öllum aðalatriðum í höndum yfirlæknisins og yfirljósmóðurinnar á fæðingardeildinni, þar sem skólinn starfar, og þess vegna sé kannske ofrausn að fara að setja sérstaka skólanefnd í þetta, eins og lagt er þarna til, og eðlilegra, að þetta haldi áfram með öðrum störfum stjórnarnefndar ríkisspítalanna. En þetta getur aldrei orðið mikið ágreiningsmál, og auðvitað má síðar, ef breyttar kringumstæður væru fyrir hendi og mönnum fyndist það henta, þá er auðvitað litið verk á síðari stigum að hnika þessu eitthvað til og breyta frv., ef það yrði að lögum, eftir nánari samráð við þá, sem þetta mál mæðir mest á, sem eru forstöðumennirnir á fæðingardeildinni. Eins og komið er, mundi ég því heldur vilja leggja til, að þessar brtt. yrðu felldar, eða ef hv. flm, legði ekki svo mikið kapp á það, að hann drægi þær til baka og til einskis ágreinings þyrfti að koma á þessu stigi.