23.01.1964
Neðri deild: 43. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

110. mál, sjúkrahúsalög

Dómsmrh. (Jóhana Hafstein):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um breyt. á sjúkrahúsalögunum, var undirbúið af fyrrv. heilbrmrh., Bjarna Benediktssyni, sem, eins og fram kemur í aths. við frv., hafði á s. 1. sumri falið þeim landlækni, dr. Sigurði Sigurðssyni, Björgvin Sæmundssyni bæjarstjóra á Akranesi, Elíasi Elíassyni deildarstjóra í heilbrmrn. og Þór Vilhjálmssyni borgardómara að endurskoða sjúkrahúsalögin frá 1953. Nál. frá þessari nefnd lá fyrir í heilbrmrn., þegar ég tók við embætti heilbrmrh., en síðan hefur það af minni hálfu nokkuð verið athugað og yfirfarið, sérstaklega í samráði við landlækni, og gerðar á því nokkrar breytingar, sem þó er ekki hægt að telja að séu efnislega slíkar, að ekki standi enn það, sem segir í aths., að nm. hafi orðið sammála um frv. utan ágreinings um eitt atriði, sem ég skal síðar koma að.

Ég vil byrja með því að gera grein fyrir aðalefni þessa frv., og hygg ég, að það verði yfirlitsbezt með því að víkja að einstökum nýmælum og breytingum í frv., eftir því sem þær koma fram í gr. frv. Ég vil þó segja það strax, að aðalefnið, sem frv. snýst um, er það að koma betri skipan á í sambandi við byggingarstyrki til sjúkrahúsanna, þ.e.a.s. þann styrk, sem veittur er af hálfu ríkissjóðs til byggingar sjúkrahúsa sveitarfélaganna, og enn fremur traustara og betra skipulagi í sambandi við rekstrarstyrki eða styrki þá, sem veittir eru hverju sinni á fjárl. af hálfu ríkissjóðs til þess að mæta rekstrarhalla á sjúkrahúsum sveitarfélaganna. Ég veit, að hér er um mjög veigamikið mál að ræða, sem mikill áhugi ríkir um meðal þm., enda standa þeir margir í fyrirsvari í sínum heimabyggðum fyrir sveitarfélögin og á annan hátt hafa þeir fundið erfiðleikana, sem stafa af byggingarkostnaði og rekstrarkostnaði sjúkrahúsanna.

Í 1. gr. er það eitt nýmæli, að þegar sjúkrahús er í fleiri en einni deild, skuli sérstakur sjúkrahúslæknir eða yfirlæknir vera fyrir hverja deild. Þetta var heimilt áður, en eins og nú er komið og lögð er mikil áherzla á sérgreiningu, bæði hjá læknunum og einnig deildaskiptingu í sjúkrahúsunum, þykir rétt að gera sér grein fyrir því, að það fer ekki vel á því, að það verði með öðrum hætti en sérfræðingar standi fyrir deildunum, og er þess vegna ákveðin skylda til þess í 1. gr.

2. gr. fjallar um það, hvað ríkissjóður skuli leggja af mörkum, þegar sveitarfélögin reisa sjúkrahús, og einnig í sambandi við héraðslæknabústaði. Áður var það svo, að hér var talað um allt að vissu marki, hvort sem það voru nú 3/5, 2/3, eins og gerðist nokkuð mismunandi og ég skal víkja nokkuð að síðar, en í þessari gr. er beinlínis ákveðið, að ríkissjóður skuli greiða tiltekinn hluta stofnkostnaðar og eins og hér segir, 3/5 hluta við að reisa almenn sjúkrahús og sveitarfélögunum skuli á sama hátt greiða 2/3 hluta kostnaðar við að reisa héraðslæknabústaðina. Þetta var nokkuð af handahófi áður og með þeim hætti, sem ekki er hægt að telja að mínum dómi heilbrigðan, að minna var greitt til sjúkrahúsanna í kaupstöðunum, m.ö.o., þar sem fjölmenni er fyrir hendi, þar sem sjúkrahúsin eru stærri og þar sem meira er lagt í bæði stofnkostnað og ýmiss konar áhöld, — sem notuð eru við sjúkrahúsin. Einnig var það nokkuð mismunandi, hvað greitt skyldi til sjúkrahúsanna í sveitarfélögunum, hvort þau voru minni eða svokölluð fjórðungssjúkrahús, og stundum var farið út í enn þá meiri aðgreiningu á þessu, þá í tilteknum einstökum tilfellum. Það er bersýnilegt, að löggjafinn hefur í þeim tilfellum haft í huga einstök bæjarfélög. Þannig var til aðgreining á því, hvort reist var sjúkrahús í sveitarfélagi, þar sem voru fleiri en 3000 íbúar eða færri. En það er eins og verða vill, þetta er nokkuð handahófslegt og hvort íbúarnir eru 2999 eða 3000, getur tæpast skipt máli í þessu sambandi og veldur þess vegna og hefur valdið í framkvæmdinni ýmiss konar misfellum, sem ástæðulaust er að efna til með svona löggjafarákvæðum. En hér er farin sú leið, að í öllum tilfellum skuli ríkissjóður greiða 3/5, eða 60% kostnaðarins. Ég held einnig, að menn verði að gera sér grein fyrir því, að eins og nú er komið högum í okkar þjóðfélagi, eftir því sem samgöngur hafa stórum batnað, svo að undrum sætir á skömmum tíma, beri að stefna að því að koma upp fáum, en fullkomnum sjúkrahúsum í stað margra ófullkominna, og fáist slíkt þá ekki staðizt, aðgreining á því, hvort er margmenni eða fámenni. Í fámenni er kannske meiri þörf fjárhagslegrar hjálpar, en í margmenninu verða sjúkrahúsin dýrari og margbrotnari, og því virðist að öllu samanlögðu heilbrigðast að miða hér við eina tiltekna upphæð. — Það er engin breyting á hundraðshlutanum, sem gert er ráð fyrir að leggja til af hálfu ríkisins, þegar reistir eru héraðslæknabústaðir, en það er, eins og hérna segir, 2/3 eða 67% kostnaðarins. — Svo eru ákvæði í 2. gr. til þess að skýra nokkru nánar, við hvað á að miða, þegar rekstrarkostnaðurinn er fundinn, og segir um það, að þegar framlag ríkissjóðs til sjúkrahúsa er ákveðið, skal miða við eðlilegan kostnað af að reisa sjálfa bygginguna með öllu múr- og naglföstu og við lagfæringu á lóð, og síðan er nokkru nánari skilgreining gerð á því, hvað telst í þessu sambandi múr- og naglfast.

Í 3. gr. eru hins vegar ný ákvæði um það, hvernig haga skuli þessum ríkisframlögum. Og þá er fyrsta skilyrðið, að ríkisframlögin eru bundin þeim skilyrðum, að allur undirbúningur slíkrar byggingar fari fram í samráði við ráðh. þann, er með heilbrigðismál fer, svo og landlækni, og kostnaðaráætlun og fullnaðaruppdrættir af mannvirkjunum hafi hlotið samþykki þeirra og húsameistara ríkisins. Þetta er í sjálfu sér ekkert nýmæli frá því, sem áður var, aðeins kveðið nokkru sterkar að orði, en á því hafa stundum verið nokkrir misbrestir, þannig að ráðizt hefur verið í byggingu sjúkrahúsa, áður en raunverulega hefur verið fengin sú staðfesting eða samþykki hjá heilbrmrh. og landlækni, sem eldri löggjöfin gerði ráð fyrir, og þetta hefur í sumum tilfellum skapað vandræði og skapar enn í dag nokkur vandkvæði, sem við er að glíma, en ég vona, að megi vel úr rætast. En ég legg mikla áherzlu á það vegna þess, hversu þessi mál eru viðurhlutamikil, ekki aðeins hve kostnaðurinn er mikill, heldur einnig hve miklu máli skiptir gerð sjúkrahúsanna, að mjög ríkulega sé framfylgt þessu ákvæði, að ekki sé hafizt handa, fyrr en fyrir liggur samþykki heilbrmrh., sem í aðalatriðum styðst að sjálfsögðu í þessu sambandi við umsögn sérfræðings í þessum málum, sem er landlæknirinn.

Þá víkur síðari hluti gr. að enn einu vandaræðamáli, sem þm. er mjög vel kunnugt, og það er það, að á undanförnum árum hafa myndazt verulegar og háar kröfur, sem sennilega námu um 26 millj. kr. um síðustu áramót, af hálfu sveitarfélaganna á hendur ríkissjóðs vegna ákvæða um framlög ríkissjóðs til stofnkostnaðar sjúkrahúsa. Hins vegar eru þessar kröfur ekki að lögum gjaldfallnar, og segir ekkert í eldri lögum, hvenær á að greiða þær, og ekki fyrr en fé er veitt til þess á fjárl. eða fjárveiting er fyrir hendi. Nú hefur vakað fyrir í sambandi við þau ákvæði, sem koma hér fram í 2. mgr. 3. gr., að reyna að taka upp nokkuð svipað skipulag í þessu efni og nú er um byggingu skólanna, og þá verður meginreglan þessi, að Alþingi ákveður hverju sinni, til hvaða sjúkrahúsa eða læknisbústaða stofnkostnaðarframlög eru veitt, og er ekki heimilt að hefja framkvæmdir, fyrr en fyrsta fjárveiting er fyrir hendi. Hér legg ég einnig mikla áherzlu á, að menn verði að gera sér grein fyrir því, þeir sem fara með fyrirsvar sveitarfélaganna, að hefjist þeir handa um framkvæmdir við byggingu sjúkrahúsa, án þess að uppfyllt séu skilyrðin í 2. gr., sem ég vék að áðan, og fjárveiting sé fyrir hendi af hálfu löggjafarvaldsins, fjárveitingavaldsins, þá verða þeir að gera sér grein fyrir því, að þeir megi búast við því að gera þetta upp á eigin spýtur og njóta ekki þeirrar aðstoðar, sem í 1. er ákveðin. Hitt er svo tekið upp í þessa grein, sem er nýmæli, að þegar Alþ. hefur samþ. fjárveitingu, skuli það einnig ákveða um framlögin framvegis, en ríkissjóði er þá lögð sú skylda á herðar að hafa lokið greiðslu á framlögum sínum til hverrar framkvæmdar miðað við upphaflega kostnaðaráætlun Innan 5 ára, frá því að fyrsta framlag var innt af hendi, ef sjúkrahús vistar ekki yfir 20 sjúklinga, og innan 8 ára, ef sjúkrahús vistar fleiri sjúklinga. Og ríkisframlag til héraðslæknabústaða skal með sama hætti inna af hendi innan 5 ára, frá því að fyrsta framlag var greitt. Það segir um þetta, að ákvæði þau, sem hér um ræðir, taki aðeins til framkvæmda, sem ákveðnar eru, eftir að lög þessi taka gildi. Það verður svo að vera. Hins vegar verður það eitt af þýðingarmiklum viðfangsefnum að koma út úr heiminum þeim greiðslum, sem ríkissjóður á að inna af hendi til sveitarfélaganna vegna sjúkrahúsabygginga og hefur ekki gert fram að þessu, og eins og ég sagði áðan, munu þær hafa numið um 26 millj. kr. um síðustu áramót. En það kom fram hér við 3. umr. fjárl., að ríkisstj. hafði ákveðið að verja til sjúkrahúsanna 15 millj. kr. af tekjuafgangi ársins 1966, þar af 5 millj. til landsspítalans, sem er í sérstökum flokki, en 10 millj. kr. til sveitarfélaganna, til þess að grynna á þessum skuldbindingum vegna stofnkostnaðar þeirra af sjúkrahúsunum. Ég vona, að með þessum hætti komist betri skipan á þessi mál, sem verði fyrst og fremst til mikils hagræðis fyrir sveitarfélögin, en einnig fyrir ríkissjóð að því leyti, að það myndist ekki langur vanskilahali, sem að vísu má segja að sé ekkí lagalega gjaldkræfur, en er hins vegar til mikillar óþurftar og vefst fyrir mönnum, bæði þeim, sem með ríkisfjármálin fara, og ekki sízt fyrir þeim, sem eftir þessum fjárframlögum bíða langa lengi og standa í miklum fjárhagslegum erfiðleikum, þar sem sveitarfélögin eiga í hlut.

Þá vil ég koma að því atriði, sem vikið er að í 4. gr., en það eru rekstrarstyrkirnir, sem greiddir eru af ríkissjóði til sjúkrahúsanna. Og þar er beinlínis ákveðið, að úr ríkissjóði skuli greiða árlega sérstakan styrk vegna rekstrarhalla sjúkrahúsanna. Það er ekki gert ráð fyrir, að hér sé greiddur rekstrarstyrkur, ef ekki er um rekstrarhalla að ræða. Það hefur kannske aldrei verið ráð fyrir því gert, en það er beinlínis kveðið á um það með breyttu orðalagi í þessari gr., að eftirleiðis verður þetta styrkur vegna rekstrarhalla sjúkrahúsanna. Síðan er ákvæði um það í gr., hvernig þessum styrk skuli varið. Og breytingin frá eldri löggjöf er sú, að styrkurinn var ákveðinn í sjálfum l. svo og svo mikið til tiltekinna sjúkrahúsa. Þetta hefur ekki reynzt heppilegt, bæði v egna þess, að verðlag breytist mikið í landinu, og þegar þörfin er orðin fyrir að breyta styrkupphæðinni, þarf hverju sinni að breyta löggjöfinni. Þetta hefur m.a. leitt til þess, að þegar fjárlög hafa verið samin, hefur styrkupphæðin í heild kannske við samningu fjárlfrv. verið miðuð við lagaákvæði um styrkinn, sem eru orðin úrelt, og þess vegna allt of lág í fjárlagafrv., og hefur síðan þurft að vinna að því undir meðferð málsins í þingi að fá þessar upphæðir hækkaðar í samræmi við þá nauðsyn, sem fyrir hendi er. Nú er gert ráð fyrir að taka hér upp nýja reglu og það er að flokka sjúkrahúsin eins og segir í þessari 4. gr., og síðan að flokka sjúkrahúsin innan þessara tilteknu flokka, sem þar greinir, og styrkirnir verði svo mismunandi háir eftir flokkunum, og þá er ætlazt til þess, hugsunin sú, að þeir verði mismunandi háir eftir mismunandi þörf. Síðan séu styrkirnir hverju sinni ákveðnir í reglugerð, sem heilbrmrh. setur innan þess ramma, sem ákveðið er í fjárl. hverju sinni.. Þetta mundi í framkvæmdinni verða þannig, að lögð yrði fram af hálfu heilbrmrn. till. við samningu fjárl. um flokkun á sjúkrahúsunum og hvað telja beri eðlilegt, að styrkurinn í hverjum flokki sé, og heildarstyrkurinn þannig samkv. því verði að vera svo og svo hár. Allar þessar upplýsingar mundu síðan, eins og að líkum lætur, fara til fjvn., þegar hún fær fjárlagafrv. til meðferðar, og þar mundu fjvn.-menn og umboðsmenn einmitt þeirra, sem hlut eiga að máli, bæði utan Reykjavíkur og innan, geta komið að aths. sínum við þessar ráðagerðir um flokkunina og styrkupphæðina. Og það má því segja, að í raun og veru ætti að ráða málinu til lykta á þinginu við meðferð fjárl., bæði um flokkun sjúkrahúsanna og um styrkupphæðirnar í einstökum flokki. Þegar afgreiðslu fjárl. er svo lokið, mundi heilbrmrh. gefa út þessa umtöluðu reglugerð í samræmi við það, sem menn hefðu komið sér saman um undir meðferð málsins í þinginu, og yrði þá hægt að fá fram sjónarmið allra aðila, hvar sem þeir eru og hvort sem er í fámenni eða þéttbýll. Ég vona, að þessi framkvæmd og þetta fyrirkomulag muni reynast til bóta og tryggja betur, að heildarupphæðir fjárl, verði í samræmi við þarfirnar og skipting heildarupphæðarinnar einnig heilsteyptari en áður hefur verið. Svo er gert ráð fyrir því, að þessum styrk verði ekki ávisað fyrr en eftir á, þegar sjúkrahús hefur skilað tilskildum ársskýrslum um reksturinn ásamt rekstrarreikningi, sem gerður skal úr garði samkv. fyrirmælum heilbrigðisstjórnarinnar. Þetta er út af fyrir sig nýmæli, og þessu ákvæði er ætlað að stuðla að því, að hið opinbera geti betur fylgzt með rekstri og afkomu sjúkrahúsa og að meiri regla verði á skýrslugerð en verið hefur.

Í sambandi við þessi ákvæði um styrkinn og fyrirkomulag rekstrarstyrkjanna vil ég taka það fram, að einn nm., sem undirbjó þetta frv., Björgvin Sæmundsson, form. Landssambands sjúkrahúsa, hafði þá skoðun og sérálit varðandi þetta mál, að hann vildi ákveða styrkina í lögum og þá í tilteknum hundraðshluta af framlagi ríkissjóðs til landsspítalans vegna rekstrarhalla á legudag. Hinir nm. gátu ekki fallizt á að binda rekstrarstyrkina við rekstrarhalla landsspítalans, hann væri mjög í sérflokki og ætti eftir að verða í enn ríkari mæli í sérflokki vegna þeirrar miklu deildaskiptingar, sem þar er og mun fara vaxandi. Töldu þeir því eðlilegast að ákveða hverju sinni daggjöld og rekstrarstyrk, þegar að því kæmi, frá ríki með hliðsjón af meðalrekstrarkostnaði sjúkrahúsa í hverjum flokki. Ég fyrir mitt leyti féllst á þessa skoðun og finnst hím heilbrigðari og vona, að þetta mál þurfi ekki að valda ágreiningi undir meðferð málsins. Ég mun að sjálfsögðu láta nefnd þeirri, sem málið fær til meðferðar, í té sérálit Björgvins Sæmundssonar um þetta atriði til frekari glöggvunar og athugunar.

Ég hygg, að með þessu, sem ég nú hef sagt, hafi ég rakið meginefni þessa frv., þannig að það standi ljóst fyrir þm. En þegar ég nú hef gert grein fyrir þessu frv. að þessu leyti til breytinga á sjúkrahúsal., vil ég víkja nokkuð almennt að heilbrigðismálunum að því er varðar byggingu og rekstur sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana. Og ég tel nauðsynlegt að gera þetta, svo að ekki dyljist, hversu mikill vandi okkur er á höndum, og engum blandist hugur um, að gífurlegra framlaga ag fjáröflunar er þörf nú og á næstu árum til þess að mæta aðkallandi þörf í samræmt við ráðagerðir og áætlanir, sem fyrir liggja að beztu manna yfirsýn í þessum málum. Má þó enginn ætla, að ég geri minnstu tilraun til tæmandi yfirlits hins mikla vandamáls, sem við blasir. En ég vil hreyfa ýmsum helztu viðfangsefnum til íhugunar og óhjákvæmilegrar athugunar við ráðstafanir og ákvarðanir um fjárlög og fjáraflanir þess opinbera- og framkvæmdaáætlanir, sem gerðar kunna að verða.

Mig langar til þess að víkja nokkuð að afgreiðslu fjárl. nú fyrir áramótin í sambandi við heilbrigðismálin. Augljóst var, að á fjárlagafrv. skorti mjög háar upphæðir, svo að sæmilega væri séð fyrir brýnustu úrlausn mála. Stafaði þetta m.a. af því, sem ég vék að áðan, að fjárlagafrv. er samið á grundvelli ófullkominnar sjúkrahúsalöggjafar, sem nú er hins vegar lagt til. að breyta til bóta. Um þetta átti ég að sjálfsögðu viðræður við fjmrh. innan ríkisstj. og við formann fjvn., sem síðan ræddi málið innan fjvn. mjög ýtarlega, og er mér kunnugt um það. Mér er það gleðiefni sem heilbrmrh., að allar málaleitanir mættu mjög góðum skilningi, og varð því úrlausn mála á þessu stigi eða við afgreiðslu fjárl. að mínum dómi vel viðunanleg. Við afgreiðslu fjárl. fyrir áramótin og aðrar ákvarðanir í því sambandi telst mér til, að framlög til sjúkrahúsanna hafi hækkað um nálægt 40 millj. kr. Þetta felst í daggjaldahækkun, sem ráðgerð var úr 210 kr. í 300 kr., en það leiðir til um 18 millj. kr. hækkana á fjárlagaliðum varðandi framlög trygginganna. Rekstrarstyrkir til sjúkrahúsanna voru hækkaðir um 3 1/2 millj. kr., byggingarstyrkir til ríkisspítalanna um 3 millj. kr. að viðbættri einni millj. til nokkurra úrbóta við Kleppsspítalann. Þá var ákveðið, eins og ég sagði áðan, af ríkisstj, að verja 15 millj. kr. af tekjuafgangi ríkissjóðs 1963 til byggingarstyrkja og stofnkostnaðar spítalanna, er skiptist þannig, að 5 millj. kr. gengju til byggingar landsspítalans, sem nú er í smíðum og hin mesta nauðsyn að hraðað verði, og 10 millj. til að greiða sveitarfélögum upp í áfallinn byggingarkostnað þeirra við sjúkrahús. Jafnframt vil ég geta þess, að Landsbankinn samþykkti góðfúslega málaleitun mína að fresta afborgunum lána, sem hann hefur veitt til byggingar landsspítalans, um eitt ár, og er verulegt lið að því. En Landsbankinn hafði tvisvar sínnum veitt 2 millj. kr. til þess að greiða fyrir hraða byggingarframkvæmda við Landsspítalann, eða 4 millj. alls. Og nú átti á þessu ári að byrja að borga 1/4 af þessu, en afborganir koma ekki til greina samkv. þessu fyrr en þá í fyrsta lagi á næsta ári og greiðir auðvitað fyrir byggingarframkvæmdum á landsspítalanum á þessu ári. Allir hafa hér lagzt á eitt í miklum vanda, og er skylt að þakka það, og vildi ég óska þess, að samstarf ríkisstj. og þm. mætti jafnan vera sem bezt á sviði heilbrigðismálanna. Og þó að þetta sé nú svo, er sorglega margt óunnið og erfitt úrlausnar, og vildi ég þessu næst mega víkja nokkuð að því.

Vissulega hefur margt áunnizt á liðnum árum, og skal ég ekki rekja þá sögu nú. En mig langar til þess að draga upp nokkra mynd af því, sem við blasir. Ég skal reyna að fara fljótt yfir sögu og styðst í þessu efni við upplýsingar, sem ég hef fengið frá dr. Sigurði Sigurðssyni landlækni. En pegar ég hef undanfarið verið að íhuga þessi mál, get ég ekki neitað því, að mér finnst geigvænlegt, hversu mikillar fjáröflunar er þörf nú og alveg á næstu árum, og er augljóst mál, að þessum viðkvæmu og þýðingarmiklu málefnum þjóðfélagsins verður ekki á næstu árum komið í viðunandi horf, nema eitthvað annað, sem minni þýðingu hefur, verði látið víkja á meðan. Á Landsspítalalóðinni hefur nú verið gert skipulag af því, sem þar er fyrir hendi, af því, sem þar er verið að endurbyggja, og því, sem mönnum hefur dottið í hug, að þar yrði nýbyggt í framtíðinni. Um s.l. áramót var kostnaður við framkvæmdir vegna viðbótarbyggingar landsspítalans orðinn 76 millj. kr. En heildarkostnaður við að ljúka því, sem nú er í byggingu, — aðeins því, sem nú er í byggingu eða ákveðið hefur veríð að byggja, — er samkv. nýrri grg. húsameistara ríkisins lauslega áætlaður um 93.3 millj. kr., og þá er í raun og veru verið að tala um byggingarframkvæmdir, sem á að ljúka núna á næstu 2—3 árum. Til nokkurrar skilgreiningar, hvað þetta er, skal ég taka það upp. Það er tengiálma, sem liggur frá gamla spítalanum og til nýju byggingarinnar, sem er fyrir ofan spítalann og ég veit, að hv. þm. er kunnugt um. Þessari tengiálmu, sem er þegar að nokkru leyti tekin í notkun, verði lokið og jafnframt verði á þessu ári unnið að svokallaðri vesturálmu, þ.e. á hinni stóru byggingu fyrir ofan gömlu Landsspítalabygginguna. Þar eru fjórar sjúkradeildir og um 100 sjúkrarúm. Og þegar þessum áfanga, tengiálmunni og vesturálmunni, sé lokið, sé haldið áfram með austurálmuna í hinni nýju byggingu, og þar eru álíka mörg sjúkrarúm, rúmlega 100 sjúkrarúm. Til þess svo að geta tekið í notkun þessar byggingar, þarf að ljúka eldhúsi og nýjum borðsal fyrir starfsfólk, það þarf að ljúka þvottahúsi og nýrri dísilstöð. Og allt þetta er áætlað nú í dag, og þetta á að ske á næstu árum, ef fé fyrir liggur, þó að það sé ljóst, og kem ég að því síðar, að það hefur ekki enn verið séð fyrir fjáröflun í þessu skyni, — en þá á þetta að kosta 93.3 millj. kr. Og til viðbótar við það, sem nú er komið í spítalann, 76 millj., hefur með þessum hætti verið varið til landsspítalans um 170 millj, kr.

Þá eru ráðagerðir um það, sem við tekur og án tafar í framtíðinni, það er norðurálma svokölluð, beint upp af þessari nýju vestur- og austurálmu. Það er geðveikradeild, 100 sjúkrarúm á landsspítalalóðinni, og mun ég víkja að því síðar, það er stækkun fæðingardeildarinnar, og það er ný rannsóknarstofa; norðurálma 42 millj., geðveikradeildin 34 millj., fæðingardeild 11 millj., rannsóknarstofa 30 millj., viðbót við hjúkrunarskólann 17.7 millj., og þá erum við með þessu móti komin upp í kostnað, sem er samtals um 300 millj. kr.

Þegar ég nú nefni þetta, vil ég um leið minnast á borgarsjúkrahúsið í Fossvogi, því að þar er verið að vinna á sama tíma og þar standa málin þannig, að í dag er búið að verja um 73 millj. kr. til þessa annars stærsta sjúkrahúss í landinu. En til viðbótar, til þess að fullljúka því, þarf um 135 millj. kr. eða rúmar 200 millj. kr. alls í borgarsjúkrahúsið og í breytingarnar eða viðbótarbyggingarnar á landsspítalanum og fyrirhugaðar nýbyggingar, eins og ég sagði, 300 millj., eða samtals fjárfesting með áætlun dagsins í dag upp á 500 millj. kr. En af þessum 500 millj. kr. er í dag búið að verja 150 millj. kr., svo að 350 millj. kr. eigum við þarna eftir á næstu árum. Ég veít ekki, hvað þau verða mörg, en menn hafa borið í huga sér, veit ég, sem áhuga hafa fyrir þessum málum, og sérfræðingar á þessu sviði, að þetta yrði allt saman gert með sæmilegum hraða á næstu 2–3–4–5 árum, en ef það á að verða, þarf auðvitað að taka til hendinni í sambandi við fjáraflanir í miklu ríkari mælt en nú liggur fyrir, og vitaskuld er varla hægt að búast við því, að þetta verði gert með svona hraða og mun taka miklu lengri tíma. Engu að síður tel ég það eitt af viðfangsefnunum, sem nú liggja fyrir, að reyna að gera raunhæfa áætlun um langa framtíð, hvernig hægt er að ljúka þessum mikla vanda og á hve skömmum tíma.

Nú hef ég aðeins nefnt landsspítalann, þ.e.a.s. ríkisspítalana, og byggingar í sambandi við hann og borgarsjúkrahúsið í Reykjavík. Svo eru á döfinni byggingar stórra sjúkrahúsa annars staðar í kaupstöðum landsins, Siglufirði, Vestmanneyjum, Akranesi og Húsavík. Annaðhvort er verið að byrja á þessu eða svo og svo langt komið, og áætlaður kostnaður lauslega við þetta er einar 70–80 millj. kr., bara á þessum stöðum, og ýmislegt fleira kemur til.

Ég minntist á byggingu sérstakrar geðsjúkdómadeildar á landsspítalalóðinni og gerði það af sérstökum ásetningi, vegna þess að ég vildi vekja athygli hv. þm. á því, hversu geigvænlega horfir í þessum málum í dag. Á s.l. ári fól þáv. heilbrmrh, landlækni, yfirlæknunum á Kleppi, þeim Tómasi Helgasyni og Þórði Möller, ásamt Jóni Sigurðssyni borgarlækni að gera athugun á skorti á sjúkrarými fyrir geðveika í landinu og enn fremur till. um þær leiðir, sem helzt þættu færar til nauðsynlegustu úrbóta í þessu efni. Þessir aðilar hafa gefið út bráðabirgðaálit. Þeir gera ráð fyrir því, ef vel á að vera í landi voru, að við þurfum að hafa ekki færri en um 500 rúm handa sjúklingum með geðsjúkdóma fyrir landið í heild. Á Kleppsspítalanum er nú talið að séu rúm fyrir 240 sjúklinga. Þar eru þó oft miklu fleiri og oft upp í 270 og um þriðjungurinn af þessum sjúklingum er í sjálfum Kleppsspítalanum eða elzta hluta hans, sem byggður var úr timbri árið 1908. Samkv. áliti þessara góðu manna telja þeir ekki ofmælt, að útvega þurfi nú þegar, eins og þeir orða það, stofnun fyrir um 300 sjúklinga, til þess að draga úr neyðarástandi, sem er á þessu sviði. Þeir leggja hins vegar til, að fyrst verði hafizt handa um byggingu geðsjúkdómadeildar á landsspítalalóðinni, vegna þess að þar verði ódýrast og auðveldast að gera það sem fyrst, — geðsjúkdómadeildar, sem væri með um 100 sjúkrarúmum, — og byggja það á því, að þar séu fyrir hendi áhöld og tæki, eldhús og annað slíkt og aðstaða fyrir starfsfólk og þessa geðsjúkdómadeild mætti annaðhvort halda áfram að starfrækja við landsspítalann í framtiðinni eða taka hana til afnota fyrir annars konar sjúkdómsdeildir, þegar búið væri að byggja nýjan geðveikraspítala, ef hann væri þá nægjanlega stór. Og hugsun þeirra er sú, sem virðist í raun og veru raunhæf, að meðan á þessu standi og þetta sé það fljótvirkasta, sé fundinn staður fyrir nýjan Kleppsspítala, því að nú liggur það fyrir, að ráðgerð er höfn hérna í Reykjavík ekki langt frá, þar sem Kleppur er. Þess vegna er ekki um að ræða að stækka þann spítala, þvert á móti verður að gera ráð fyrir, að draga verði úr starfsemi hans og kannske flytja hann algerlega þaðan, sem hann er. Það er því eitt af viðfangsefnum framtíðarinnar að velja stað nýju geðsjúkdómahúsi og koma því upp, og sjá allir, að það mundi taka langan tíma, og er ég sammála nm., að eins og ástandið er nú, muni verða eðlilegust og fljótvirkust úrlausn í þessu efni að byggja þessa umræddu geðsjúkdómadeild á landsspítalalóðinni, meðan unnið er að hinu viðfangsefninu. En geðsjúkdómadeild sú var áætlað að kostaði um 34 millj. kr., og þeir segja, að hún þurfi að koma nú þegar, og hún verður ekki tekin í notkun, þó að hún væri komin, nema fyrir liggi hið nýja eldhús og matsalur og nýjar kyndingar og dísilstöðvar og annað, sem ég vék að áðan, og það er talið að kosti 30 millj. Við þurfum þá eftir þessu, ef á að framkvæma þetta, að hafa nú þegar eða í ár og næsta ár 64 millj. kr. samtals, en mér er ekki kunnugt um í dag, að sé neinn peningur fyrir hendi að svo komnu.

Ég held, að það sé óhætt að segja, að með afgreiðslu fjárl., sem ég vék að, og fjárveitingum og ákvörðunum um ráðstöfun tekjuafgangs ríkissjóðs sé vel séð fyrir því, að það sé hægt að hafa sem við köllum fullan hraða á áframhaldandi byggingu landsspítalans og áframhaldandi byggingu borgarsjúkrahússins í Fossvogi, og það ætti einnig að vera sæmilega vel séð fyrir framhaldi byggingar þeirra sjúkrahúsa, sem önnur bæjarfélög eru með. En þetta, sem ég nú er að grein, geðsjúkdómadeild og ýmislegt í samband við það, nýtt eldhús og annað slíkt, til þess að hægt sé að starfrækja hana og hinar nýju deildir á landsspítalanum, fyrir því er að mínum dómi ekki séð að svo stöddu, og verður erfitt viðfangsefni að glíma við það á næstunni.

Eins og ég sagði, ætlaði ég ekki að gefa neina tæmandi skýrslu um ástand þessara mála í dag. En ég vildi ekki láta hjá líða að draga upp heildarmynd fyrir þm. um þetta, því að undir þá verður að sækja, ekki hvað sízt um það, hvað hægt er að afla af árframlögum til þessara mála í framtíðinni, því að langmest veltur á fjárveitingavaldinu, sem er í höndum Alþingis.

Það eru auðvitað margir aðrir þættir heilbrigðismálanna, sem ég get ekki á þessu stigi og sé ekki ástæðu til þess að víkja að. Það eru önnur heilsuhæli, eins og fyrir vangefin börn, sem hafa verið mikið viðfangsefni á undanförnum árum. En Alþingi hefur nú að mínum dómi séð vel fyrir fjáröflun til þess að auka hæli fyrir hin vangefnu börn, sem verið er að auka og stækka í Kópavogi, eftir að ákveðið var að auka á árin 1962 hið svokallaða flöskugjald úr 10 aurum upp í 30 aura, og hygg ég, að með því sé nokkuð vel séð fyrir fjárhagslegri þörf þessara mála. En það er þó gert ráð fyrir, að þarna þurfi fyrir hin vangefnu börn, fyrir þessi olnbogabörn þjóðfélagsins, á næstunni að verða vistrými fyrir 150 manns til viðbótar því, sem nú er, og það kosti með núverandi verðlagi a.m.k. 40—50 millj. kr., en árlegar tekjur af hinu svokallaða flöskugjaldi eru 6 millj. kr., svo að hér tel ég, að hafi verið vel að gert, og fæ ekki séð annað í fljótu bragði en það sé hægt að halda þessum málum áfram með fullum hraða.

Eins og ljóst má vera af því, sem ég nú hef drepið á, er á þessu sviði í mörg horn að líta. Ég er hræddur um, að við gleymum þessum málum of oft í okkar endalausa karpi um efnahagsmálin, sem nú virðast ná yfir allt milli himins og jarðar í landi voru. í auðugasta landi heims glíma þeir nú við fátæktina. Á sama tíma hefur almenn og jöfn velmegun aldrei verið meiri á Íslandi.

Haft er eftir hinum unga, látna forseta Bandaríkjanna, John Kennedy, að hann hafi mælt á þá leið, að ég hygg, þegar hann tók við forsetaembætti, eða eitthvað á þá leið: „Ef við getum ekki hjálpað þeim fátæku í landi okkar, getum við ekki heldur hjálpað þeim ríku.“ Og Lyndon B. Johnson, núv. forseti Bandaríkjanna, hefur nýlega í merkri stefnumálaræðu lýst yfir því, sem hann kallar „algeru stríði á hendur fátæktinni“. Slíkt stríð við fátæktina þurfum við Íslendingar ekki að heyja í dag. En gætum við ekki með engu minni rétti sagt: Ef við getum ekki hjálpað þeim sjúku í landi okkar, getum við ekki heldur hjálpað þeim heilbrigðu?

Það er eitthvað þessu líkt, sem ég vil minna okkur alla alþm. á í dag. Það bíður samstilltra átaka okkar og sameiginlegs góðs vilja að glæða og efla heilbrigði í landinu..Ekki gerist þetta án erfiðleika, en hinu treysti ég, að hér vilji menn bera hver annars byrðar, og við skulum því ekki örvænta um árangur.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að þessu máli verði að lokinni þessari umr, vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.