06.05.1964
Efri deild: 83. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

110. mál, sjúkrahúsalög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég held nú, að það sé í raun og veru ekkert sjúkrahús, sem þetta skipti neinu máli, sem umtalsvert sé, nema þá Húsavík, því að önnur sjúkrahús, sem hafa ekki enn lokið fullkomlega byggingum sínum, eru það langt komin, að þetta skiptir sáralitlu máli. Það eru þá Sauðárkrókur og Siglufjörður, en hins vegar eru á Húsavík nýlega byrjaðar framkvæmdir og það skipta þá óneitanlega þessi 7%. En ég held því alveg hiklaust fram, að önnur aðstaða til bóta, sem sjúkrahúsið fær, vegi miklu meira en upp á móti þessu, og það vil ég segja, að sök sér hefði mér nú fundizt að samþykkja till. ekki með þessum fyrirvara, að þau hús, sem eru í smíðum, njóti þess sama, því að hvaða réttlæti væri í því, ef eitthvert annað sveitarfélag á borð við Húsavík byrjaði á sjúkrahúsi núna í júnímánuði, ef þetta frv. yrði að 1., og þá ætti það að fá 60%, sem væri að öðru leyti alveg sambærilegt, en Húsavík, af því að þar eru teknar skóflustungur fyrir nokkrum vikum, 67%? Mér finnst þess vegna alls ekki till. fela í sér réttlæti að þessu leyti, heldur þvert á móti, að hún geti skapað einmitt mismun, ranglæti á milli alveg hliðstæðra byggðarlaga.

En hinu get ég ekki mótmælt, eins og liggur í hlutarins eðli, að fyrir Húsavík muni þetta 7% af dýru sjúkrahúsi, sem er verið að byggja. En það hygg ég að muni vegast upp fyrir Húsavík í ýmsum öðrum ábata, sem þeir fá í sambandi við þetta frv., ef að lögum yrði, og líka með hliðsjón af því, að varið hefur verið miklu fé á s.l. ári til þess að greiða upp skuldir sjúkrahúsa, og það hefur komið Húsavík að góðu, þó að það bæjarfélag hafi ekki þá haft neinar skuldir vegna byggingar sjúkrahúss. En eins og ég sagði, hef ég tekið tillit til þess, þegar úthlutað var byggingarstyrknum, samanlagt 10 millj. rekstrarafganginum og 7 millj. kr. styrknum á fjárl., og ég hef gert till. um það við Húsavík, að þeir fengju nú þegar 1/2 millj. kr., sem ég hika ekki við að fullyrða, að hefði aldrei komið til greina, ef þessar ráðagerðir hefðu ekki verið uppi, og þeir hefðu lengi þurft að bíða eftir þessum fjármunum, og það munar bæjarfélögin fljótt, bæði í auknum kostnaði, sem leiðir af, að framkvæmdirnar dragast lengur, og vaxtakostnaði, þegar þau þurfa að fá sér bráðabirgðalán. Ég held einnig, að mönnum sé það nokkuð ljóst, að það er langt í frá, að ég hafi nokkurn vilja til þess að mismuna þessu bæjarfélagi og hef frekar, bæði hér á þingi og annars staðar, reynt að hlynna að því, en þetta finnst mér að verði yfir það að ganga eins og önnur. En öðrum sveitarfélögum kemur þetta náttúrlega mikið til góða, sem eru nýbyrjuð á byggingum, eins og Akranesi og Vestmannaeyjum, sem, eins og ég gat um, samkv. gildandi lögum ættu að fá 40%, en eftir gildistöku þessa frv., ef að lögum yrði, 60%. Það er ekki hægt að neita því, að það er þarna mismunur, sem aðallega snertir Húsavík, sem er alveg að byrja. En ég held, að aðrar ráðstafanir muni vega það upp, og fyrir mitt leyti hef mikinn áhuga á því, að þeir þurfi ekki að gjalda neitt afhroð vegna þessa litla mismunar, en það skapist heildarsamræmi í 1., sem ég tel mikils virði.