06.12.1963
Efri deild: 22. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Frsm. meiri hl. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. þessarar hv. þd. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þess frv., sem hér er til umr. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 115, leggur meiri hl. n., við 3 þm., sem að því nál. stöndum, til, að frv. verði samþykkt óbreytt, en minni hl., hv. 1. þm. Norðurl. e. og hv. 1. þm. Vesturl., skilar sérstöku nál.

Það orkar ekki tvímælis, að þegar lögin um almannatryggingar voru sett árið 1946, var af hálfu löggjafans stigið eitthvert hið merkasta spor á sviði félagsmála, sem stigið hefur verið hér á landi. Lögin höfðu slík nýmæli að geyma, að þegar frá upphafi mátti gera ráð fyrir, að þau þyrftu í ýmsum atriðum síðar meir leiðréttinga og endurbóta við, eftir því sem reynslan af framkvæmd þeirra leiddi í ljós að nauðsynlegt væri, og var reyndar þegar í upphafi gert ráð fyrir, að endurskoðun á tilteknum atriðum þeirra ætti sér stað eigi síðar en fyrir árslok 1950. Reynslan hefur líka orðið sú, að tíðar breytingar hafa verið gerðar á lögunum, auk þeirra allsherjarendurskoðana, sem þau hafa hlotið, síðan þau voru sett. Þessar breytingar hafa að sjálfsögðu verið misjafnlega veigamiklar, en yfirleitt má þó segja, að þær hafi átt það sameiginlegt að miða að því að auka bæturnar, bæði á þann hátt að hækka þær að krónutölu og að rýmka svið einstakra bótategunda þannig, að fleiri yrðu þeirra aðnjótandi, og einnig hafa verið teknar inn í lögin nýjar bótategundir.

Það er óhætt að fullyrða það, að af hinum mörgu breytingum, sem gerðar hafa verið á almannatryggingalögunum, hafi hinar langveigamestu orðið í tíð núv. ríkisstj. Ég vil nefna það, að á þessum tíma, eða frá því viðreisnarstjórnin tók við völdum undir árslok 1959, hafa verið að fullu afnumin hin óvinsælu skerðingarákvæði vegna tekna elli- og örorkulífeyrisþega. Þá hefur og landið allt verið gert að einu verðlagssvæði. Og ég vil þá ekki sízt minna á það, að snemma árs 1960 beitti ríkisstj. sér fyrir stórfelldari hækkun og rýmkun á bótum almannatrygginganna en nokkur dæmi voru til áður, og voru þær hækkanir, hvað margar bótategundir snerti, langt umfram það, sem stóð í beinu sambandi við efnahagsráðstafanir ríkisstj., og bættu hag þeirra bótaþega verulega frá því, sem hann var fyrir gengislækkunina, en það var liður í efnahagsráðstöfununum. Síðan hafa bætur verið hækkaðar til samræmis við almennar launahækkanir í landinu auk sérstakrar hækkunar á elli- og örorkulífeyri á árinu 1962.

Það frv., sem hér er til umr., er í framhaldi af fyrri hækkunum, sem gerðar hafa verið til samræmis við almennar launahækkanir í landinu, og miðast við það, að bætur, aðrar en fjölskyldubætur, hækki til jafns við þær almennu launahækkanir, sem orðið hafa á þessu ári, og gildir hækkunin frá 1. júlí þ. á. Í aths. við lagafrv. er gefin skýring á því, að ekki er lagt til, að hækkunin verði látin ná til fjölskyldubóta. Ríkisstj. hefur nú til athugunar hækkun á persónufrádrætti við álagningu tekjuskatts og útsvars, og þótti því að svo stöddu eigi rétt að hækka upphæð fjölskyldubótanna og þá, eins og orðrétt segir í aths., „því síður, sem gera má ráð fyrir, að persónufrádráttur verði hækkaður allverulega.“

Um næstu áramót koma til framkvæmda ný lög um almannatryggingar, sem sett voru á síðasta þingi, en þau lög hafa að geyma ýmsar veigamiklar réttarbætur til handa bótaþegum. í 2. mgr. 1. gr. frv. er lagt til, að 15% hækkunin gildi og um bætur samkv. þeim lögum, aðrar en fjölskyldubætur.

Nú standa yfir víðtækar samningaviðræður um launakjör fjölmargra stéttarfélaga, en um árangur þeirra viðræðna ríkir enn alger óvissa. Hins vegar eru nú síðustu forvöð að ákveða hækkun á bótum almannatrygginganna, ef þær hækkanir eiga að geta komið til útborgunar fyrir jól, og því er lögð rík áherzla á, að afgreiðslu þessa frv. verði lokið í þessari hv. þd., helzt þegar í dag.

Ef bíða ætti eftir niðurstöðu af samningaviðræðum, mundi það leiða til þess, að ekki yrði unnt að borga út hækkanir á bótum fyrir jól. En ég vil vekja athygli á því, sem segir í aths. við frv., að þar er sagt, að ef um frekari launahækkanir verði að ræða, verði að sjálfsögðu að endurskoða hækkun bótanna, þegar þær launahækkanir liggja fyrir.

Að öllu þessu athuguðu leggur meiri hl. heilbr.- og félmn. til, að frv. verði samþ. óbreytt.