12.03.1964
Neðri deild: 68. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (815)

20. mál, loftferðir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. formanni og frsm. samgmn. fyrir svar hans. Það er aðeins eitt atriði, sem ég vildi taka fram í sambandi við það. Mér fannst hann stilla þessu máli fullmikið sem aðeins spurningu um samninga á milli stétta, stéttarfélaganna, við skulum segja flugfélaganna annars vegar og flugmanna hins vegar. Það er rétt, að stéttirnar og félög þeirra geta samið um vinnutíma sín á milli. En það er ekki frá því sjónarmiði, sem ég er að ræða þetta mál. Ég þykist vita, að flugmenn munu að sínu leyti og samtök þeirra reyna að knýja fram skynsamlegan vinnutíma fyrir sig og frá sínu sjónarmiði og annað slíkt. En það, sem okkur ber að ræða hér og taka tillit til, er fyrst og fremst sjálft öryggi farþeganna. Þetta er bara að einu leyti og að miklu minna leyti spurningin um samninga á milli stétta og stéttarfélaga. Þetta er fyrst og fremst öryggismál. Þegar Alþingi setur t.d. togaravökulögin, er það raunverulega fyrst og fremst mannúðarmál, heilbrigðismál og það að hjálpa sjómönnunum í baráttu þeirra. Það er raunverulega ekki það sérstaklega, sem ég býst við að sé hérna. Ég þykist vita, að samtök flugmanna eru mjög sterk og þau mundu geta knúið fram allmikil réttindi sér til handa í þessum efnum. En það, sem okkur ber að athuga hér á Alþ., er öryggi gagnvart farþegunum. Mér dettur t.d. í hug, þó að ég til allrar hamingju viti, að flugmönnunum hér á Íslandi dettur það ekki í hug, að maður heyrir stundum í útvarpinu, að það er auglýst, þegar beðið er um verkamenn, að það sé langur vinnutími, og maður kannast við það hörmulega fyrirbrigði nú, að það sé jafnvel farið fram á það af hálfu þeirra, sem vinna, að fá sem allra mesta yfirvinnu. Og við skulum bara hugsa okkur, að einhverjum flugmönnum dytti það nú í hug, að þeir þyrftu endilega að fá langan vinnutíma, þeir vildu fá mikla yfirvinnu, hvort þá hins vegar, jafnvel þótt samtök þeirra væru sammála um slíkt, að það næði nokkurri átt af hálfu Alþingis og löggjafans að leyfa slíkt. Þess vegna held ég, að við verðum þarna að taka þetta mál án tillits til samninga milli flugmanna annars vegar og flugfélaga hins vegar, út frá því, eins og við setjum þarna mjög hörð ákvæði viðvíkjandi t.d. áfengisneyzlunni, bara út frá því að tryggja öryggi farþeganna og þar með flugmannanna sjálfra. Ég held þess vegna, að það megi ekki stilla þessari spurningu upp þannig, eins og hv. form. samgmn. gerði, að flugmálaráðh. eigi bara að gera þetta í samráði við þá, flugmennina annars vegar og flugfélögin hins vegar, eins og þetta væri bara stéttarfélagasamningamál, þar sem hann ætti að vera góður sáttasemjari. Þetta mál er allt öðruvísi. Þetta mál er þannig, að hann á að geta sagt jafnt við flugfélögin og við flugmennina: Þið vinnið ekki lengur en þetta hérna, hvort sem ykkur langar til þess að fá lengri vinnu, ykkur flugmenn, eða þið hérna í flugfélögunum viljið láta vinna lengur. — Það eru því flugfarþegarnir og öryggið, sem flugmálaráðh. þarna fyrst og fremst verður að taka tillit til. En það, sem ég var einmitt hræddur um, er það, sem hv. form. og frsm. samgmn. kom inn á. Ég var einmitt hræddur um, að hann mundi fyrst og fremst íara að spyrja flugmennina og flugfélögin og mundi fara að reyna eins og að semja á milli þeirra um, hvernig þetta væri. En það er einmitt það, sem hann á ekki að gera. Það er sjálfsagt af honum að tala við þá aðila báða mjög vel og kynna sér alla málavöxtu, en endanlega hlýtur það að ráða hjá honum, hvað hann álítur rétt gagnvart öryggi farþeganna. Og þess vegna held ég nú, af því að ég er hræddur um, að hann gæti komizt í dálítið erfiða aðstöðu, einmitt af því, að hann máske tæki þetta þannig, að hann ætti að vera eins konar samningamaður þarna á milli og reyna að láta þá koma sér saman um þetta, að það væri betra, að Alþingi setti þetta sem lög, og ég vildi mjög mælast til þess, að hv. n. kynnti sér þetta undir 3. umr.