06.12.1963
Efri deild: 22. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Frsm. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Enginn ágreiningur var í hv. heilbr.- og félmn. um það, að hækka bæri bætur almannatrygginganna. En n. skilar tveimur álitum, af því að menn greindi á um það, hvað hækka skuli bæturnar mikið.

Meiri hl. n., en hann skipa stjórnarstuðningsmenn, telur hækkun þá, 15%, sem hæstv. ríkisstj. leggur til að lögleidd verði með frv., fullnægjandi eins og sakir standa. Rökstuðningur fyrir því er sá, að sú hækkun sé jafngildi þeirrar kauphækkunar, sem almennir verkamenn hafi fengið á ári því, sem nú er að líða. Við framsóknarmennirnir í n. teljum hins vegar 15% hækkun ekki nægilega og ekki heldur réttlátt að hafa kauphækkun þá, sem almennir launþegar fengu á þessu ári, sem einhliða mælikvarða, eins og aðstandendur frv. gera.

Mér skilst, að öllum komi saman um, að bótaþegar þurfi að fá bætur, sem geri lífsafkomu þeirra ekki verri en hún var, þ.e.a.s. að bæturnar þurfi að vega á móti dýrtíðaraukningunni, svo að ekki versni lífsafkoman hjá því fólki, er almannatryggingarnar styðja, t.d. afkoman hjá gamalmennum. Mér virðast stuðningsmenn frv. þessa halda því fram, að með 15% hækkuninni sé því marki náð, a. m. k, standi gamalmennin eftir þá hækkun jafnfætis hinum almenna launþega miðað við það, sem áður var. En þetta er ekki rétt. Laun hins almenna launþega eiga að miðast við það, að þau hrökkvi honum til allra lífsþarfa. Og hækkunin hjá honum var auðvitað miðuð við öll launin. Bætur gamalmennisins eru ekki miðaðar við að hrökkva til allra þarfa. Þær mæta ekki nema hluta af lífskostnaði gamalmennisins. Gamla fólkið verður með öðrum ráðum að standa straum af hinum hluta lífskostnaðarins, sem venjulega mun vera meira en helmingurinn.

Nú á gamla fólkið samkv. frv. að fá 15% hækkun á þeim hluta framfærslufjárins, sem venjulega eða hjá flestum er minni hluti, en vera í vatninu með hinn hlutann, fá þar engar bætur, þótt dýrtíðin leggist engu síður á þann hluta. Algengt er, að gamalmennin eigi einhverjar innstæður, sem þau hafa aurað saman til elliáranna. Þetta sparifé skerðir dýrtíðin. Þær krónur missa kaupmátt og ganga örar til þurrðar. Ef lífeyrisþeginn á að standa jafnt að vígi og áður, þarf að taka tillit til þess og hafa hækkunina meiri en 15% á bætur þær, sem hafa verið greiddar. Ef á að gera lífeyrisþegunum jafnt undir höfði og launþegunum með hækkunum, bæta þeim dýrtíðarvöxtinn, er ekki rökrétt, að sama prósenta gildi fyrir báða. Bótaþeginn þarf hærri hækkunarprósentu á sinn skerf frá tryggingunum til að vera jafnvel staddur og áður. Með þessu er ég ekki að segja, að hinn almenni launþegi hafi fengið fullréttan hlut sinn gagnvart dýrtíðinni með 15% hækkuninni. Mikið vantar á það, eins og kaupdeilur þær, sem nú standa yfir, eru vitni um. En ég er að færa rök fyrir því, að 15% hækkun á bótum almannatrygginganna sé enn fjær því að rétta hlut bátaþegans eins og skyldi.

Hv. frsm. meiri hl. og hæstv. félmrh. í gær nefndu báðir nokkur atriði, sem þeir töldu að væru aukinn stuðningur trygginganna við gamla fólkið. Þeir nefndu afnám skerðingarákvæða, sem gekk í gildi 1961 samkv. lagaákvæðum, sem sett voru 1955 eða 1956. Það er rétt, að afnám skerðingar bóta vegna tekna er mikil útfærsla á bótagreiðslum. Það er rangt, að þetta sé viðreisnarstjórninni að þakka, eins og skilja mátti af orðum hv. frsm. meiri hl. og orðum hæstv. félmrh. í gær, og í sambandi við það, sem við erum nú að ræða, hefur sú útfærsla ekkert gildi, því að hún nær fyrst og fremst til þeirra, sem betur mega sín. Með frv., sem hér liggur fyrir, á fyrst og fremst að taka tillit til þeirra, sem verst eru settir. Þá á að hafa til viðmiðunar, þegar uppbætur eru ákveðnar. Verði einhverjum, sem vel eru settir, gert um leið og þeim, sem verst eru settir, óþarflega vel til, þá skila þeir, sem bezt eru settir, aftur af sínum hlut í sköttum og útsvörum. Þannig háttar lögum.

Þá var bent á það, að frá 1. jan. 1964 fengju sérlífeyrissjóðamenn hlutdeild í bótum almannatrygginga. Það er auðvitað líka víkkun og viðbót á starfsemi trygginganna. En um þetta má segja það sama og afnám skerðingarákvæðisins. Það gagnar ekki fyrir þá, sem verst eru settir og við erum hér sérstaklega að ræða um.

Enn fremur gat bæði hæstv. félmrh.- og hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn. þess, að landið hefði verið gert að einu verðlagssvæði í tryggingum. Það var gert, þegar sveitarfélögin á 2. verðlagssvæði óskuðu yfirleitt eftir því, að það væri gert, og við upphaf setningar tryggingalaganna var gengið út frá því, að að því drægi. Nú mátti telja, að það væri orðið tímabært. Vitanlega var það til hins betra, en hins vegar réttlætir það ekki, að gengið sé skemmra í bótahækkun nú en þeir, sem verst eru settir, þarfnast.

Tryggingastarfsemin á Íslandi byrjaði smátt. Hún var fyrst eins og barn í reifum. Ég man þá tíð, þegar hreppsnefndir úthlutuðu nokkrum krónum til fátækustu gamalmenna fyrir jólin. Það var stundum átakanlegt, að það var þá ekki meiru að skipta: En tryggingarnar hafa vaxið upp úr reifunum, sem betur fer. Þær eru þess eðlis, að þær hljóta að vaxa eins og unglingar hljóta að vaxa, jafnvel þótt kjör séu kröpp. Segja má, að ríkisstjórnir þær, sein farið hafa með völd í landinu á undanförnum árum, og flokkar þeirra hafi verið fóstrur þessa unglings. Núv. hæstv. ríkisstj. telur sig hafa verið afbragðsfóstru trygginganna. Alþfl. telur sig raunar meira en fóstru þeirra, helzt telur hann þær eingetið hold af sínu holdi og blóð af sínu blóði. Og þegar bent er á, að líf hans sem Alþfl. sé á glötunarbarmi, segist hann fórna sér fyrir tryggingarnar. Mér virðist, að tryggingarnar hafi alls ekki vaxið í tíð núv. hæstv, ríkisstj. meir en unglingi á sambærilegu aldursskeiði hlýtur að vaxa, í hvaða fóstri sem hann er, eins og nú er háttað þjóðlífi okkar og aldaranda. Bótaskerðingin var afnumin samkv. lögum, sem sett voru alllöngu áður en þessi hæstv. stjórn kom til valda, eins og ég sagði áðan. Landið var gert að einu verðlags- og bótasvæði, þegar sveitarfélögin, sem voru á 2. bótasvæði og mest reyndi á um þetta, óskuðu þess, og út frá því hafði lengi verið gengið, að það yrði þannig gert. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur verið hvött til af stjórnarandstöðunni til að efla tryggingastarfsemina og stuðningur stjórnarandstöðunnar alltaf verið til reiðu í þeim efnum. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki strítt í ströngu í þessum efnum, nema þá við að fella umbótatill. frá stjórnarandstöðunni. Þess vegna finnst mér fara illa á því, að í sambandi við þetta frv. sé sí og æ verið af hálfu stuðningsmanna ríkisstj. að hæla henni fyrir sérstakt framtak í þessum málum.

Nú höfum við framsóknarmennirnir í heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. lagt fram brtt. á þskj. 117 um, að þessu stjórnarfrv. verði breytt þannig, að í stað 15% hækkunar á bótum almannatrygginganna komi 25% hækkun. Ég hef sýnt fram á, að ef það er meiningin með frv., að bótaþegar eigi að fá leiðréttingu á dýrtíðarskekkjunni, sem þeir hafa orðið fyrir, þá sé ekki samræmi milli þeirra og almennra launþega, nema hækkunin sé meiri en 15%. Til þess að ná því samræmingarmarki mun ekki veita af 25% hækkun. En er þetta þá hægt á þessu ári vegna ríkissjóðs, sem verður sennilega að leggja út féð? Samkvæmt fskj. frv. um útgjaldaaukann 1963 er hann áætlaður 27.8 millj. Viðbót yrði því tæpar 20 millj., ef till. okkar gengur fram. Enginn vafi er á því, að tekjuafgangur ríkissjóðs 1963 getur vel jafnað þetta, svo dropadrjúg mjólkurkýr er hin illræmda dýrtíð fyrir tekjuhlið ríkissjóðsins.

Ég hef ekki rætt um þá hlið þessara mála, að dýrtíð hefur meira aukizt en svarar til þeirra 15%, er verkamenn eru búnir að fá í hækkun kaups, og því meira en svarar til þess, að bótaþegar fái aðeins 25%. Samningar standa yfir, sem hljóta að leiða af sér meiri hækkun Ég geng að sjálfsögðu út frá því, að staðið verði við það, sem segir í aths. við frv., að þegar sú hækkun launa er í ljós komin, verði hækkun á bótagreiðslum á ný tekin til endurskoðunar. Till. okkar framsóknarmanna gengur ekki inn á þau svið. Það bíður síns tíma. Till. okkar er, eins og ég hef áður tekið fram, um leiðréttingu í samræmi við þá viðmiðun, sem frv, virðist hafa; en reiknar ekki rétt. Af því að ég þykist þess fullviss, að hér er enginn sem vill, að hlutur þeirra, sem á tryggingabótum þurfa að lifa, sé fyrir borð borinn, þá vil ég vænta þess, að brtt. okkar á þskj. 117 um 25% bótahækkun verði samþ., þegar til kastanna kemur.