09.04.1964
Neðri deild: 76. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

20. mál, loftferðir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vildi taka undir þau tilmæli, sem hér voru flutt af hv. 2. þm. Norðurl. v. (GunnG). Mér sýnist aðeins eðlilegt, að þannig sé nú haldið á afgreiðslu þessa máls, fyrst hæstv. ráðh. fellst á það, að atkvgr. fari ekki fram um málið nú, henni verði frestað, að þá verði umr. einnig frestað, til þess að flm. þeirrar till., sem hér er flutt á þskj. 313, gefist kostur á að tala hér fyrir þessari till. Við höfum fylgzt með því, að þessu máli hefur verið frestað nokkrum sinnum hér á dagskrá, m.a. til þess, að hægt væri að láta fara fram athugun á sérstökum tilmælum, sem alþm. höfðu borizt frá samtökum flugmanna út af ýmsum ákvæðum í frv. Og niðurstaðan varð síðan sú, að 4 hv. alþm., hver úr sinum stjórnmálaflokki, féllust á það að flytja hér brtt. til samræmis að verulegu leyti við óskir samtaka flugmanna. En svo hefur nú atvikazt, að flm. þessarar till. hafa ekki getað talað hér fyrir þessum till. 1. flm. er veikur nú, boðar forföll vegna veikinda og 2 aðrir flm. eru ekki staddir á landinu. Mér þykir því alveg einsætt, að það á að verða við þeim tilmælum að fresta þessari umr.

En fyrst ég er nú kominn hér í ræðustól, langar mig þó að segja hér um málið nokkur orð, án þess þó að ég telji mig vera til þess færan að ræða efnishlið málsins. Ég hef ekki kynnt mér þetta stóra og mikla lagafrv. neitt ýtarlega, en ég hef hlustað á þær mjög takmörkuðu umr., sem hér hafa farið fram, og alveg sérstaklega veitti ég nú athygli, hverju hæstv. flugmálaráðh. svaraði í sambandi við þær brtt., sem hér liggja fyrir, og það verð ég að segja eins og er, að málflutningur hans var ekki sannfærandi fyrir mig, heldur þvert á móti.

Hæstv. ráðh. sagði t.d. um aðalbrtt., sem er að finna á þskj. 413 undir tölulið 2, að hann vildi telja, að þær breytingar, sem þarna er um að ræða, ættu í rauninni ekki heima í löggjöf um þessi mál, en eðlilegra væri, að þessi ákvæði væru í kjarasamningum. En ég vil benda hæstv. ráðh. á það, að við höfum bein fordæmi hér um úr annarri löggjöf, þar sem þetta snýr alveg öfugt við það, sem hæstv. ráðh, segir. Fyrra atriðið í breytingunum undir tölulið 2 er — með leyfi hæstv. forseta — svo hljóðandi:

„Nú veikist eða slasast flugverji fjarri heimili sínu og fjarvistin er vegna starfa hans. Ber þá vinnuveitanda að greiða allan kostnað við læknishjálp, sjúkrahúsvist og flutning sjúklings til heimilis hans.“

Nákvæmlega sams konar ákvæði er í gildandi lögum um aðra farmenn, um sjómenn alla, nákvæmlega sams konar ákvæði eru þar í lögum, ekki kjarasamningum, nema þá einhver sérstök viðaukaákvæði, sem stundum eru tekin upp í kjarasamninga. Þetta er viðtekin regla, sem þykir sjálfsagt að hafa í lögum, og ég er algerlega sammála samtökum flugmanna um það. Ég sé enga ástæðu til þess að neita þeim farmönnum, sem eru flugmenn, um sams konar réttindi í lögum og aðrir farmenn hafa, eins og t.d. sjómenn. Engin frambærileg ástæða er til þess að neita slíku. Þetta er því beinlínis eðlilegt löggjafaratriði, en er ekki fyrst og fremst kjarasamningaákvæði.

Þá er hitt atriðið í till. undir tölulið 2, sem varðar hámarksvinnutímaskyldu flugmanna og lágmarkshvíldartíma þeirra. Við erum einnig með í annarri hliðstæðri löggjöf einmitt svona ákvæði. Þar er það bundið í löggjöf, hver skuli vera lágmarkshvíldartími við ýmis störf, — og hvers vegna ekki einnig að binda það í sambandi við þessi störf, þar sem það skiptir jafnmiklu máli frá öryggissjónarmiði, eins og allir hljóta að viðurkenna? Það var auðvitað alveg fráleitt hjá hæstv. ráðh. að mæla gegn þessum ákvæðum á þeim grundvelli, að með því að fara að setja þessi ákvæði í lög þyrfti að breyta l., ef menn vildu ganga lengra í því að tryggja flugmönnum hvíldartíma en tekið er fram hér undir orðalaginu um lágmarkshvíld. Það bannar vitanlega enginn að semja eða setja reglur um það, að hvíldin skuli vera meiri en lágmarkshvíld er ákveðin í lögum. Það þarf því enginn að vera á móti þessu ákvæði vegna þess, að það verði þunglamalegt og það þurfi síðan að breyta lögum, ef það eigi að tryggja mönnum meira en þarna er ákveðið. í þessari till. er skýrt talað um lágmarkshvíldartíma, hann skuli aldrei vera minni en þar greinir, alveg hliðstætt við það, sem þekkist í öðrum lögum. Mér sýnist því, að þetta ákvæði sé hreint öryggismál og eigi að líta á það þannig. Þetta er ekki eðlilegt kjarasamningamál. Auk þess vitum við; að svo ber við alltaf öðru hverju, að kjarasamningar falla úr gildi. Það getur farið svo, t.d. við okkar litlu kringumstæður hér á Íslandi, að okkar tvö aðalflugfélög, Flugfélag Íslands og Loftleiðir, kjarasamningar þeirra falli úr gildi, það verður vinnudeila á milli aðila. Slíkt er þekkt fyrirbæri, en þá eru ýmsir aðrir aðilar, sem geta flogið og hafa rétt til þess að fljúga og flytja fólk, og þá væru engin ákvæði í gildi um þetta öryggisatriði, ef kjarasamningarnir væru upphafnir vegna vinnudeilu. Nei, þetta á hreinlega að vera löggjafarákvæði, þar sem lágmarksöryggi er tryggt. Það er það eðlilega. En vitanlega kemur þetta ekki á neinn hátt í veg fyrir það, að aðilar geti samið um einhver viðbótarákvæði, eins og algengt er um svona atriði. Ég verð sem sagt að segja það, að mér fannst það, sem hæstv. ráðh. sagði um þessi atriði, sem ég tel þau mikilvægustu í þessum till., ekki vera sannfærandi, síður en svo.

Svipað er að segja í rauninni um annað atriði í þessum brtt., sem varðar sérstakan loftferðadómstól. Mér sýnist líka þessi ákvæði, sem hér er lagt til að taka upp, mjög eðlileg og alveg til samræmis við það, sem við höfum í annarri löggjöf, þar sem svipað stendur á. Við höfum slíkt alveg bundið í sambandi við sjóferðir. Þar erum við með sérstakan sjódóm, sem er fastadómstóll, sem ber að starfa í hverju einstöku tilfelli. Og eins er eðlilegt, að þetta sé í sambandi við loftferðir. Það væri fyllilega eðlilegt, og mér lízt miklu lakar á hitt ákvæðið, að ráðh. eigi, þegar honum þykir ástæða til, að skipa nefnd, eina í þetta skiptið og aðra í hitt skiptið, það sé miklu lakara frá því gengið en hafa föst ákvæði um þetta, á svipaðan hátt og nú á sér stað í sambandi við sjóferðir hjá okkur, ákvæði um fastan dómstói í þessum efnum varðandi loftferðir.

Þá vildi ég einnig segja það, að mér sýnist, þegar ég fer að hugleiða málið, að ákvæði þau, sem er að finna í 160. gr. frv. um þessa alveg sérstöku skyldu flugmanna fram yfir aðrar vinnustéttir til þess að mæta til vinnu, að það megi jafnvel setja þá í varðhald fyrir að hafa ekki mætt á réttum tíma til vinnu, — mér sýnist, að þessi ákvæði séu mjög óeðlileg og ekki í samræmi við neitt annað, sem við höfum í löggjöf okkar. Ég held því, að það væri full ástæða til þess að fella slíkt ákvæði niður; eins og samtök flugmanna hafa eindregið farið fram á. Þó að menn segi, eins og hæstv. ráðh. sagði hér, að auðvitað getur það valdið miklum óþægindum, ef flugmaður mætir ekki á tilsettum tíma til sinnar vinnu, og það geti valdið kostnaði, þá er það auðvitað alveg rétt. En drottinn minn dýri, ætli við þekkjum þetta ekki í fleiri tilfellum! Ætli það geti ekki valdið talsverðum kostnaði og óþægindum, þegar ýmsir aðrir stjórnendur farartækja í landi okkar mæta ekki á réttum tíma? Ég er nú hræddur um það, og ég er nú hræddur um, að slíkt þekkist. En þó höfum við ekki ákveðið að setja það í lög varðandi störf þeirra, að það megi sækja svo hart að þeim fyrir það, að það eigi að setja þá í varðhald fyrir. Það er auðvitað eðlilegur hlutur, að það er réttmætt að lögsækja með eðlilegum hætti flugstarfsmenn eins og aðra fyrir að brjóta gerða samninga eða reglur. En ég sé ekki ástæðu til þess að setja harðari ákvæði í þessum efnum um flugmenn en aðra starfsmenn, og mér fyndist þá ekki síður, að það mætti segja það í þessu tilfelli, að þetta gæti þá verið kjarasamningaákvæði, en að löggjafinn ætti ekki að stökkva fram fyrir í þessum efnum og binda þessa stétt eina á þennan hátt.

Ég skal svo ekki ræða um þetta frekar, því að ég hef ekki kynnt mér það nægilega vel, en ég veitti því þó athygli, að samtök flugmanna sneru sér til þm. með nokkrar aths. út af þessari lagasetningu, og ég tel eðlilegt, að hér sé gerð alveg fullnægjandi grein fyrir því í sambandi við afgreiðslu málsins, hvers vegna er ekki hægt að verða við óskum þeim, sem þeir setja fram. Og mér finnst í rauninni algert lágmark vera líka í sambandi við slíkan lagabálk sem hér er á ferðinni, að sú n., sem málið hefur til meðferðar, taki afstöðu til þýðingarmikilla till., sem liggja fyrir um málið, og þegar jafnstórir aðilar og samtök flugmanna eru í þessu tilfelli setja fram ákveðnar óskir, finnst mér ástæða til þess, að gerð sé grein fyrir því hér í umr. á viðhlítandi hátt, hvers vegna er ekki hægt að verða við því. En það er mjög óaðgengilegt fyrir einstaka þm. og þá ekki sízt þá, sem ekki hafa haft aðstöðu til þess að starfa í n., að snúast við till., ef þeim eru ekki gerð betri skil en hér hefur verið gert í þessu máli.

Ég sem sagt ítreka tilmæli mín til hæstv. forseta um, að orðið verði við því að fresta umræðunni um þetta mál, en slíta henni ekki nú að þessu sinni.