13.04.1964
Neðri deild: 77. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

20. mál, loftferðir

Einar:

Ágústsson: Herra forseti. Frv. til l. um loftferðir er allmikill bálkur og var það ekki vonum fyrr, að sett yrði ný löggjöf um það mikilsverða mál, þar sem eldri löggjöf er frá 1929 og að sjálfsögðu orðin úrelt í verulegum atriðum, því að í fyrsta lagi eru það gömul lög og í öðru lagi er það svið löggjafar, sem hún fjallar um, sérstaklega þannig vaxið, að það hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og tekur miklum breytingum. Það er því enginn vafi á því, að hið nýja frv. var mjög þarft, og ábyggilega óhætt að treysta því, að mjög margt í því frv, er til mikilla bóta frá gildandi lagaákvæðum. Þá er enn fremur þess að geta, að í meðförum samgmn, og Alþingis fram að þessu hefur frv. tekið talsverðum breytingum, og hygg ég, að þær muni allar vera til bóta.

Hér eru nokkrar brtt. þó eftir á þskj. 413, sem hv. samgmn. hefur ekki viljað taka upp á sína arma. Þær fjalla flestar um réttarbætur fyrir flugliðið og hefur í umr. um þetta mál að undanförnu verið gerð nokkuð rækileg grein fyrir þeim og þær rökstuddar, bæði í síðustu ræðu hv. 8. þm. Reykv. og svo nokkrum ræðum hér, þegar málið var síðast til meðferðar í hv. d. Skal ég ekki þreyta hv. þdm, á því að endurtaka þau rök, sem flutt hafa verið fyrir nauðsyn þessara breytinga, en ég hygg, að þær muni flestar a.m.k. vera til bóta. Sérstaklega vil ég undirstrika það, að 160. gr. frv., eins og hún nú liggur fyrir, er einsdæmi í íslenzkri löggjöf og fordæmi, sem ég tel, að ekki ætti að taka upp. Það er þakkarvert af hv. samgmn., að hún hefur nú þegar fallizt á að fella niður síðari mgr., en ástæða væri til að óska þess, að hún sæi sér fært að ganga lengra og fella alla gr. niður, því að hún er löggjöfinnt ekki til sóma.

Það er skylda okkar alþm., þegar mikilsverð frv. eru lögð fyrir til meðferðar, að reyna að gera sér grein fyrir því, hvaða afstöðu sé rétt að taka. Og það er eitt atriði í loftferðafrv. nýja, sem ekki hefur fengið áheyrn, hvorki hjá hæstv. samgmrh. né heldur hjá hv. samgmn., en það eru þau ákvæði, sem ráðgera flugdómstól. Ég hef reynt að undanförnu lítillega að gera mér grein fyrir því, hvað sé bezt í því efni, hvort ekki sé rétt að taka upp flugdómstól eða hvort það fyrirkomulag, sem ráðgert er í umræddu frv., sé nægilegt til þess, að fyllsta öryggis sé gætt. Í því sambandi hef ég reynt að lesa mér nokkuð til um það, hvernig þessum málum er hagað annars staðar og þá ekki sízt með þeim þjóðum, sem fyrirmyndin að frv. er sótt til, Norðmönnum og Dönum. Ég hef í þessu sambandi komizt yfir skýrslu frá norska samgmrn., sem prentuð er í Þrándheimi 1957. Þar er greint frá með nokkrum orðum þróun þessara mála í Noregi og aðeins komið inn á þróun hennar í öðrum löndum líka. Í þessari skýrslu segir, að upphaflega, þ.e.a.s. á byrjunarárum flugsins eða fyrir heimsstyrjöldina síðari, hafi verið samvinna milli loftferðaeftirlitsins og viðkomandi lögregluyfirvalda um rannsókn flugslysa hverju sinni. Það voru ekki fastar reglur. En eftir stríðið, þegar flugsamgöngur fóru að hafa meiri þýðingu og slysafjöldinn óx og slysin urðu meiri, eins og eðlilegt er, þegar flugið vex, hafi þessar reglur verið teknar til endurskoðunar. Og þá hafi verið farið yfir í þær reglur í alvarlegum tilfellum, sérstaklega þar sem um mannslát hafi verið að ræða eða mjög stórt efnahagstjón, að þá hafi verið settar sérstakar rannsóknarnefndir, settar af samgmrn. í hverju einstöku tilfelli, en við minni háttar slys eða óhöpp hafi flugmálastjórnin haft rannsóknina með höndum. Og í þessari skýrslu segir, að þessi tilhögun hafi gilt fram til 1948–1949, en þá hafi ríkissaksóknarinn farið fram á það, að breyting yrði á þessu, þannig að lögreglan yrði aðili að þessum rannsóknum.

Þetta fyrirkomulag er, að mér virðist, það, sem ráðgert er að taka upp hér. Það er, að flugmálastjórnin hafi með höndum rannsókn allra minni háttar slysa, en í meiri háttar tilfellum og þegar um manntjón er að ræða verði samkv. nýorðinni breytingu frá hv. samgmn: tekinn upp sá háttur, að samgmrh. hæstv. skipi sérstaka rannsóknarnefnd í því einstaka tilfelli. Þessi tilhögun, sem gilti í Noregi á því tímabili, sem é,g hef nú greint, sætti mikilli gagnrýni. T.d. var gagnrýnin ekki hvað sízt byggð á því, að rannsóknarnefndirnar eða meiri hl. þeirra væri úr hópi þjónustumanna í flugi, úr flugmálastjórninni eða starísliði hennar. Í því sambandi var á það bent, sem raunar kom hér fram áðan, að það væri alls ekki óalgengt, þegar um flugslys væri að ræða, að rannsóknin beindist að nokkru eða jafnvel öllu leyti að starfsmönnum flugmálastjórnarinnar sjálfum. Á þessum forsendum var farið fram á það, að sérstakur rannsóknaraðili yrði settur á laggirnar. Og það mun hafa verið gert 1956, og síðan mun það skipulag ríkja þarna, að það er föst nefnd, sem hefur það starf eitt að rannsaka flugslys. Hún er byggð upp af sérfræðingum í flugi og þeim málum, sem að því lúta. Það eru þrír menn í þessari nefnd, einn frá lögreglustjórninni og tveir settir af flugmálaráðh. eða samgmrh., og varamenn þeirra. Auk þess eru svo skipaðir á svipaðan hátt, eins og er hér í sjó- og verzlunardómi, sérstakir meðdómsmenn, nokkuð margír, og sá háttur hafður, að þeir eru til kallaðir tveir í senn eftir því, hvaða tegund rannsóknar það er, sem á að fara fram, þannig að tryggt er, að sérfræðileg sjónarmið eru þarna alltaf fyrir hendi.

Í öðrum löndum mun svipaður háttur víða vera á hafður. Í Belgíu er t.d. sérstakur loftferðadómstóll. Í Kanada, Hollandi, Bretlandi og Sviss eru fastar rannsóknarnefndir á svipuðum grundvelli, eins og ég hef hér áður gert grein fyrir.

Mér finnst í sambandi við afgreiðslu þessa máls hér í hv. Nd. Alþingis tæplega hafa komið fram nægilega sterk rök af hálfu samgmn. og hæstv, flugmálaráðh., sem geri það að verkum, að við eigum ekki að semja okkur að þessum siðum, heldur eigum við að hafa þá málsmeðferð á, sem aðrir nágrannar okkar og fyrirmyndir okkar að ýmsu leyti í þessum tilvikum eru fallnir frá. Enn er tími til þess að athuga þetta mál betur, og erindi mitt í ræðustólinn að þessu sinni var aðeins að vekja athygli á því, hvort ekki þætti fært að endurskoða þessar ráðagerðir um það, að ekki skuli vera loftferðadómstóll eða a.m.k. föst loftferðarannsóknarnefnd. Ég tel, að það fyrirkomulag mundi gefast okkur betur. Það eru vankantar á því skipulagi, sem hér er ráðgert. Það hefur verið bent á þá, ég skal ekki endurtaka það. Mér finnst þau rök, sem hv. frsm. og form. samgmn., hv. 2. þm. Vestf., hér áðan greindi fyrir því, að loftferðadómstóll væri ekki mögulegur hér, ekki verulega sannfærandi. Að vísu skal það viðurkennt, að hann tók ekki á þessu með neinni hörku. Hann viðurkenndi það, sem ber að meta, að þetta væri matsatriði. Ég viðurkenni það líka, að þetta er matsatriði. Ég hef reynt fyrir mitt leyti að gera mér grein fyrir því, hvað væri rétt stefna í þessu matsatriðismáli, og hún er sú, sem ég hef hér þegar gert grein fyrir, að við eigum að fara inn á þá leið að setja upp sérstakan loftferðadómstól, og ef það af einhverjum ástæðum þyki ekki tiltækilegt, þá a.m.k. skipuð föst rannsóknarnefnd í flugslysum.