13.04.1964
Neðri deild: 77. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

20. mál, loftferðir

Gunnar Guðbjartsson:

Herra forseti. Hér hefur verið rætt mikið um loftferðalög, sem eru stór lagabálkur og margt nýtt í og breytt frá því, sem áður hefur verið, og er það vissulega gott, að verið er að setja nýja löggjöf um svo þýðingarmikil mál sem loftferðirnar nú eru orðnar fyrir okkur Íslendinga. Og ég vil taka undir með þeim mönnum, sem hafa mælt það hér í dag, að þeir væru ánaegðir með þessar till. til breytinga á loftferðalögunum, sem eru í mörgum atriðum miklu ýtarlegri og fyllri en gömlu loftferðalögin voru. En hér hefur verið deilt um brtt. á þskj. 413, sem fjórir alþm, hafa flutt. Ég hef hlustað á þessar umr. og reynt að setja mig inn í málið, eftir því sem ég hef haft getu til á stuttum tíma, og ég verð að segja það, að mér sýnist, að þessar brtt. flestar stefni að því að auka öryggi í loftferðum, og get ég því tekið undir með hv. 8. þm. Reykv. um það, að ég teldi rétt, að þær yrðu samþ.

Það hefur verið nokkuð rætt sérstaklega um b-lið 1. till., þ.e.a.s. síðari málsgr. 52. gr., þá skyldu, að flugverja, sem tekið hefur verið blóð, verði gert fært að hvílast í 12 klst., áður en hann hefur starf að nýju. Mér sýnist, að þessi till. stefni mjög ákveðið að því að skapa aukið öryggi í flugi og þess vegna sé rétt að samþykkja hana af þeim ástæðum. Það er algengt, að menn, sem verða fyrir einhverjum truflunum, eins og t.d. yrði í þessu tilfelli, þegar mönnum er þvingað með valdi til blóðtöku, þeir verða í nokkru uppnámi fyrst á eftir og eru af þeim sökum ekki hæfir til að taka að sér jafnþýðingarmikið starf og flugstjórn er, og þess vegna eðlilegt að gefa þeim tækifæri til að hvílast og komast í eðlilegt ástand aftur.

En það, sem einkum hefur valdið umr. hér, er þó 2. og 5. liður þessara brtt., þ.e.a.s. annars vegar ákvæðin í þessum brtt. um hámarksflugtíma flugverja og lágmarkshvíldartíma þeirra og ákvæðin um flugdómstól, og um þau ætla ég fyrst og fremst að ræða. Mér sýnist, að till. um hámarksflugtíma og lágmarkshvíldartíma stefni mjög ákveðið að auknu öryggi í flugi og sé um leið mannréttindatill. En það, sem helzt mætti finna að þessum till., væri það, sem síðasti hv. ræðumaður vék að, að hámarksflugtími væri eftir þessum till. of langur. En hér er um það að ræða, að gerður er greinarmunur á reglubundnu flugi og því, sem kalla má óreglubundið flug. Í samningum flugmannafélaganna við flugfélögin er samið um styttri hámarksvinnutíma en hér er lagt til, en þessi ákvæði eiga þá fyrst og fremst við um þá, sem stunda óreglubundið flug, fara í einstakar flugferðir í leiguflugi ýmiss konar og eru ekki bundnir af samningum flugmanna og flugfélaga. Og mér er tjáð af mönnum, sem eru kunnugir ákvæðum í loftferðalögum annarra þjóða, eins og t.d. Breta, að þetta séu nálega sömu ákvæði og eru í brezku flugferðalögunum. En eins og kom fram hér hjá hv. 8. þm. Reykv., munum við sennilega geta leitað meiri fyrirmynda að okkar loftferðalögum meðal enskumælandi þjóða en Dana, vegna þess að þær eru komnar lengra á veg í þessu. Þær hafa stundað flugið lengur en Danir, og við höfum líka stundað flugið lengur en Danir og ættum sennilega fremur að tileinka okkur öryggisráðstafanir, sem enskumælandi þjóðir hafa tekið upp hjá sér. Og með því að það liggur upplýst fyrir, að í samningum flugmannafélaga og flugfélaganna eru þessi ákvæði þrengri, þannig að hámarkstími er mun styttri en hér er lagt til og lágmarkshvíldartími lengri, þá sýnist mér, að þetta skapi þó aukið öryggi fyrir annað flug í landinu og þess vegna sé rétt að samþykkja þetta.

En það, sem ég vildi þó sérstaklega fjalla um og drepa á hér, eru till. um loftferðadómstól.

Það hefur verið sagt hér, að það væri matsatriði, hvort hagkvæmara væri að skipa sérstaka rannsóknarnefnd, þegar flugslys verður, eða hafa starfandi loftferðadómstól. Að mínu viti er hér um tvö mjög þýðingarmikil atriði að ræða, sem menn þyrftu að gera upp við sig og greina á milli, og er þar raunverulega um grundvallaratriði að ræða í sambandi við framkvæmdavald og dómsvald. Í allri almennri löggjöf um þessi efni er reynt að aðgreina svo sem fært er framkvæmdavaldið frá dómsvaldinu. En mér sýnist, að ef sá háttur er á hafður að skipa rannsóknarnefnd, eins og lagt er til í frv. og skv. till. samgmn., sé ekki skilið þarna svo vel á milli sem þörf er á og í rannsóknarnefndina muni koma menn, sem hafi haft afskipti af framkvæmdinni og gætu e.t.v. verið að einhverju leyti sekir um vanrækslu, þannig að þeir væru ekki hlutlausir í rannsókn máls. Þess vegna tel ég miklu sterkara og betra fyrir málið, ef starfandi væri sérstakur loftferðadómstóll til þess að rannsaka flugslys og dæma um þau mál. Og meðal þess, sem mælir með því, að dómstóll sé fremur en rannsóknarnefnd, er það, að ef menn eru skipaðir til lengri tíma í dóm, mundu þeir fylgjast meir með, vera sívakandi og fylgjast meir með því, sem máli skiptir í þessu sambandi, fylgjast með nýjungum í öllu, sem þetta skiptir, og líka kynna sér það, sem skeður í öðrum löndum í sambandi við flugslys og niðurstöður af rannsóknum þeirra. Það mun vera svo, að það eru gefnar út árlega skýrslur um öll flugslys, sem verða, og þar er skýrt mjög rækilega frá orsökum þeirra og. allri rannsókn þeirra, og þeir menn, sem eru skipaðir í loftferðadómstól, mundu að sjálfsögðu kynna sér þessar skýrslur og væru þess vegna kannske betur hæfir til starfsins, rannsaka málin og dæma í þeim, heldur en menn, sem eru skipaðir fyrirvaralaust og óundirbúið til starfsins.

Það hefur komið fram hér, að það kynni kannske að vera örðugt að fá menn, sem hefðu sérþekkingu og væru jafnframt hlutlausir, í slíkan dóm sem þennan. Það má vera, að í mannfæð okkar sé ekki um mjög marga menn að ræða, sem gætu verið algerlega hlutlausir í þessu efni, en þó hæfir til starfans. En ég hygg, að þeim fjölgi mjög ört, og það er af því, að við eigum nú orðið allstóran hóp af starfandi flugmönnum, en starfsaldur þeirra er ekki ýkjalangur. Þeir verða af eðlilegum ástæðum að hætta störfum ekki mjög gamlir, og þá eru þeir samt sem áður mjög hæfir til þess að taka þátt í slíkum dómstólum sem loftferðadómstóll væri. Þeir hafa alla þekkingu til þess að fjalla um málin og reynslu, og jafnframt mundu þeir þá, eftir að hafa hætt að starfa á flugfari, geta verið hlutlausir um rannsókn máls gagnvart öðrum mönnum, sem þarna kæmu til að verða fyrir slysi eða hafa tekið þátt í umferðarstjórn. Mér sýnist, að það sé ekki ástæða til að óttast, að okkur mundi vanta menn í slíkan dóm, þótt að því ráði yrði horfið að skipa loftferðadómstól. En hitt liggur hins vegar ljóst fyrir, ef ætti að skipa rannsóknarnefnd hverju sinni, að þá gæti orðið í sumum tilfellum a.m.k. örðugt að fá hæfa menn í þetta með örstuttum fyrirvara, sem væru nægilega vel inni í málunum.

Þá er till. um að fella niður 160. gr. Mér sýnist eðlilegt og sjálfsagt að fella 160. gr. niður, vegna þess að hún gerir ráð fyrir óeðlilegum kröfum til flugverja fram yfir alla aðra menn í starfi. Hvað yrði sagt um það, ef ætti að fangelsa t.d. alþm., sem mættu ekki til atkvgr. á réttum tíma, eða aðra slíka menn, sem gegna að sjálfsögðu þýðingarmiklum störfum og bera vissulega mikla ábyrgð? Ég held, að það þættu harðir kostir, ef slíkt ætti að gilda um aðra menn. Þess vegna sé ég ekki ástæðu til þess að hafa slík ákvæði um flugverja, meðfram af því líka, að það er, eins og fram kom hjá einum hv. ræðumanni hér, ákvæði í öðrum greinum frv., sem tryggja viðurlög og öryggi flugfarþega, ef eitthvað brestur á um flugstjórn.

Mér sýnist, þegar litið er yfir rök þau, sem færð hafa verið fram með og á móti þessum till. á þskj. 413, að þau beri með sér, að till. stefni miklu frekar að því að auka öryggi í loftferðum og þess vegna beri að samþykkja þær.