20.04.1964
Efri deild: 71. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1182 í B-deild Alþingistíðinda. (841)

20. mál, loftferðir

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða neitt verulega þetta frv. að sinni. Ég hef lesið það yfir með nokkurri athygli, og einkanlega hef ég tekið eftir, að þetta. frv. er samið á býsna frumlegu máli og þar er mikið eða a.m.k. nokkuð um ýmiss konar nýyrði og að orð séu notuð í óvenjulegri merkingu. Þetta frv. er búið að fara í gegnum hv. Nd., og þar sé ég, að n. hefur rekið augun í þetta sama. Hún hefur breytt um orð, þar sem talað var um, að maður þyrfti að vera verkvís, og sett þar annað og skiljanlegra orð í staðinn. Ég skal ekki fara út í þetta atriði, a.m.k. ekki að þessu sinni, en þarna er ýmislegt, sem ég kann ekki vel við málfarslega, eins og það t.d., að ráðstöfunarréttur „rakni við“, m.ö.o. að ráðstöfunarréttur geti raknað úr roti. Fleiri einkennileg orð eru hér og jafnvel nýyrði. Ég kannast við sögnina að afmá, en ég kannast ekki við orðið „afmáning“. Hins vegar þekki ég gott og gamalt íslenzkt orð, sem heitir afmán og þýðir handaskömm eða óféti

En ég stend hér aðallega upp til þess að beina því til þeirrar hv. n., sem þetta frv. fær til meðferðar, hvort hún vildi ekki athuga 1. gr. frv, og hvort ekki færi bezt á því að sleppa þeirri gr. með ölla, eins og hún er. Í þessari upphafsgrein frv. er gerð tilraun til þess að skilgreina, hvað átt er við með loftfari. En þessi. skilgreining er afmán, ef ég svo mætti segja svo, og færi miklu betur á því að gera enga tilraun til þess að skýra hugtakið en gera það á þann hátt, sem hér er gert. Það segir í 1. gr.:

„Loftfar nefnist í lögum þessum hvert það tæki, sem lagað er til að hefja sig á loft eða haldast og hreyfast á lofti og telst af eðlisrökum loftfar.“

Mér dettur í hug í þessu sambandi: Er flugeldur, sem notaður er hér á gamlárskvöld, loftfar samkv. þessari skilgreiningu? Eða flugdreki, eins og börn leika sér með? Að vissu leyti uppfylla þau það, sem í skilgreiningunni felst. Ég hygg, að geimfar muni samkv. þessu skilyrðislaust teljast loftfar, á meðan það er á ferðinni í lofthjúpnum. Nei, það fer langtum betur á því að sleppa slíkri skilgreiningu en hafa hana, og ég vil sérstaklega beina því til hv. n. að athuga, hvort henni finnist ekki einnig fara bezt á því. Það er kannske ekki furða, þótt hún sé dálítið ófullkomin, þessi skilgreining. Eins og hún er þarna orðuð, er hún sótt í frönsk lög, sem eru orðin 40 ára gömul. Og upp úr þessum frönsku lögum er þessi vandræðaskilgreining þýdd og ég held illa þýdd. Hins vegar hafa ýmis önnur lönd, t.d. Norðurlandaþjóðirnar, alveg horfið frá allri tilraun til þess að skilgreina, hvað loftfar er, og þær sleppa því hreinlega. Sama er að segja um svissnesk lög. Þar er þessu sleppt. En Vestur-Þjóðverjar sneiða hjá þessum vanda með því að telja upp, hvað teljist loftför, þannig hafa sennilega flestar þjóðir, sem eiga tiltölulega ný lög, algerlega sleppt þessari skilgreiningu, sem í 1. gr. felst, og nú erum við að koma með ný lög um þetta efni, og færi þá ekki einnig bezt á því, að við slepptum þessu, úr því að erfitt reynist að skilgreina þetta á viðunandi hátt? Hitt finnst mér alveg fráleitt, að vera að sækja jafnvafasama skilgreiningu í 40 ára gömul frönsk lög.