06.12.1963
Efri deild: 22. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Frsm. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður, því að það er ekki meining mín eða annarra framsóknarmanna að tefja afgreiðslu þessa máls, sem telja má nauðsynlegt að fái fullnaðarafgreiðslu í dag. Svo vel vill nú líka til, að ég get staðið við að vera fáorður, því að þær aths., sem hv. frsm. meiri hl, gerði við það, sem ég sagði, eru svo fáar og svo veigalitlar röksemdir, að ég sé ekki ástæðu til þess að glíma neitt við þær flestar.

Eitt var það, sem hv. þm, sagði, sem ég vil þó leiðrétta. Hann sagði, að ég hefði látið orð að því liggja, að skerðingarákvæðin, sem voru afnumin, hefðu litla þýðingu, — skerðingarafnámið hefði litla þýðingu. Það sagði ég aldrei. Hitt sagði ég, að það snerti þá aðilana, þá bótaþegana, sem betur mættu sín, og því vildi hv. þm. mótmæla. Ég skil ekki, hvers vegna hann gerir það, vegna þess að skerðingin var miðuð við það, að hún bitnaði eingöngu á þeim, sem hefðu allmiklar tekjur. Ég hélt því fram í ræðu minni áðan og vil undirstrika það nú af þessu gefna tilefni, að þetta frv. á að miðast við þá, sem minna mega sín, sem verst eru settir af þeim, sem eru bótaþegar, og þó að einhverjir aðrir, sem njóta nú afnáms skerðingarinnar, njóti þess, að bætur verði hækkaðar, þá skila þeir aftur af því í skatta og útsvör.

Þá sagði hv. þm., að það hefði verið nokkurt afrek að afnema skerðinguna, þ.e.a.s. að framkvæma lögin, sem búið var að setja, því að þetta hefði ekki verið fyrr gert og hefði þó áður verið talað um afnám skerðingarinnar. Mér er ekki ljóst, að það hafi áður nokkurn tíma verið lögbundið, hvenær ákvæðin skyldu verða afnumin, og þess vegna hygg ég, að engir, sem í stjórn hafa verið að undanförnu, hafi staðið í þeim sporum, sem viðreisnarstjórnin stóð nú, að hafa bein lagafyrirmæli um að framkvæma þetta, enda er eðli málsins þannig, að eftir því sem lengur var búið að borga til trygginganna, gerðist eðlilegra og sjálfsagðara að afnema skerðinguna. Menn höfðu þá unnið sér réttinn með bótagreiðslum um langan tíma, og það var hægt að fella niður það sjónarmið, sem ríkti við setningu tryggingalaganna, sem sé það, að tryggingarnar bættu fyrst og fremst þeim einum, sem stæðu svo höllum fæti fjárhagslega, að þeir þyrftu nauðsynlega á bótunum að halda, en hinir, sem betur mega sín, greiddu fyrst um sinn án þess að njóta sömu réttinda.

Mér skilst og hefur skilizt á málflutningi þeirra, sem með 15% hækkuninni mæla, að þeir ætluðust til þess, að hún hafi þau áhrif, að sá, sem bótanna nýtur, standi svipað að vígi og hann áður stóð vegna þessara uppbóta, og ef það er svo, að ætlunin er, að hann eigi að standa jafnfætis t.d. launamanninum, sem fær hækkun á launum sínum öllum, þá er ekki rökrétt að taka ekki til greina þá rýrnun möguleika, sem dýrtíðin hefur leitt yfir bótaþegann, að standa straum af sínum þörfum að því leyti, sem hann hefur átt að gera það af sjálfsdáðum. Mér finnst mótsögn í því hjá hv. síðasta ræðumanni að halda því fram, að það eigi að stefna að því, að bætur verði fullar, en vera þó á móti því, að viðnám sé veitt nú, að bæturnar séu ekki minni fyrir lífskostnað bótaþegans en þær hafa að undanförnu verið. En þær vega minna í lífskostnaði hans, ef þær eru ekki nema miðaðar við þær bætur, sem launamaðurinn hefur fengið.

Hv. frsm. meiri hl. sagði réttilega, að frá upphafi vega hefði það verið svo, að bæturnar hefðu ekki hrokkið fyrir öllum lífskostnaði og dýrtíðaraukning hefði því orðið bótaþeganum jafnan til kjaraskerðingar. Þetta er alveg rétt. En sú dýrtíð, sem nú geisar og hefur risið, er stórfelldari fyrir margháttaðar aðgerðir, sem gerðar hafa verið, heldur en áður hefur verið á tímabili bótanna. Og þess vegna er meiri ástæða til þess nú að taka þetta tillit alveg sérstaklega. sem við viljum láta taka, með því að greiða ekki 15% ofan á bæturnar, heldur 25%, svo að maðurinn standi jafnréttur og hann stóð. Það er ekki um annað að ræða.

Ég hafði tekið sem dæmi gamlan mann, sem á innstæðu. Og innstæðan rýrnar við dýrtíðina. Ég tók þetta sem dæmi, veit vel, að meira að segja eru margir gamlir menn svo illa stæðir, að þeir eiga engar innstæður. Þetta sagði hv. frsm. meiri hl., að væri frekar mál um nauðsyn á tryggingu sparifjár og afstaða okkar framsóknarmanna til vaxtahækkunar væri reyndar í mótsögn í þessu efni, því að hækkaðir vextir léttu þó hlut innstæðueigandans. Ég verð nú að segja það, að þó að þetta sé rétt, að hærri vextir séu til bóta fyrir innstæðueigandann, eru þeir hreinustu smámunir, þegar þeir eru bornir saman við þá verðrýrnun, sem hann verður fyrir á innstæðu sinni. Þeir eru, þegar á þetta er litið, hreinustu smámunir og skipta því ákaflega litlu máli sem atriði í þessu efni. En í þessu sambandi vil ég upplýsa það, að ég hef tekið þátt í því að flytja till um verðtryggingu sparifjár, og máske vill hv. þm. taka þátt í að hefja baráttu fyrir því, að tryggðar verði innstæður.

Hv. þm. virtist sérstaklega móðgaður af því, að ég hafi ekki viljað gera mikið úr því, að viðreisnarstjórnin hefði eflt tryggingarnar í því sambandi get ég endurtekið það, að ég tel, að þessi hæstv. ríkisstj. hafi ekki gert meira en það, sem hver önnur ríkisstj. hefði hlotið að gera á þessu aldursskeiði trygginganna, sem eru að þróast og eiga að halda áfram að þróast alla tíð á þá leið að verða fullkomnari og fullkomnari. Ég hygg, að ef það kæmi yrði gert fullkomlega upp, muni flest það, sem vitnað er í til eflingar tryggingunum, étist upp hinum megin frá vegna þeirrar dýrtíðar, sem skapazt hefur í landinu, einmitt í tíð þessarar hæstv. stjórnar, og hún hefur vitanlega vegna sinna aðgerða, sem aukið hafa dýrtíð og lífskostnaðar fólks, neyðzt til þess að stíga ýmis spor til þess að efla tryggingarnar, en þau spor hafa yfirleitt verið of stutt til þess, að það eigi við að taka undir lofsöng um það, hvað hún hafi verið tryggingunum mikill aflgjafi.