27.02.1964
Neðri deild: 62. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (863)

150. mál, eftirlit með opinberum sjóðum

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Á árinu 1935 voru sett lög um eftirlit með sjóðum, sem fengið höfðu konungsstaðfestingu á skipulagsskrá. Með þeim lögum var ákveðið, að sameinað þing skyldi kjósa 3 menn til þess að hafa eftirlit. með og skrá yfir sjóði í landinu. Þessum lögum var nokkuð breytt árin 1941 og 1953. Við athugun á þessum málum hefur sú niðurstaða orðið, að óþarfi væri að halda þessari nefndarskipan og eðlilegra og kostnaðarminna að fela ríkisendurskoðuninni þetta eftirlit, sem lögin fjalla um, án endurgjalds. Það er meginefni þessa frv. að afnema lögin um eftirlit með opinberum sjóðum, en fela framvegis ríkisendurskoðuninni það eftirlit. Þetta frv. hefur legið fyrir hv. Ed. og verið samþykkt þar ágreiningslaust.

Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.