06.05.1964
Neðri deild: 92. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

150. mál, eftirlit með opinberum sjóðum

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Frv. til l. um afnám l. nr. 111 1941, um eftirlit með opinberum sjóðum, hefur veríð hér til meðferðar hjá fjhn.

Upphaflega var gert ráð fyrir því, að hægt væri að fella þessi lög algerlega niður. En við nánari athugun hefur komið í ljós, að réttara muni að fella þau ekki niður, heldur breyta þeim þannig, að eftirlit þetta sé falið ríkisendurskoðuninni. Þess vegna hefur fjhn. orðið sammála um að flytja þær brtt., sem lagðar hafa verið fram á þskj. 594 og eru þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„1. gr. frv. orðist svo: Ríkisendurskoðunin skal annast eftirlit með sjóðum þeim í landinu, sem hlotið hafa staðfestingu forseta á skipulagsskrá, svo og öðrum hliðstæðum sjóðum, sem stofnaðir hafa verið með framlögum einstaklinga, félaga eða stofnana. Rísi ágreiningur um það, hvort sjóður skuli háður eftirliti skv. lögum þessum, sker Fjmrh. úr. Fjmrh. setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd eftirlitsins.“

Önnur brtt., að 2. gr. frv. orðist svo: „Lög þessi taka gildi 1. janúar 1965. Þá falla jafnframt úr gildi 1. nr. 111 9. okt. 1941, um eftirlit með opinberum sjóðum; svo og l. nr. 20 11. febr. 1953, um viðauka við þau lög.“

Fyrirsögnin verði: „Frv. til l. um eftirlit með opinberum sjóðum.“

Hér er sem sagt ekki um neina breytingu aðra en þá að ræða frá því ástandi, sem nú gildir, að eftirlitið er flutt frá þeim kjörnu eftirlitsmönnum, sem hingað til hefur tíðkazt að kjósa, og til ríkisendurskoðunarinnar, og fjhn. er sammála um að mæla með þeirri breyt. og telur hana eðlilega.