24.04.1964
Efri deild: 73. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (880)

209. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. er því miður enn þá forfallaður sökum veikinda frá að mæta hér í d. Hann hefur hins vegar beðið mig að fara þess á leit við hv. dm., að þeir féllust á það, að þetta frv. yrði engu að síður tekið til 1. umr. og vísað til n. Það er orðið það áliðið þings, að það er ekki auðið annað en þoka málinu áfram, og nauðsynlegt, að það sé hægt að hefja á því nefndarathugun. Hann er hins vegar að sjálfsögðu reiðubúinn til að gefa þeirri hv. n., sem fær frv. til meðferðar, allar nauðsynlegar upplýsingar í sambandi við málið og sömuleiðis við 2. umr. þess hér í hv. d. að gera grein fyrir þeim atriðum, sem hv. þdm. þætti nauðsynlegt að fá frekari skýringar á.

Eins og hv. þdm. hafa án efa kynnt sér, er allýtarleg grg, með þessu frv., þar sem gerð er nákvæmlega grein fyrir þeim breyt., sem frv. felur í sér frá gildandi l. um tekjustofna sveitarfélaga, þannig að í meginatriðum liggja fyrir í grg. upplýsingar um allt það, sem höfuðmáli skiptir til þess að gera sér grein fyrir afstöðu manna til málsins. Ég vildi því leyfa mér, herra forseti, að bera fram þessa ósk hæstv. ráðh. og vonast til þess, að eftir atvikum geti hv. þdm, fallizt á þessa meðferð málsins.