04.05.1964
Neðri deild: 89. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

209. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að fara að þreyta hér neitt málþóf. Hins vegar er ekki óeðlilegt, þó að sagt sé álit sitt á þessu frv. við 1. umr. þess, ekki sízt þegar það hefur komið fram í túlkun stjórnarblaðanna, að hér væri boðuð stórfelld lækkun á útsvörum. Hins vegar kom það ekki fram í ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan. Á árinu 1963 höfðu sveitarfélögin í tekjur 780 millj. kr. Þessara tekna var í stórum dráttum aflað á þann hátt sem hér segir, að fasteignaskattur var 34 millj., aðstöðugjald 131 millj., eignarútsvör 18 millj. og tekjuútsvör 596 millj. kr., eða þessar tekjur álagðar í heild 615 millj. kr. Það gefur því auga leið, að útsvörin eru megintekjustofn sveitarfélaganna. Þess vegna eru áfram sem hingað til útsvörin sá tekjustofninn, sem sveitarfélögin verða að byggja tekjumöguleika sína á að verulegu leyti.

Ekki virðast líkur fyrir því, að útsvör verði raunverulega lækkuð á yfirstandandi ári. Eins og kunnugt er, gekk hækkunarbylgja eða dýrtíð yfir landið á s.l. ári, og kom hún við sveitarfélögin svo sem aðra. Til dæmis að nefna mun framlag sveitarfélaganna til Tryggingastofnunar ríkisins hækka um 50–60% á árinu 1964 frá því, sem var 1963. Sömu sögu er að segja um menntamál, veruleg hækkun verður á framlagi til þeirra. Og ef sveitarfélögin ætla að halda uppi svipuðum verklegum framkvæmdum á yfirstandandi ári og gert var á s.l. ári, þarf stórkostlega hærri fjárveitingu til þeirra. Það er því ljóst, þegar þetta mál er athugað, að hækkun á tekjum sveitarfélaganna þarf að vera 25—40% að meðaltali a.m.k., til þess að hægt verði að halda uppi svipaðri þjónustu og verið hefur, enda mun það svo, að hjá þeim sveitarfélögum, sem gengið hafa frá fjárhagsáætlunum sínum, sem eru öll bæjarfélög og kauptún og stærri sveitarfélög, er gert ráð fyrir því, að tekjur af útsvörum muni hækka um 24–40% á þessu ári. Þess vegna er það blekking og fráleitt að láta sér detta það í hug, að útsvör raunverulega lækki, þó að breyting verði á við álagninguna. Það, sem hins vegar er að gerast með þessu frv., eins og hæstv. fjmrh. tók fram, er, að það er verið að breyta vinnuaðferðinni við útsvarsálagninguna. Framkvæmdin hefur verið sú, að eftir að útsvar hefur verið á lagt, hafa verið gerðar verulegar lækkanir frá útsvarsstiganum í hinum einstöku sveitarfélögum, en mismunandi þó. Minnsta lækkun, sem gerð var á útsvarsstiganum 1963, var 8%, en mesta lækkun var 87%. Ef gerður er samanburður á útsvarsálagningu sveitarfélaganna í landinu í heild, hygg ég, að það komi nú í ljós, að engin tvö sveitarfélög hafi raunverulega lagt á eftir sömu reglum. Þegar útsvarsstiganum er breytt, eins og hér er gert með þessu frv., þýðir það, að afsláttur sá, sem áður var gefinn, feilur að mestu eða öllu niður, og mér sýnist, að hjá því hefði ekki orðið komizt, að ef þetta frv, hefði verið orðið að l. á s.l. ári, hefðu þau sveitarfélög, sem minnstan afslátt veittu, orðið að nota heimild l. til þess að hækka stigann, eins og l. heimila og nú í þessu frv. er gert ráð fyrir að megi fara allt að 20%. Það eru líkur fyrir því eftir þessa breytingu, að þannig geti farið, að sveitarfélög þurfi að nota sér þessa heimild. En ég vil þrátt fyrir þetta taka undir það, að þessi breyting, sem gerð er nú með persónufrádrættinum, er til bóta. Það sýndi sig í framkvæmd, að þegar var farið að lækka útsvörin jafnmikið og gert var hlutfallslega, eftir að þau voru á lögð, eyddi það persónufrádrættinum á hinum lægri útsvörum og þeir, sem hæsta brúttóútsvarið höfðu, fengu mestu lækkunina eftir þessum útreikningsaðferðum. Þess vegna er það ákvæði að breyta persónufrádrættinum, eins og nú er gert ráð fyrir í þessu frv., til bóta frá gildandi 1., og hefur sýnt sig við framkvæmdina, að þurfti að sveigja inn á þessa braut.

Annað ákvæði þessara l. er það, að skattstigarnir eða útsvarsstigarnir eða þrepin í stigunum voru 8 áður, sem lagt var á eftir, en nú eru þau aðeins 2. Það verður að segjast eins og er, að þetta er auðvitað auðveldara í framkvæmd, að hafa þrepin í útsvarsstigunum svo fá. Hitt gefur líka auga leið, að hér verður um grófari aðferð að ræða, ef svo mætti að orði komast, þar sem sveiflurnar verða minni eða tilvikin minni en áður var.

Eitt atriði er í frv. þessu, sem hæstv. ráðh. gat ekki um, en það er 8. gr. frv. Eitt af því, sem hæstv. fjmrh. boðaði á sínum tíma í sínum sparnaðartill., var framkvæmd skattalaga. Þar átti að koma við miklum sparnaði, sem þjóðin mundi njóta í framtíðinni. Það virðist nú hafa farið á annan veg en um sparnað væri að ræða í framkvæmd þeirra 1., en út í það atriði ætla ég ekki sérstaklega að fara nú. En eitt ákvæði núgildandi laga um tekjustofna sveitarfélaga er það, að sveitarstjórnunum er ekki heimilt lengur að framkvæma sjálfar útsvarsálagninguna, heldur er það skylda, að skattstofurnar skuli framkvæma hana. Það kom mjög fram á landsþingi sveitarfélaganna á s.l. sumri, að sveitastjórnir voru almennt óánægðar með þetta Fram var komin þá till. um það að skora á yfirvöldin að breyta þessu aftur, en samkomulag varð um að fela sambandsstjórn sveitarfélaganna að vinna að málinu, án þess að sérstaklega væri um það ályktað. Framkvæmdin, eins og hún var úti í þeim sveitarfélögum, þar sem ekki voru skattstofur, var þannig, að skattanefndirnar unnu úr skattskýrslunum heima fyrir og gerðu skrá yfir tekjur manna og afhentu sveitarstjórnunum þessar skrár ásamt framtölum, ef þær óskuðu þess, til þess að styðjast við útsvarsálagninguna. Þessa vinnu skattanefndanna þurftu sveitarstjórnirnar á engan hátt að greiða. Síðar vann svo sveitarstjórnin að útsvarsálagningunni og sá sjálf um að reikna útsvörin út. Nú er þessu þannig varið, að eftir að skattstofan hefur unnið úr skattskýrslunum og gert um það skrá vegna tekjuskattsins eða vegna skattanna, fá sveitarstjórnir eða framtalsnefndir, sem af þeim eru kosnar, þessar skýrslur til meðferðar ásamt framtölunum og vinna þetta mál upp aftur, og reynsla s.l. árs varð þannig, að það var miklu meiri vinna en áður hafði verið. Þegar svo þessu verki er lokið, sem er aðalverkið, og færðar á skrána tekjur, sem á að reikna útsvarið af, þá er raunverulega málið leyst, því að þá er hægt að vinna þetta á 1—2 dögum í meðalstóru sveitarfélagi og þaðan af stærra með venjulegum skrifstofuáhöldum. En samkv. núgildandi l. verður að senda þessi gögn aftur til skattstofunnar til þess að láta hana snúa reikningsvélum eða setja þau í skýrsluvélar, eins og gert var hér á Suður- og Suðvesturlandi. Framkvæmdin varð sú á s.l. ári, að það voru mjög fá sveitarfélög, sem gátu komið út sinni útsvarsskrá á eðlilegum tíma. Þeir, sem urðu að sæta þessu, komust ekki að öðru samkomulagi, fengu ekki sín útsvör útreiknuð fyrr en í september; október og jafnvel síðar. Nú þarf ekki að segja þeim, sem að framkvæmd þessara mála vinna, hvað það er fyrir sveitarstjórnir að fá svo seint álögð útsvör. Það auðvitað gerir það að verkum, að öli innheimta er komin úr lagi, seinvirk og jafnvel komin í stóra áhættu Ef mikil breyting verður á útsvörum til hækkunar, er innheimtan í stórkostlegri hættu, ekki sízt ef árferði versnar. Þess vegna var það ósk sveitarstjórnarmanna, að þessu ákvæði l. yrði breytt í heimildarákvæði, en ekki, að það verði gerð skylda sveitarstjórnar að gera þetta, því að svo, þegar búið er að gera þetta og sveitarstjórnin er búin að leggja yfir þessa útreikninga blessun sína, breytingar í sambandi við kærur óg annað því um líkt, á enn á ný að senda þetta til skattstjórans, svo að eftirlitið af hálfu skattstofunnar ætti að vera tryggt, þó að sveitarstjórnirnar yrðu látnar reikna út sín eigin útsvör, eins og nánast er ekki um annað að ræða í þessu tilfelli. En í staðinn fyrir að breyta þessu þannig, gera þetta heimildarákvæði, er gert ráð fyrir því í 8. gr. þessa lagafrv., að sveitarstjórnirnar eigi nú að greiða fyrir það, að skattstofan tefji fyrir framkvæmd á eðlilegri útsvarsálagningu. Mér finnst það mjög aftan að siðunum farið og nóg að verða að þola það, að vegna þessara framkvæmda er kannske þessi höfuðtekjustofn sveitarfélaganna í nokkurri hættu, þó að það verði ekki að greiða fyrir það að auki.

Nú vildi ég beina því til hæstv. fjmrh., sem fer með sveitarstjórnarmál, og hv. heilbr: og félmn., sem fær þetta mál til meðferðar, að hún taki nú það atriði upp að breyta 65. gr. tekjustofnalaganna á þann veg, að þetta verði aðeins heimilt, að sveitarstjórnum sé heimilt að fá skattstofurnar til þess að reikna út útsvörin og greiða þá fyrir þá vinnu, en það sé ekki skylda. Það hefur sýnt sig, að þetta er allt of þungt í vöfum, og ef þetta á að vera til þess að tryggja það, að sveitarstjórnirnar reikni rétt út útsvör, sem mér finnst næsta óeðlilegt að ætla þeim að þær geri ekki, því að þær eru þá ekki færar um að stjórna sínum sveitarfélögum, þá hafa skattstofurnar allan aðgang og möguleika til þess að fylgjast með þessu atriði í framkvæmd, þó að þær annist ekki sjálfar þennan útreikning, sem er sveitarfélögunum að verulegu leyti til tafar og á engan hátt neinn greiði gerður. Og það er ekki hægt að réttlæta það að krefja sveitarfélögin um greiðslu fyrir það verk, sem þau vilja ekki láta aðra vinna fyrir sig.