11.10.1963
Sameinað þing: 0. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í B-deild Alþingistíðinda. (9)

Rannsókn kjörbréfa

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Mig langar til þess að fara aðeins örfáum orðum um þá tíu atkvæðaseðla í Norðurlandskjördæmi vestra, sem kjörstjórnarmeirihl. á Siglufirði neitaði að taka við. Ég ætla, að það sé mjög óvenjulegt tilvik, og raunar ætla ég, að það sé alveg einstakt tilvik. Samkv. 71. og 76. gr. kosningalaganna á að veita utankjörstaðaratkvæðum móttöku, á meðan atkvgr. á kjörfundi er ekki lokið, og með leyfi hæstv. forseta vildi ég mega vitna í þessi ákvæði. Í næstsíðustu mgr. 71. gr. segir svo:

„Þau bréf, sem koma þar á eftir til kjörstjórnarinnar, en þó áður en atkvgr. er lokið, skulu tölusett með áframhaldandi töluröð án þess þó að innfærast á skrána, og skal tölu þeirra getið í kjörbókinni.“

Ég leyfi mér að vekja athygli á þessum orðum, sem þarna standa: „en þó áður en atkvgr. er lokið.“ Í 76. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú hefur kjörstjórn borizt atkvæðakassi með atkv. greiddum utan kjörfundar, og skal þá athuga á sama hátt og að framan segir, hvort innsigli kassans séu heil og ósködduð. Oddviti opnar síðan kassann, og telur kjörstjórnin bréfin og ber þau saman við skrána, sem fylgir (sbr. 71. gr.) Bréfin leggur hún til hliðar og varðveitir þau, meðan atkvgr. fer fram, ásamt þeim atkv. greiddum utan kjörfundar, er henni kunna að hafa borizt eða berast, meðan á atkvgr. stendur.“

Ég held að af þessum ákvæðum sé það alveg ljóst, að úrlausn þeirrar spurningar, hvort það hafi átt að veita móttöku hér umræddum atkv., sé alveg undir því komin, hvort atkvgr. var lokið eða ekki, þegar þessi atkvæðabréf bárust kjörstjórninni.

Það er upplýst og viðurkennt, að kjörstjórnarmenn á Siglufirði áttu sjálfir eftir að kjósa, þegar þessi atkv. bárust til þeirra. Mér sýnist því úrlausn þess, hvort kjörstjórnarmeirihl. á Siglufirði fór rétt að eða ekki, þegar hann synjaði atkv. þessum móttöku, velta á því, hvenær á að telja atkvgr, lokið. Á að telja atkvgr. lokið, þegar allir viðstaddir kjósendur, þ. á m: kjörstjórnarmenn, hafa greitt atkv.? Eða á að telja atkvgr. lokið, þegar viðstaddir kjósendur nema kjörstjórnarmenn, þ.e.a.s. að kjörstjórnarmönnum undanskildum, hafa greitt atkv.? Þannig virðist mér kjörstjórnarmeirihl. á Siglufirði hafa skilið þessi ákvæði. Það held ég, að hljóti að vera rangur skilningur, og því til stuðnings vil ég leyfa mér að benda á 94. gr. kosningalaganna, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar allir viðstaddir kjósendur hafa átt kost á að greiða atkv., greiðir kjörstjórnin atkv. á sama hátt og aðrir kjósendur.“

Og síðan í beinu framhaldi af þessu segir í upphafi 95. gr.:

„Að atkvgr. lokinni opnar oddviti umslög þeirra bréfa, sem kjörstjórninni hafa borizt með utankjörfundaratkvæðaseðlum og ekki hafa verið aftur heimt.“

Þetta atriði eitt, hvort atkvgr. var raunverulega lokið eða ekki, átti að mínum dómi að ráða úrslitum um það, hvort atkv. var veitt móttaka eða ekki. Ég skal alveg láta liggja á milli hluta önnur atriði í þessu máli, eins og t.d. þá spurningu, hvort klukkan hafi verið orðin 23, hvort mistök hafi átt sér stað hjá þeim, sem áttu að koma atkvæðaseðlunum til skila, hvort kjörfundarstofu hafi raunverulega verið lokað eða ekki. Að sjálfsögðu geta öll þessi atriði haft ýmsar lögfylgjur í för með sér, en þau eiga ekki að verka á það, hvort utankjörstaðaratkvæði, sem á annað borð eru komin í hendur kjörstjórnar, áður en atkvgr. lýkur, séu tekin gild eða ekki.

Ég tel, að þegar litið er yfir þessi ákvæði, þá hafi hér átt sér stað mjög veruleg mistök af hálfu meiri hl. kjörstjórnar á Siglufirði. Úr því sem komið er, verða þau mistök hins vegar ekki leiðrétt. Og eins og skýrt hefur verið hér frá af hv. frsm. kjördeilda, hefði þessi 10 atkv., þótt gild hefðu verið tekin, ekki getað raskað kosningaúrslitum. Að svo vöxnu máli get ég fyrir mitt leyti fallizt á þá afgreiðslu, sem hér er gerð till. um, að kjörbréf öll séu að sjálfsögðu tekin gild, en þessum deiluatriðum vísað til væntanlegrar kjörbréfanefndar til athugunar. En ég vil taka það mjög skýrt fram, að í því felst ekki samkv. mínum skilningi, að nein blessun sé lögð yfir ákvörðun meiri hl. kjörstjórnar á Siglufirði í þessu máli, heldur felst samkv. mínum skilningi í því það eitt, að þingið tekur a. m. k. að svo stöddu alls enga afstöðu til þess, hvort ákvörðun meiri hl. kjörstjórnar var rétt eða röng. Þetta vil ég taka hér skýrt fram, ef svo skyldi fara, að væntanleg kjörbréfanefnd teldi ekki ástæðu til að beina þessu máli aftur til þingsins. Og að lokum vil ég svo segja það, að þessi mistök, sem ég tel að þarna hafi átt sér stað, svo og aðrir ágreiningsseðlar, sem hafa legið fyrir kjördeildum og sumir hverjir að mínu viti a. m. k. hefðu tvímælalaust átt að teljast gildir, vekja til umhugsunar um það, að kosningalögin þarf vissulega að bæta þannig, að það verði séð fyrir óháðum dómstóli til þess að skera úr svona atriðum, hreinum júridískum atriðum, áður en kosningaúrslit eru birt.