19.03.1964
Neðri deild: 71. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í B-deild Alþingistíðinda. (911)

195. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Með frv. þessu er lagt til, að skyldusparnaður unglinga, sem í lögum hefur verið síðan 1957, verði hækkaðaður mjög verulega eða úr 6% upp í 15%. Eftir því sem segir í grg. frv., er reiknað með því, að é þennan hátt fái húsnæðismálakerfið um 30 millj. kr. á ári í aukið starfsfé fyrstu árin, en að þessi upphæð muni hins vegar fara nokkuð minnkandi, eins og gefur að skilja, þegar aftur fer að bera á því, að þetta fé verður tekið út aftur af þeim, sem það koma til með að greiða. Hér er sýnilega um mjög verulega hækkun á þessum skyldusparnaði að ræða, umtalsverða, og verður því ekki neitað, að hér er stigið æðistórt skref varðandi fjáröflun til þessa kerfis, miðað við þennan einstaka lið, sem hér er fengizt við.

Þegar lögin um skyldusparnað, voru sett á árinu 1967, stóðum við Alþb.-menn að þeim lögum. Þá var Sjálfstfl. hér á Alþingi á móti ákvæðunum um skyldusparnað, taldi þeim flest til foráttu. En nú virðast sjálfstæðismenn standa hér að frv. um að hækka þennan skyldusparnað um 150% frá því, sem hann hefur verið. Við erum á þeirri skoðun, Alþb. menn, að það sé ástæða til þess að hækka þetta skyldusparnaðargjald nokkuð. Hins vegar getur leikið nokkur vafi á því, hvað á að hækka gjaldið mikið, og við erum á þeirri skoðun, að það sé erfitt að taka þennan lið einan út af fyrir sig og hækka hann svona mikið, án þess að nokkrar aðrar ráðstafanir verði gerðar um leið.

Það eru ekki aðeins unglingarnir í landinu einir saman, sem eiga að leggja fram fé það, sem þarf að nota nú í dag til húsbygginga. Það geta vissulega fleiri komið hér til að eiga að leggja fram fé til þess að leysa þennan vanda. Ég held því, að það sé brýn nauðsyn á því, eins og húsnæðismálin standa nú í dag, að það séu gerðar miklu víðtækari breytingar en þær, sem felast í þessu frv. Það er vel hægt að fallast á það að hækka skyldusparnaðinn svona mikið, eins og lagt er til í þessu frv., ef ýmsar aðrar ráðstafanir eru gerðar um leið gagnvart ýmsum öðrum aðilum. Það hefur lengi verið einn aðalvandi húsnæðismálakerfisins, að sjálft kerfið hefur ekki haft nægilega mikið af eigin tekjum til þess að lána út. Starfsemin hefur að langmestu leyti verið rekin á þeim grundvelli, að útvega hefur þurft lán til stofnunarinnar frá öðrum, og hún hefur síðan framlánað þau lán til húsbyggjenda, en það ástand hefur vitanlega haldið þessari stofnun alltaf í sama vandanum eða jafnvel í vaxandi vanda, eftir því sem kröfurnar hafa orðið meiri um lánveitingar úr þessu kerfi, á meðan ekki hefur tekizt að byggja upp eigin fjárhag þessa útlánakerfis.

Þegar skyldusparnaðurinn var lögtekinn árið 1957 og l. um húsnæðismálastjórn voru sett, var gerð tilraun til þess að afla þessu kerfi nokkurra tekna, og skyldusparnaðarókvæðið var aðeins eitt af þessum ákvæðum, sem þá voru lögfest. Þá var t.d. ákveðið, að hið nýja kerfi skyldi fá allmikil framlög, óafturkræf framlög frá ríkissjóði. Ríkissjóður hafði áður veitt nokkur lán, sem síðan höfðu verið framlánuð húsbyggjendum, en með þessum lögum var ákveðið að breyta þeim lánum í óafturkræf framlög, sem húsnæðismálastofnunin þar með eignaðist sem sitt eigið fé. Í öðru lagi var svo ákveðið í þessum lögum, að 2/3 hlutar af stóreignaskattinum, sem þá v ar verið að leggja á og áætlað var að mundi nema í kringum 60 millj, kr., skyldu renna sem óafturkræft framlag til húsnæðismálakerfisins. En reynslan hefur nú orðið sú, að þeir, sem með völdin fara í landinu í dag, hafa gert þetta ákvæði að engu með því að innheimta ekki stóreignaskattinn nema þá að sáralitlu leyti, og þannig hafa þeir orðið þess valdandi að svipta févana húsnæðismálakerfi þessum tekjustofni. Það virtist sem sagt koma heldur óþægilega við suma aðila í landinu að láta stóreignamenn í landinu borga nokkurn skatt í þessu skyni, þó að þeir geti hins vegar verið með því í dag að hækka nokkuð skyldusparnaðarákvæði á unglinga. Þegar þessi lög voru sett, var auk þess lögfestur ákveðinn tekjustofn handa húsnæðismálakerfínu, sem nam 1% af innheimtum tollum og sköttum til ríkissjóðs. Og í fjórða lagi kom svo ákvæðið um skyldusparnaðinn, sem þá nam 6%. Það var því alveg augljóst, að þegar þetta ákvæði var sett í lög, var það aðeins einn liður af fleirum, sem áttu að byggja upp fjárhag þessarar stofnunar.

En það hefur lengi verið þörf á því að stíga hér viðbótarskref við þau, sem þarna voru stigin 1957. Það hefur lengi verið þörf á því að efla húsnæðismálakerfið enn meira en þarna var gert, ekki sízt vegna þess, að húsnæðismálakerfið var svipt stóreignaskattsframlaginu, sem gert hafði þó verið ráð fyrir. En um það er ekkert að villast, að húsnæðismálakerfið hefur þó byggt að mjög verulegu leyti á þessum tekjustofnum, sem þarna voru lögfestir á sínum tíma, og ólíkt hefði gengið verr að leysa þennan vanda á undanförnum árum, ef þessir tekjustofnar hefðu þó ekki verið ákveðnir með l. á þessum tíma.

S.l. ár mun húsnæðismálakerfið hafa haft yfir að ráða kringum 100 millj. kr. til útlána. Af þessu fé hafði stofnunin sjálf af eigin tekjum kringum 50 millj. kr., en fékk svo til viðbótar frá atvinnuleysistryggingunum kringum 40 millj. kr. En framlög frá ýmsum öðrum aðilum, sem oft hafa verið tilnefndir að ættu að leggja hér fram nokkurt viðbótarfé, eins og frá ríkissjóði og frá vátryggingakerfinu í landinu og bönkum landsins, — framlag frá þessum aðilum hefur verið. sáralitið. Mér skilst, að frá tryggingafélögunum í landinu hafi þetta kerfi fengið á s.l. ári 1.9 millj. kr. og frá bankakerfinu í landinu hafi það á s.l. ári fengið 700 þús. kr., ekki 1 millj. Eftir því sem mér skilst, hefur skyldusparnaðarkerfið, sem í gildi hefur verið, tryggt húsnæðismálakerfinu á undanförnum árum milli 70 og 80 millj. kr. til útláns.

Það er enginn vafi á því, að það er þörf á því að auka við tekjustofna húsnæðismálakerfisins og þessi leið, sem hér er minnzt á í þessu frv., kemur til greina sem ein leið. En það er ekki hægt að víkja sér undan þeim vanda, að það verður að gera meira en lagt er til í þessu frv., og það er varla sanngjarnt að hækka þetta gjald svona mikið eins og þarna er lagt til, á sama tíma sem ekkert frekar er gert í málinu. Það er ekki heldur hægt að una öllu lengur við það misrétti, sem raunverulega á sér stað með lánveitingar úr þessu kerfi, eins og það hefur verið rekið, því að um það er ekki að villast, að þeir aðilar í landinu, sem búa við þá aðstöðu að geta fengið lán úr hinum almennu lífeyrissjóðum, sem eru orðnir býsna margir, njóta í framkvæmdinni algerrar sérstöðu um lán úr hinu almenna veðlánakerfi. Það mun vera orðið svo, að hinir almennu lífeyrissjóðir í landinu lána út nú á hverju ári kringum 160 millj. kr. En þeir aðilar, sem þau lán hafa úr lifeyrissjóðum sínum, geta einnig komið í hið almenna veðlánakerfi og fengið mikinn hluta af þeim 150 þús. kr. lánum, sem þaðan eru veitt til hvers húsbyggjanda. En þeir fjölmörgu aðilar í landinu, eins og t.d. verkamenn, iðnaðarmenn og sjómenn yfirleitt, sem eiga ekki aðgang að neinum lífeyrissjóðalánum og verða að láta sér nægja það hámarkslán, sem veitt er úr almenna veðlánakerfinu, 150 þús. kr. lán, komast vitanlega afskaplega skammt með slík lán til þess að komast yfir venjulegar íbúðir, eins og þær kosta nú. En þrátt fyrir það, þó að svona sé, hefur þannig verið haldið á málunum, að það er einmitt sjóður þessara aðila, sem hér er verst á vegi staddur, það er einmitt sjóður verkamanna og almennra sjómanna og iðnaðarmanna. Atvinnuleysistryggingasjóðurinn, sá sjóður, sem þessir aðilar hafa byggt sér upp, verður að leggja af mörkum megnið af því fé, sem hið almenna veðlánakerfi hefur til útlána, en síðan gengur til þeirra aðila að mjög verulegu leyti, sem hafa sérstöðu um möguleika til lána til húsbygginga. Þetta atriði, eins og mörg önnur fleiri í sambandi við rekstur þessarar veðlánastarfsemi, er þess eðlis, að það er ekki hægt að una við þetta miklu lengur. Það verður að gera á þessu breytingar. Um leið og fjár er aflað til kerfisins, þá verða þarna að verða mjög verulegar breytingar. Enginn hefur vitanlega treyst sér til þess að leggja það til, að þeir aðilar, sem njóta lána úr lífeyrissjóðunum, verði útilokaðir frá því að fá lán úr hinu almenna veðlánakerfi, vegna þess að lán þeirra, þó að úr báðum stöðunum komi, eru sízt of há. En þetta kallar þá bara enn þá meira á það, að hlutur hinna, sem nú er lakastur fyrir, verði réttur. Af því er það, sem við höfum margsinnis á það bent, að það er full ástæða til þess, að það té, sem kemur frá atvinnuleysistryggingunum og er ætlað til íbúðalána, verði alveg sérstaklega lánað þeim aðilum, sem eiga þann sjóð og nú standa höllustum fæti í sambandi við þessi íbúðabyggingamál.

Auðvitað er vandi húsbyggjenda alltaf að verða meiri og meiri, það gerir hin sífellda verðlagshækkun í landinu. Það er ekkert um það hægt að deila, að sú hefur orðið niðurstaðan nú á síðustu árum, að verðhækkunin hefur orðið svo mikil við húsbyggingar, að verðhækkunin á meðalíbúð á síðustu 4 árum nemur mun meira en því, sem hámarkslán veðlánakerfisins nemur. Aðstaða húsbyggjenda hefur því stórkostlega versnað írá því, sem áður var, og var hún þó nógu léleg fyrir. Það er vitanlega alveg þýðingarlaust að nefna í þessum efnum tölur um það, að hið almenna veðlánakerfí hafi lánað út heldur fleiri krónur nú en gert var fyrir nokkrum árum, þegar kostnaður við byggingarnar er orðinn svona miklum mun meiri en hann var, kostnaðaraukinn er miklum mun meiri en sem nemur öllu láninu, sem veitt er. Það er því orðin brýn nauðsyn á því í þessum efnum einnig, að lán húsnæðismálakerfisins verði hækkuð til muna frá því, sem áður var, og það heimtar auðvitað, að það komi til miklu fleiri nýir tekjustofnar en sá, sem hér er minnzt á í þessu frv. Ég vil því leggja á það áherzlu nú hér við 1. umr. þessa máls, að ég álít, að það sé í rauninni ómögulegt að taka á þessu vandamáli á þann hátt að ætla sér að einangra afgreiðslu málsins við þennan þátt einan, sem hér er fjallað um í þessu frv. Það er engin sanngirni að taka þannig á málinu, og það leysir svo sáralítið af vandanum, að það er ekki viðunandi.

Hér verður að velja úr þeim till., sem fram hafa komið, og margsinnís hafa verið ræddar hér á Alþingi, um tekjuöflunarmöguleika handa þessu kerfi og breytingar á kerfinu um leið. Ég skal nefna hér nokkrar leiðir, sem hér hefur verið minnzt á. Það kann vel að vera, að það séu ekki allir algerlega sammála um það, hvernig fé til kerfisins skuli koma, en á þessar leiðir hefur verið minnzt hér, till. hafa verið fluttar um þær, og það ber að takast á við þennan vanda og velja úr þessum till. Í fyrsta lagi hafa komið hér fram ýmsar till. um það, að þetta kerfi eigi að fá beint framlag frá ríkissjóði árlega. Og það er suðvitað alveg útilokað, að ríkið skjóti sér undan þessum vanda á þann hátt, að afgreidd séu hér fjárlög upp á nærri 3000 millj. kr., án þess að gert sé ráð fyrir því að leggja til lausnar á slíku vandamáli eins og þessu 50–100 millj. kr. á ári. Um minni upphæð má þar í rauninni ekki vera að ræða. Það hefur verið lagt til í öðru lagi, að til komi sem tekjur fyrir húsnæðismálakerfið nokkur hluti af gróða bankanna á ári hverju. Það hefur í þriðja lagi verið minnzt á það að leggja nokkurt prósentugjald á fasteignir í landinu, á öll hús og lóðir, og miða við fasteignaverðmæti þeirra. Fasteignir hafa farið verulega hækkandi í verði, og þeir, sem þær eiga, hafa verið að græða á undanförnum árum vegna verðlagsbreytinga í landinu. Það hefur verið minnzt á það í fjórða lagi, að atvinnurekendur í landinu yrðu látnir borga eitthvert lítið gjald árlega til þess að byggja upp tekjur þessarar stofnunar. Í fimmta lagi hefur það verið lagt til, að vátryggingafélögin í landinu yrðu skylduð með lögum til þess að leggja nokkurt fé fram til þessa kerfis. Í sjötta lagi hefur það komið fram hér að skylda bankakerfið í landinu til þess að leggja fram, sem lán að vísu, vissan hluta af sparifjáraukningunni, sem verður í landinu á hverjum tíma. Og í sjöunda lagi hafa svo komið fram till. um það, að atvinnuleysistryggingasjóðurinn leggi fram nokkurt fast árlegt framlag eða lán til kerfisins með hagstæðum kjörum og þá alveg með sérstöku tilliti til þess, að það fé kæmi til góða meðlimum þess sjóðs, sem nú standa, eins og ég hef sagt áður, alveg sérstaklega höllum fæti í þessum efnum. Í áttunda lagi hafa svo verið till. um það, að lífeyrissjóðakerfið í landinu legði hér fram nokkurn hluta til uppbyggingar á hinu almenna veðlánakerfi, á meðan allir lífeyrissjóðsþegar eiga rétt á lánum úr þessu kerfi, eins og aðrir. Fleiri till. hafa eflaust komið fram, en þessar hafa m.a. komið fram, og þá á að velja úr þeim og skapa veðlánakerfinu eðlilegar, árlegar tekjur, svo að hægt sé að hækka lánin, lengja lánin frá því, sem nú er, og gera lánskjörin almennt séð hagstæðari eða betri.

Og svo kemur auk þess til sú tekjuöflun, sem minnzt er á í þessu frv. og ég álít, að sé réttmæt, þó að um það megi nokkuð deila, hvað á að hækka þetta gjald mikið. Hér er farið í býsna mikla hækkun, að fara alveg upp í 15%, og getur auðvitað óneitanlega komið nokkuð hart við í sumum tilfellum, því að þótt svo sé ástatt í mjög mörgum tilfellum, — það skal játað, — að ungmenni á þessum aldri, frá 16 árum upp í 25 ár, eyði fjármunum sínum á gálauslegan hátt, fari illa með fé, þá verður hinu ekki heldur neitað, að þau ungmenni eru líka til æðimörg í landinu, sem leggja meginhlutann af tekjum sínum til að halda uppi heimili, til þess að aðstoða foreldra sína og aðra við að byggja yfir heimilin, slík dæmi eru mörg, eða við að aðstoða heimílin á annan hátt, og það er býsna mikill skattur á slíka aðila að láta taka 15% af þeirra kaupi og binda það þennan tíma. En þó mundi ég ekki mæla gegn því, að það yrði gert, ef þetta yrði einn liður af mörgum í sambandi við alhliða fjáröflun til þessa kerfis, til þess að leysa þetta nauðsynjamál, sem íbúðabyggingarnar eru. En að ætla sér að taka þannig á þessu mikla vandamáli að hækka aðeins þetta gjald, en láta hitt allt saman óleyst, bæði varðandi fyrirkomulag og starfsemi kerfisins og eins viðvíkjandi tekjuöflun þess, nær auðvitað engri átt og allra sízt eins og ástandið er núna í verðlagsmálunum, þegar byggingarkostnaður m.a. fer ört hækkandi frá degi til dags.

Ég vil því vænta þess, að sú nefnd, sem tekur þetta mál nú til athugunar, hugleiði þetta og komi fram með brtt. á þessu frv., og auk þess vildi ég alveg sérstaklega beina þeim óskum til hæstv. ráðh., sem með þetta mál hefur að gera, að hann vildi stuðla að því, að málið yrði leyst á miklu víðtækara grundvelli hér í meðförum þingsins en gert er ráð fyrir í þessu frv.