19.03.1964
Neðri deild: 71. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (913)

195. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þær umr., sem hér hafa farið fram, hafa nú meir snúizt um aðra hluti en beinlínis það frv., sem fyrir liggur. Þó lýsti hv. 1. þm. Austf. því yfir, að hann væri frv. fylgjandi, og er ég honum þakklátur fyrir það. En aðrir, sem til máls hafa tekið, hafa meir drepið máli sínu á dreif og rætt um húsnæðismál almennt, og ég skal þá með nokkrum orðum reyna að svara því, sem fram hefur komið og beinlínís kallar á svar.

Hv. 5, þm. Austf. taldi að vísu, að þetta frv. væri til bóta, að mér skildist, að hann gæti á það fallizt, að hækkunin væri allveruleg að hans dómi, en vildi, að um leið væri tryggt, að fleiri tekjustofnar kæmu til. Ég sagði það í upphafi míns máls, að þetta frv. leysti ekki allan vanda og það væri aðeins einn liður í þeim ráðstöfunum, sem fyrirhugaðar væru, og þarf ég þess vegna ekki að svara hv. þm. frekar þessari aths., því að í því, sem ég sagði í upphafi um málið, liggur það, að þetta er einungis einn liður í fjáröflunarplani ríkisstj. handa húsnæðismálastjórn.

Hann sagði eitthvað á þá leið líka, að það væri ekki sanngjarnt að hækka skyldusparnaðinn svo mikið sem hér er gert ráð fyrir, á meðan ekkert annað væri gert og ekki fram komið annað frv. en þetta. Út af þessu get ég gjarnan lýst því yfir, að það eru búnar að vera um alllangan tíma til athugunar ýmsar aðrar fjáröflunarleiðir, m.a. nokkrar þeirra, sem hv. þm. minntist hér á. Málið er ekki hvað þær snertir komið það langt, að hægt hafi verið að útbýta hér frv. eða skýra frá samkomulagi, sem orðið hefði út af þeim athugunum, en ég get gjarnan svarað fyrstu fsp. hv. 5. þm. Reykv., sem ég held að hafi verið eitthvað á þá leið, hvort frekari fjáröflunarfrv. væri að vænta á þessu þingi, að ég vonast til, að það verði hægt í framhaldi af þessu frv., sem hér hefur verið til umr. En ég vildi í þessu sambandi undirstrika það, að tilgangurinn með hækkun skyldusparnaðarins er raunverulega tvíþættur. Hann snýr öðrum þræði að húsnæðismálastjórn og auknum tekjuöflunum handa henni. En hann snýr líka að eiganda skyldusparnaðarins sjálfum og gerir honum mögulegt að standa betur að vígi við sína húsbyggingu en hann mundi hafa gert, ef þessi hækkun hefði ekki verið framkvæmd. Það er, eins og líka kom fram í ræðu hv. 5. þm. Reykv., í mörgum tilfellum erfitt fyrir menn að standa undir þeim lánum, sem þeir þurfa að taka, vegna þess, hve byggingarkostnaðurinn er orðinn mikill, og gildir þá einu, hvort lánin eru fengin hjá húsnæðismálastjórn eða annars staðar. Vexti og afborganir þarf að borga og þær greiðslur eru orðnar það miklar; að það er oft og tíðum erfitt fyrir menn að geta staðið undir þeim. En það ætti vissulega að hjálpa, ef skyldusparnaðurinn yrði það mikill, að um hann munaði verulega, þegar út í húsbyggingarnar væri farið. Ég veit ekki, hversu mikill skyldusparnaðurinn getur orðið á 10 árum, miðað við, að hann verði 15% af launatekjum, en segja mætti mér þó, að það yrði mjög veruleg upphæð. Ef maður gerði ráð fyrir, að þessir unglingar hefðu kannske 60–100 þús. kr. á ári í tekjur, þá sér hver maður, hvað út úr því mundi koma á 10 ára bili og gæti orðið það stór liður í byggingarkostnaðinum, að verulega munaði um að þurfa ekki að taka hann að láni a.m.k.

Um spurningar hv. 5. þm. Reykv. skal ég að öðru leyti segja það, að þær eru þannig samsettar, að ég á ekki gott með að svara þeim á þessu stigi, vegna þess að ákvörðun hefur ekki enn verið tekin um mörg atriði, eins og t.d. um það, hvaða fjármagn verði til ráðstöfunar. Það liggur ekki fyllilega fyrir enn þá og þar af leiðandi ekki heldur, hvenær hægt er að úthluta því. Okkur er það alveg ljóst, að það er æskilegt og nauðsynlegt að geta fengíð tekna ákvörðun um þetta sem allra fyrst, og eins hitt, að úthlutun lánanna geti farið sem fyrst fram. Hvort lánin verða hækkuð, er náttúrlega undir því komið fyrst og fremst, að fé fáist til útlánanna. Að hækka lánin dugir ekki eitt út af fyrir sig, nema því aðeins að það sé aflað þess fjár, sem þarf til þess að veíta lánin. Í skýrslu Hoffmanns bankastjóra, sem minnzt var hér á áðan, er gert ráð fyrir því, að eðlileg byggingarþörf Íslandi sé í kringum 1500 íbúðir á ári, og gert ráð fyrir, að af þessum 1500 íbúðum komi helmingurinn til með að þurfa á lánum að halda hjá húsnæðismálastjórn eða 750 íbúðir. Ef lánin á hverja íbúð yrðu hækkuð, segjum tvöfölduð, eins og hér var nefnt áðan, þannig að þau yrðu 300 þús. kr. á íbúð, sem hv. 5. þm. Reykv. virtist þó telja fulllítið, þá er maður kominn upp í tvöfalda upphæð á við það, sem hæst hefur verið úthlutað hingað til, eða kominn í milli 200 og 300 millj. kr. á árl, og eins og landið liggur núna, er sú upphæð ekki til fyrir hendi, og verður auðvitað að gera sérstakar ráðstafanir til þess að afla hennar. Við þetta bætist svo það, að enn liggur óafgreiddur hjá húsnæðismálastjórn mikill fjöldi umsókna um lán og miklu fleiri en 750, sem ég nefndi áðan, að Hoffmann bankastjóri hefði talið eðlilegan, — mikill fjöldi, og sérstaklega hafa safnazt á s.l. ári margar umsóknir, sem ekki hefur verið hægt að sinna, þó að á því ári hafi verið úthlutað meira fé til þessara mála en nokkru sinni áður. Ég get þess vegna ekki svarað þessum spurningum hv. þm. núna. E.t.v. verður það hægt síðar, þegar málið liggur ljósara fyrir.

Ég tel alveg sjálfsagt, að hv. heilbr.- og félmn. athugi málið frá öllum hliðum, eins og hér hefur verið óskað eftir. Það er venja n. að gera það og ekkert um það að segja nema gott, en ég vil bara í því sambandi benda á, að það eru enn ókomin nokkur frv. til viðbótar við þetta og í beinu framhaldi af því.