29.04.1964
Neðri deild: 86. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (916)

195. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft til athugunar frv, til l. um breyt. á l. um húsnæðismálastofnun o.fl. á þskj. 393. Frv. er eingöngu um breytingar á l. að því er snertir skyldusparnað unglinga, eða fólks á aldrinum frá 16–25 ára. Meginbreytingarnar, sem frv. hefur í för með sér, eru einkum þrjár. Í fyrsta lagi hækkar skyldusparnaðurinn úr 6% í 15%. Í öðru lagi eru nú tekin af tvímæli um það, að fólk, sem hefur sparað saman á þennan hátt, nýtur nú forgangsréttar til lána hjá húsnæðismálastjórn, en áður naut þetta fólk forgangsréttar að öðru jöfnu. Nú eru orðin „að öðru jöfnu“ felld niður, þannig að ákvæðið er skýrara en áður var, en jafnframt er hækkaður sá sparnaður, sem við skyldi miðað, til þess að fólk nyti þessa forgangsréttar, úr 25 þús. kr. í 50 þús. kr. Það er talið, að á fyrsta ári eigi þessi ráðstöfun eða þær breytingar, sem felast í þessu frv., að geta þýtt 30 millj. kr. fé, sem kæmi til húsnæðismálanna, eins og upplýst var hér á þingi í dag í umr. um fsp. í sameinuðu þingi.

Við 1. umr. þessa máls hygg ég, að ekki hafi verið neinn ágreiningur um það, að málið ætti að ná fram að ganga, þótt sumir ræðumenn teldu, að fleira þyrfti til að koma í húsnæðismálunum en þetta eitt. En þetta er að sjálfsögðu aðeins liður í þeim ráðstöfunum, sem ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar ætla sér að gera, til þess að reyna að leysa vanda þess fólks, sem þarf á lánum til íbúðabygginga að halda. Í heilbr.- og félmn. var ekki heldur ágreiningur um, að frv. ætti að ná fram að ganga, og n. mælti einróma með því, að það yrði samþykkt.