29.04.1964
Neðri deild: 86. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (917)

195. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að mótmæla þessu frv. eða tefja umr. í sambandi við afgreiðslu þess, en mig langar til að drepa á tvö atriði, sem varða framkvæmd málsins. Því miður er hæstv. félmrh. ekki viðstaddur, en ég vildi gjarnan mælast til þess, að hv. frsm. kæmi því þá áleiðis, sem ég kann um frv. að segja.

Ég vil fyrst taka það fram, að þegar skyldusparnaði var á komið hér 1958, var ég fylgismaður þess, að sú stefna yrði upp tekin, og ég hef sem sveitarstjóri kynnzt því nokkuð, að einmitt var þar farsælli stefnu fram komið á skyldusparnaði. Margt ungt fólk hefur komið til mín síðar, þegar það hefur verið að stofna heimili, og lofað guð hátt og í hljóði fyrir það að eiga þó þennan pening, sem þannig hefði sparazt, og látið í ljós áhuga á því, að gjarnan mætti það hafa verið meira, sem hefði verið lagt til hliðar einmitt á unglingsárunum og geymt væri til heimilisstofnunar. Þess vegna er ég einnig fylgismaður þess að hækka prósentuna, sem skyldusparnaðurinn nær til, og ég er sannfærður um, að það munu einnig verða margir, sem eiga eftir að lofa það að hafa safnað sér þannig fé. Og ég vil líka undirstrika það, að þetta hefur ekki einungis það gildi, að þetta unga fólk safnar þarna fé, heldur hefur það uppeldisleg áhrif, því að það kennir unga fólkinu að virða fjármuni meira og nota ekki alla þá fjármuni, sem það aflar, strax, sem sumt af því gerir á miður heppilegan hátt. Hitt vil ég svo segja, að mér virðist, að framkvæmdin á orlofslögunum hafi orðið mjög dýr, og ég er ekki heldur viss um, að það fyrirkomulag að greiða út skyldusparnaðinn með orlofsmerkjum sé alls kostar heppilegt og hef orðið var við, að á þeirri leið hafa komið fram gallar, og m.a. hafa þeir verið fólgnir í því, að sparnaðarmerkin hafa getað gengið kaupum og sölum og þannig hefur viðkomandi glatað þessum fjárhæðum. Ég hefði því mjög viljað beina þeim tilmælum til stjórnvalda landsins, sem um framkvæmd þessara laga eiga að sjá, að þessi aðferð um skyldusparnaðinn væri athuguð og fengnir til þess þeir menn, sem þar kunna bezt skil á, hvort ekki fyndist til önnur leið heppilegri en sparimerkin, sem nú eru afgreidd, og þá ber fyrst og fremst að stefna að þessu tvennu, að gera kostnaðinn við framkvæmdina sem minnstan og tryggja það, að hlutaðeigandi geti ekki glatað þessum fjárhæðum.

Í öðru lagi er það, að við það að taka svo háa prósentu eins og nú á að gera, leiðir það til þess, að unglingar þeir, sem legðu fyrir fjármuni sína heima fyrir í peningastofnun héraðanna, gera það að minna leyti og kannske litlu leyti, eftir að svona hár hlutur tekna þeirra er af þeim tekinn. Þess vegna getur það komið til með að draga fjárhæðir út úr slíkum peningastofnunum hingað til Reykjavíkur, og sjáum við, sem úti á landsbyggðinni búum og alltaf erum í fjárþröng, eins og aðrir, eftir því, að þetta skuli leiða til þeirrar þróunar. Þess vegna hefði ég viljað mælast til þess þrátt fyrir ákvæði 1., hvort ekki væri hægt að finna leið til þess, að þessa fjármuni mætti geyma í peningastofnunum héraðanna heima fyrir þann tíma, sem þeir væru ekki í notkun. Auðvitað hlýtur alltaf að safnast upp nokkurt fé þannig, og væri því heppilegt, ef hægt væri að finna leiðir til þess, að héruðin þyrftu ekki af þessum fjármunum að missa.

Þessum tveim atriðum vildi ég mega koma á framfæri við þessa umr. og endurtek það, að ég er stuðningsmaður frv.