30.04.1964
Neðri deild: 88. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

195. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég er hér með brtt., sem ég vil flytja við þetta frv. Það er skv. 1. gr. 1. málsgr. gert ráð fyrir því, að lagður verði í veðdeild Búnaðarbankans hluti af skyldusparnaðinum, eins og verið hefur. En þar sem skyldusparnaðurinn er vísitölutryggður og veðdeild Búnaðarbankans lánar aðeins til jarðakaupa, getur veðdeildin ekki ávaxtað þetta fé, og hefur það sýnt sig, að veðdeildin tapar á þessu fé, þar sem hún endurlánar það með tiltölulega lágum vöxtum, en vísitölutryggir það eigi að síður.

Þar sem stofnlánadeild Búnaðarbankans hefur miklu viðtækari heimildir til þess að lána en veðdeildin, þykir bankastjórn Búnaðarbankans eðlilegra, að þetta fé renni í stofnlánadeildina. Og því er það, að ég leyfi mér að flytja brtt., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Við 1. gr.

a) Í stað orðanna „veðdeild Búnaðarbanka Íslands“ í 1. mgr. kemur: stofnlánadeild landbúnaðarins við Búnaðarbanka Íslands.

b) 2. málsl. 4, málsgr. orðist svo: Þeir, sem lagt hafa fé í stofnlánadeild landbúnaðarins og vilja stofna bú í sveit, skulu njóta hliðstæðrar fyrirgreiðslu um lán til bústofnunar úr stofnlánadeildinni, enda verði þau lán veitt með sams konar vísitölutryggingu og hin vísitölubundnu lán húsnæðismálastjórnar.“

Búnaðarbankinn, veðdeildin, hefur þegar tapað allmiklu fé á því að vísitölutryggja þann vísitölusparnað sem hún hefur tekið á móti. Og með því að láta féð fara inn í stofnlánadeild landbúnaðarins er möguleiki á því að endurlána það með sömu kjörum og lán húsnæðismálastjórnar hafa verið lánuð. Og mætti þá hugsa sér að veita þessi lán til vélakaupa eða til félaga til stöðvarbygginga, eða lán, sem eru til tiltölulega stutts tíma, og jafnvel til bústofnskaupa, þar sem það yrði einnig að vera til tiltölulega stutts tíma, og ef verðbreytingar eru í landinu, þá hækkar verð bústofnsins. En það er því síður mögulegt fyrir veðdeild Búnaðarbankans að ávaxta og geyma þetta fé með sömu kjörum og áður, þar sem skyldusparnaðurinn hækkar úr 6% í 15%, og það fé, sem veðdeildin hefur þegar fengið, hefur valdið deildinni verulegu tjóni. Það er því eindregin ósk stjórnar Búnaðarbankans, að þessi till. verði samþykkt.

Ég vil leyfa mér að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir till.